Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 19:42:14 (5888)


[19:42]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sýnir kannski meira en orð fá lýst sá þankagangur sem hér kemur fram í fjölmörgum stjórnarandstöðuþingmönnum sem hafa talað. Þá er einkum rætt um form en ekki efni málsins og þó að forseti hafi margítrekað að þetta mál verði skoðað milli umræðna þá halda menn samt sem áður áfram sama málflutningi og virðast ekki taka mikið tillit til þess sem forseti hefur sagt.
    Aðeins í sambandi við það sem síðasti ræðumaður kom inn á. Ég var ekkert að tíunda, hv. þm., afrek Reykjavíkurborgar frekar en annarra þó frv. sé til komið að beiðni borgarstjórnar Reykjavíkur. Vissulega hefur ágætlega verið á málefni aldraðra haldið í Reykjavík þó að auðvitað megi betur gera. Mönnum er kannski tamt að gagnrýna aðeins en ekki þakka það sem vel hefur verið gert. Og ég held að það sé ekkert að því þó að ég hafi nefnt Hrafnistu í Hafnarfirði sem væntanlegan möguleika í málefnum aldraðra. Það auðvitað kemur inn á svo víða hvert sem litið er. Mættu menn jafnframt minnast þess að þegar talað er um málefni aldraðra á höfuðborgarsvæðinu, þá er venjulega þannig til tekið, hv. þm., að það er ekki verið að fara endanlega út í hin ystu mörk byggða utan höfuðborgarsvæðisins.
    En mér finnst það ekkert óeðlilegt þó að þessi málflutningur sé hér viðhafður varðandi þessa tvo lagabálka sem tengjast málefnum aldraðra, annars vegar lög nr. 82/1989 og hins vegar lögin nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.