Málefni aldraðra

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 13:54:43 (6018)

[13:54]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom við umræðu um þetta mál fyrir nokkrum dögum er hér um mjög sérkennilegan málatilbúnað að ræða. Í upphafi var gert ráð fyrir því í frv. að breyta aðeins lögum um málefni aldraðra. Síðan var ákveðið við meðferð málsins á síðari stigum að breyta einnig lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og málin voru til lykta leidd á vettvangi nefndar og hér í umræðu án þess að viðkomandi fagráðherrar væru kallaðir til með þeim hætti að fullnægjandi megi teljast. Ég tel þess vegna, hæstv. forseti, og með hliðsjón af því að hér er bersýnilega um markatilfelli að ræða, eins og fram kom í athugasemd hæstv. forseta, þá væri langeðlilegast að fresta atkvæðagreiðslunni og kanna þetta mál betur í nefnd áður en til atkvæðagreiðslu kemur. Þar sem forseti hefur hins vegar kosið að láta atkvæðagreiðslu engu að síður fara fram þrátt fyrir það að reynt sé beinlínis á þanþol stjórnarskrárinnar í þessu máli, þá mun ég ekki greiða málinu atkvæði.