Fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:10:14 (5858)


[18:10]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki leynt því að þegar ég sá þetta nál. þá fylltist ég satt að segja ótta um afgreiðslu þeirra mála sem hér eiga eftir að hellast yfir okkur áður en þingi lýkur. Sannleikurinn er sá að ég hafði minnst á það við hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, hv. 18. þm. Reykv. að ég hefði grun um að þessi þrjú þskj., nr. 431, 432 og 433 væru ekki í lagi. En hvorki hafði ég tíma né kunnáttu til að staðfesta þennan grun minn sjálf. Hér kemur auðvitað í ljós hjálparleysi hins háa Alþingis í vinnslu svona mála þar sem enginn aðili er hér til að aðstoða þingmenn við þessi mál. Það er allt sótt upp í ráðuneytin og sjálfstæði þingsins varðandi afgreiðslu slíkra mála er nánast ekkert. Ég verð satt að segja að hrósa hv. utanrmn. fyrir að hafa þó komið auga á þetta nema það hafi verið gert í utanrrn. eftir að þskj. voru lögð fram og þykir mér það nú eiginlega trúlegra. En við þetta verður auðvitað ekki búið. Sannleikurinn er sá að við vitum ekkert hvað við erum að afgreiða þegar slíkir doðrantar eru lagðir á borðin hjá okkur. Samlestur á slíkum samningum við önnur mál er auðvitað óunninn. Ég spyr varðandi margumrætt landbúnaðarmál sem var lögfest í dag. Það skyldi nú aldrei vera að eitthvað í þessum fríverslunarsamningum kynni að stangast á við þau lög. Nú veit ég það ekki en ekki kæmi mér það á óvart. Ég vil bara einfaldlega, hæstv. forseti, ítreka að það setur að mér ugg þegar hugsað er til allra þeirra mála sem við eigum eftir að afgreiða hér á hinu háa Alþingi sem koma unnin af slíkum flumbrugangi frá utanrrn. og er ætlast til að hv. utanrmn. keyri í gegn með offorsi. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort það sé tryggt að við séum ekki að ganga frá málum sem eru stórgölluð og ítreka að ég held að það verði ekki við það búið að á hinu háa Alþingi sé ekki starfsfólk til að fara ofan í öll slík mál.
    Við verðum að horfast í augu við að við erum búin að fela hinu háa Alþingi gjörsamlega ný verkefni með aðildinni að EES og við verðum að krefjast þess, hv. þm., að þingið sjálft ráði við að fara yfir slík mál. Þess vegna kvaddi ég mér nú hljóðs að mér finnst ógnvekjandi að sjá athugasemd eins og þessa á nál. frá hv. utanrmn. auk þess sem mér hefði fundist að það hefði átt að fylgja hverju máli nál. --- mér þykir það nokkur nýlunda að sjá nál. varðandi þrjú þingmál. Hefði þá verið nær að þingmálin hefðu verið á einu númeri. Þannig að hér eru teknir upp alls kyns siðir og vinnubrögð sem við eigum ekki að venjast. Þess vegna vildi ég að ég gæti treyst betur því sem hér er verið að leggja á okkar borð. En ég endurtek þakklæti mitt til hv. utanrmn. hafi hún virkilega komið auga á að þessi mál væru ekki í lagi.