Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:59:16 (5871)


[18:59]
     Ólafur Þ. Þórðarson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Hér er kynnt á dagskrá ákveðið mál, málefni aldraðra, stjfrv. Þetta mál er breyting á ákveðnum lögum, sem eru nr. 82/1989. Hér er svo komin breyting á lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta mál er yfir höfuð ekkert á dagskránni. Því ef það er hægt að taka upp svona aðferðir við lagasetningu þá þarf ríkisstjórn á haustdögum ekki að flytja nema eitt frv. Svo flytur hún bara breytingartillögur við allt frv., við þetta eina frv., sem dugar henni fram til vors og þá er spurning hvað þarf að nota nefndir þingsins yfir höfuð.
    Miðað við að nú hefur verið ráðist í mjög róttækt verk, að fylgjast með lesefni þingmanna, þá sýnist mér að það hljóti að vera eðlilegt að forsætisnefnd fari yfir það, alveg án nokkurra öfga, hvernig eigi að standa að því að tryggja það að þrjár umræður eigi sér ávallt stað um hvert mál sem flutt er í þinginu, frv. til laga, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir og þingsköpin ætlast til og jafnframt að 36. gr. þingskapanna sé virt, að með hverju frumvarpi komi greinargerð. Það blasir við að þessi aðferð gengur ekki upp að mínu viti. Ég tel að hér sé verið að fara í kringum bæði stjórnarskrána og þingsköpin og ég trúi því ekki að það sé með vilja hæstv. forseta að þannig sé staðið að framkvæmd þessara mála.