Skipan nefndar til að kanna áhrif laga um LÍN á hagi námsmanna

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:06:17 (5817)


[14:06]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar fréttar sem kom í Tímanum um að hæstv. ráðherra hefði ekki vitað að þarna var um blaðaviðtal að ræða sendu þeir Aðalsteinn Leifsson, ritstjóri Stúdentafrétta, og Páll Magnússon, fráfarandi formaður Stúdentaráðs, frá sér sérstaka fréttatilkynningu um að það hefði öllum verið ljóst að þarna var um blaðaviðtal að ræða. Hins vegar er það ekki það sem skiptir máli heldur hitt að til stendur að þessi hópur verði skipaður. Og það liggur á að það verði gert því að auðvitað er það viðurkenning á hvernig komið er fyrir lánasjóðnum og fyrir námsmönnum sem þurfa að þola þær reglur sem þar eru að nú skuli stjórn lánasjóðsins hafa gert tillögur um breytingar á úthlutunarreglunum vegna þess að það er óbúandi við þessar reglur og þessi lög eins og þau eru. Ég hvet hæstv. menntmrh. til þess að hópurinn verði skipaður sem allra fyrst því það er full þörf á að kanna og fá óyggjandi niðurstöðu í því hver áhrifin eru.