Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 14:03:21 (5922)


[14:03]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hæstv. félmrh. hefur mælt fyrir um reynslusveitarfélög er afsprengi þeirrar umræðu sem hefur verið undanfarið um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sameiningu sveitarfélaga og verkefnaflutning til þeirra.
    Ég vil taka það fram í upphafi að ég er sammála því meginmarkmiði að efla sveitarstjórnarstigið í landinu. Fyrir þessu verkefni um reynslusveitarfélög hefur verið mikill áhugi hjá sveitarfélögunum eins og kom fram í máli hæstv. félmrh. og sá áhugi er auðvitað af því sprottinn að sveitarstjórnarmenn álíta að verkefnaflutningur til þeirra muni efla sveitarstjórnarstigið, gera þeirra sveitarfélög öflugri til átaka, öflugri til að þjóna fólkinu. Það er því alveg nauðsynlegt að sú löggjöf sem hér er afgreidd frá Alþingi um reynslusveitarfélög sé skýr og sveitarstjórnarmenn viti að hverju þeir ganga í þessu efni.
    Ég held að þetta frv. þurfi mjög mikillar umfjöllunar við í félmn. Það er ýmsum spurningum ósvarað varðandi þetta verkefni og þessar hugmyndir eða framkvæmd þeirra hefur breyst í verulegum atriðum frá því að þær komu fyrst á dagskrá en það var í svokallaðri sveitarstjórnarnefnd sem hæstv. félmrh. skipaði fyrir nokkrum árum og vann að undirbúningi tillagna um sameininu sveitarfélaga og til hliðar kom þessi hugmynd upp um reynslusveitarfélög.
    Ég vil leyfa mér að vitna í hugmyndir sem komu fram í skýrslu sveitarfélaganefndar í þessu efni, en hugmyndirnar voru á þá leið að lögð yrði fyrir Alþingi á vorþingi 1993 þáltill. þess efnis að stofnað verði til allt að fimm reynslusveitarfélaga. Þessi þáltill. var lögð fyrir og samþykkt fyrir ári síðan. Fyrstu hugmyndir sem upp komu um þetta voru að sveitarfélögin yrðu tvö til þrjú en urðu í meðförum að fimm eins og þáltill. gerði ráð fyrir. Þær hugmyndir gera ráð fyrir að félmrh. skipi fjögurra manna verkefnisstjórn sem hefði yfirumsjón með tilraunaverkefninu. Sú stjórn hefur verið skipuð. Það verði unnið að gerð samnings um verkefni, tekjustofna, undanþáguákvæði og fleira milli reynslusveitarfélaganna annars vegar og félmrn. hins vegar að höfðu samráði við hlutaðeigandi fagráðuneyti. Og gert verði ráð fyrir því að lög um reynslusveitarfélög verði sett á árinu 1994 þegar drög að samningum milli ríkisins og reynslusveitarfélaganna liggja fyrir.
    Ég vil undirstrika þetta vegna þess að frv. hefur breyst frá þessum hugmyndum í afar veigamiklum atriðum. Og það er þá fyrst til að taka að í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin verði ekki fimm heldur verði þau allt að 12. Ég veit af hverju það er til komið. Það er vegna þess mikla áhuga sem er í sveitarfélögum fyrir að gerast reynslusveitarfélög og af því að sveitarstjórnarmenn í þessum sveitarfélögum hafa væntingar um vissar úrbætur. Þeir hafa væntingar um framlög úr Jöfnunarsjóði, úrbætur í vegamálum og fleira og þetta verður auðvitað að liggja alveg ljóst fyrir þegar í þessa samninga verður ráðist.
    Ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því hvort sá grunur minn er réttur að það séu uppi á borðinu hugmyndir um það að gera öll eða flestöll fjölmennustu sveitarfélög landsins sem hafa sótt um að gerast tilraunasveitarfélög að tilraunasveitarfélögum og nokkur í viðbót þannig að þá er hægt að spyrja: Er þetta tilraun eða er þetta byrjun á verkefnatilfærslu undir öðru nafni? Ég held að ef sú leið er farin að gera öll fjölmennustu sveitarfélög landsins að tilraunasveitarfélögum, þá verði ekki aftur snúið í þessu, þá sé þetta ekki tilraun. Þá sé þetta byrjun á verkefnatilfærslu og það sé þá best að skýra það því nafni og ég set spurningarmerki við þennan fjölda. Ég vil skoða vel þau rök sem að baki liggja. Það liggur alveg ljóst fyrir að það þarf að hafna einhverju af umsóknum frá sveitarfélögum sem hafa sótt um, þau eru það mörg. Þau eru 37 eða 38 ef ég man rétt. Þannig að það þarf að velja úr. En ég hef fyrirvara um þann fjölda sem settur er fram í 4. gr. og tel að ef öll stærstu sveitarfélög landsins fylla þennan hóp þá sé varla um tilraun að ræða heldur verkefnatilfærslu.
    Annar veigamikill þáttur í hugmyndum sem sveitarstjórnarnefnd setti fram í upphafi var að gert var ráð fyrir því að lög um reynslusveitarfélög yrðu sett þegar drög að samningum milli ríkisins og reynslusveitarfélaganna liggja fyrir. Hér er farin öfug leið, það er ekki byrjað að semja við reynslusveitarfélögin, lögin eru sett á undan. Síðari hluti frv. eða IV., V., VI. og VII. kafli bera svip af því.
    Ég hjó eftir því hjá hæstv. félmrh. að hún talaði um að þetta væri óhefðbundin lagasetning. Það er alveg rétt ef þetta frv. verður að lögum óbreytt þá er þetta afskaplega óhefðbundin lagasetning því að allir þessir kaflar eru bara opnar heimildir til ráðherra að breyta stórum lagabálkum um atvinnuleysistryggingar, tekjustofna sveitarfélaga, framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra, byggingarlög og skipulagslög. Ég man ekki betur en þegar þessar hugmyndir voru til umræðu í sveitarstjórnarnefnd þá kæmi það fram að á Norðurlöndunum, a.m.k. í Danmörku ef ég man rétt, hefði verið farin sú leið að semja um þessa verkaskiptingu og leggja síðan samninginn fyrir Alþingi um breytingu á þeim lögum sem samningurinn um

reynslusveitarfélög tekur inn á. Ég hygg að sú stefnubreyting, eins og kom fram í máli hæstv. félmrh., hafi orðið að það sé ætlunin að taka færri verkefni út úr og semja um færri verkefni. En ég tel eigi að síður að hér sé farið dálítið glannalega svo ekki sé meira sagt að hlutunum. Vegna þess að þessi lagasetning, ef frv. verður svona að lögum, er svo opin að hún felur í sér afskaplega óhefðbundnar heimildir fyrir ráðherra. Það er rétt sem hæstv. félmrh. sagði í því efni.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. félmrh. um 6. gr., þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Verkefnisstjórn skal, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, fela óháðum aðila, eða aðilum, að taka út tilraunir og meta hvernig til hafi tekist. Félagsmálaráðherra skal sjá til þess að niðurstöður þeirra verði kynntar Alþingi. Félagsmálaráðherra skal enn fremur hlutast til um að skýrslur verkefnisstjórnar um framkvæmd verksins verði lagðar fyrir Alþingi til kynningar að tilraunatímabilinu hálfnuðu og að því loknu.``
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hugmyndir hafi mótast um hvaða óháðir aðilar þetta eru sem munu taka út þetta verkefni. Þá hugsa ég til þess að nýlega var ágæt ráðstefna hér inni í Borgartúni 6 um reynslusveitarfélög sem ég sat mestalla með gestum frá Norðurlöndunum. Ég man ekki betur en það kæmi fram í erindum þeirra að það væri afskaplaga mikilvægt að vanda til þessarar úttektar og afskaplega mikilvægt að það verði vel til þess vandað hvernig til hefði tekist í ljósi þess að hér sé um tilraun að ræða. En ég er eindregið þeirrar skoðunar að sveitarstjórnarmennirnir verði að ganga með opin augun að þessu verkefni og þeir verði að vita mjög nákvæmlega á hverju þeir eiga von í þessu samstarfi eða í þessari tilraun. Ég held að skorti dálítið á það því miður.
    Þá kem ég að því að það eru vissulega væntingar um úrbætur í samgöngumálum í sameinuðum tilraunasveitarfélögum sem eru ekki á valdi hæstv. félmrh. að framkvæma. Fagráðuneytin eiga ekki aðild að þessari verkefnastjórn. Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að henni og tveir fulltrúar frá félmrn. samkvæmt frv. en önnur ráðuneyti sem kunna að hafa með höndum ýmsa málaflokka sem um er fjallað, við skulum segja eins og heilbrigðismál, vegamál og samgöngumál, eiga ekki beina aðild að verkefnisstjórninni. Mér er þá spurn: Hvernig verður þessu samráði háttað? Eru mótaðar hugmyndir um það? Ég spyr hæstv. ráðherra að því.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé mörgum spurningum ósvarað um þetta mál. En þar fyrir tala ég ekki gegn hugmyndinni. Mér finnst vafasamt hvað þessi hugmynd hefur bólgnað í meðförum og ég óttast að það geti leitt til einhverra vandræða í framkvæmdinni, að málið verði einfaldlega of viðamikið vegna þess að hér er um mjög flókið mál að ræða og flókna samningagerð ef þeir málaflokkar verða teknir undir reynslusveitarfélög sem grænt ljós er gefið á hér í texta frv. En hér eru ráðherrum gefnar heimildir, umhvrh., heilbr.- og trmrh. og félmrh. í mjög stórum og veigamiklum málaflokkum eins og húsnæðismálum, skipulags- og byggingarmálum og í hinum mjög svo viðkvæma og flókna málaflokki í heilbrigðisþjónustunni í landinu. Þetta frv. leynir á sér og það þarf góða umfjöllun í félmn. og ég mun að sjálfsögðu taka þátt í henni. Ég mun vinna að því ásamt öðrum nefndarmönnum að fara sem allra best yfir þetta mál og kanna það til hlítar eftir því sem föng eru á þó tíminn sé orðinn naumur, svo ekki sé meira sagt.
    Eins og ég tók fram í upphafi þá er það alveg grundvallaratriði að þetta mál liggi sem skýrast fyrir og þess vegna hef ég beint spurningum til félmrh. við 1. umr. málsins. Að öðru leyti hef ég tækifæri til að fara yfir það í félmn. þegar það kemur þangað. En ég óttast vissulega þann tímaskort sem hér er á lokadögum þingsins þegar málin bókstaflega hrúast inn á borðin hjá okkur þingmönnum og snjóar inn stórmálum á hverjum degi. En eigi að síður mun ég taka þátt í þessari umfjöllun og leggja mitt af mörkum til að þetta stóra mál geti legið sem skýrast fyrir.