Hópuppsagnir

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:58:24 (5943)


[15:58]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Hér í salnum eru að venju mjög fáir menn. Mér er sagt af kunningjum mínum sem hafa sett á það tölu að ég væri hér oftar en nokkrir aðrir þegar verið er að ræða einmitt um mestu hagsmunamál þjóðarinnar, þ.e. Evrópusamstarfið og þá skerðingu á fullveldi Íslands sem við nærri dag hvern megum horfa upp á og sérstaklega vil ég þakka síðasta ræðumanni fyrir hans ræðu áðan.
    Núna er verið að senda okkur svona blöð, smápappíra. Af því að sæti mitt er hér rétt hjá ræðustólnum þá get ég flutt þetta til mín, tvö eintök í viðbót og samt eru eftir þrjú. Þetta er löggjöfin sem á að bjóða okkur Íslendingum að selja landið okkar út á. Það ætti í raun og veru ekki að vera þörf á að segja neitt meira. Þetta segir sig allt sjálft. Það eru þeir sjálfir sem eru að skipuleggja og að byggja skipulagt upp þá þjóðskipun sem þeir telja að hæfi íslensku þjóðinni í stað þeirrar sem við nú höfum, þ.e. að skerða fullveldi okkar og efla erlent vald á Íslandi.
    Mér er mikið niðri fyrir þegar ég þarf að tala eftir að hlusta öll þau hundruð kvölda og eftirmiðdaga þegar maður les þetta yfir og horfir á það að ræðumenn eru hér ýmist engir eða þá að þeir leiða hjá sér af því líklega fyrirverða þeir sig nú. Ég er að vona að það sé ástæðan til þess að menn hafa ekki allt of hátt um sig þegar verið er að ræða um þessa bæklinga. Auðvitað er fjölþætt efnið sem er í þessu en ekkert af því er frjálsræði, ekkert af því er samboðið íslensku þjóðarstolti og þjóðarsál. Þetta sjáum við í þingsölunum í þessu dýrðlega veðri. Væri nú ekki nær fyrir okkur að gera eitthvað annað. Fara bara út að labba? ( Gripið fram í: Eða að skapa.) Eða skapa. Ég held að það færi mjög vel á því að við hættum nú þessum fundi og dokuðum við einhvern tíma. Ég held að menn þurfi að jafna sig og sjá hvaða pappírar þetta eru. Ég mundi ráðleggja þeim að taka þá og brenna. En við skulum geyma okkur eitt eintak samt til þess að hægt sé að sýna það eftirkomendum okkar eða þeim sem eru grúskarar, sýna þeim hvað það er sem á að lögfesta. Og það á að lögfesta þetta, frú ráðherra. Það á að lögfesta þessi ósköp. Íslenskir ráðherrar hafa hugsað sér að lögfesta þetta. Ég get ekki betur skilið.
    Ég vona að þeir sem kunna að ætla sér það í dag hætti við það og gefi frest, mér og öðrum þingmönnum, til að renna nú augunum yfir völlinn og sjá hvort það er samboðið okkur að lögfesta þetta. Eða hvort við höfum nokkurn rétt til þess. Við höfum engan rétt til þess. Það er brot á stjórnarskrá Íslands. Þar af leiðandi er það afbrot að halda þessum leik áfram.
    Ég held að það sé rétt að segja ekki meira. Það vita allir hér inni að það er lögbrot sem verið er að ræða um að framkvæma og skerðing á þjóðfrelsinu, frelsi Íslands. Og það á ári sem er talið allmerkilegt og er verið að undirbúa til að geta sýnt einhvern hluta af íslensku þjóðinni og þá líka náttúrleg þingmenn þannig að við getum enn þá sagt að við séum Íslendingar og verið að monta af því hér einhvers staðar. Það er verið að skipuleggja þetta. Það vinnur hópur manna að því dag eftir dag að skipuleggja hvernig verði hægt með ríkulegum hætti að halda upp á þetta mikla afmæli og ætla víst að gera það og bjóða erlendum mönnum heim t.d. til að sjá fyrirbærið.
    Ég skora á ykkur, aðra þingmenn --- það eru ekki margir hér í salnum sem heyra það --- en kannski heyra það einhverjir eða sjá við sjónvarpið. En ég endurtek enn og aftur: Hugsum okkur um tvisvar, þrisvar og fjórum sinnum ef þess er þörf áður en við verðum þátttakendur í þeirri ósvinnu að þessar bækur þrjár og aðrar þrjár álíka þykkar eigi að verða biblían okkar.