Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:03:57 (5928)


[15:03]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Út af orðum síðasta ræðumanns þá held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir þetta tilraunaverkefni að það sé sem mest breidd í því gagnvart starfi sveitarfélaga, að þetta verði bæði minni og stærri eða fjölmenn sveitarfélög sem taka þátt í þessu verkefni þannig að það sjáist betur hvað kemur út úr þeirri framkvæmd. Ég geri því ráð fyrir að í valinu verði eitthvað af fjölmennari sveitarfélögunum. En allt fer það auðvitað eftir því hver niðurstaðan verður hér á hv. Alþingi hvað sveitarfélögin verða mörg. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. að það getur verið misjafnt hvernig samningarnir verða við einstök reynslusveitarfélög. Það er mjög ólíklegt að það verði endilega sömu verkefnin í öllum tilvikum sem færast yfir til tilraunasveitarfélaga. Það fer auðvitað eftir stærð þeirra og hvaða samningar takast við hin einstöku reynslusveitarfélög.