Endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:23:24 (5937)


[15:23]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið til síðari umr. og ég tel fulla ástæðu til þess að fara yfir þessi mál. Það verður síðan að koma í ljós, eins og hv. þm. sem talaði hér á undan mér sagði, hvort einhverjar verulegar breytingar verða á lögunum í framhaldi af því en ég held að það sé mikil ástæða til þess að endurskoða þessa hluti með tilliti til framkvæmdarinnar eins og hv. þm. kom að áðan. Ég tel að það sé full ástæða til að gefa gaum að því sem hv. þm. nefndi um það hvernig ríkið hagar sér við allan málatilbúnað í sambandi við útboð og það að taka tilboðum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi ekki að hafa það fyrir aðalreglu að taka lægstu tilboðum. Það á að hafa það fyrir aðalreglu að taka öruggum tilboðum, tilboðum sem eru hagstæð og það á ekki að viðurkenna þá kröfu sem ýmsir atvinnurekendur og forsvarsmenn þeirra hafa haft uppi um það að menn eigi heimtingu á því að fá sínu lægsta tilboði tekið. Það er ekki skynsamlegt. Það hafa menn reynt oft og tíðum að það er ekki skynsamlegt alltaf að taka lægstu tilboðum jafnvel þó að viðkomandi geti sýnt fram á að þeir hafi tryggingar fyrir því að geta staðið undir hugsanlegu tapi af slíkum verkum, þá er það ekki skynsamlegt að taka ævinlega tilboðum sem eru mjög lág. Það hafa þeir sem hafa tekið þátt í að stjórna sveitarfélögum örugglega allir dæmin um að er ekki alltaf það réttasta.

    En mig langaði ekki síður til þess að benda á vegna þess að hér er þetta mál komið til síðari umr. að á 115. löggjafarþingi var flutt alveg sambærileg till. til þál. og 1. flm. þess máls var Bryndís Friðgeirsdóttir varaþm. Alþb. af Vestfjörðum og við vorum flm. með henni, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Sú tillögugrein var nánast eins og þessi sem hér er komin fram um það að endurskoða þessi lög. Ég sé ástæðu til þess að vekja athygli á þessu vegna þess að þetta mál komst ekki til afgreiðslu á því þingi og ég kem þess vegna hér og bendi bæði á það og eins hitt að það er full ástæða til þess að skoða þessi mál og við höfum verið fylgjandi því, þessir sem hér voru lesnir upp.