Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 15:15:23 (6037)


[15:15]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður, Björn Bjarnason, sagði að það væri einkennilegur málflutningur að tala um að hér væri verið að fara á skjön við þau samkeppnislög sem samþykkt voru á síðasta þingi. Þegar ég vitnaði í þetta las ég sömu setningu í greinargerð og hann síðan las aftur og vitnaði til að væri ekki eðlilegt að nota, en hvorki ég né hann lásum síðari hluta þessarar greinar en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Undanþágur frá samkeppnisreglum eru veittar í viðbótarpakkanum gagnvart tilteknum flokkum samninga, ákvarðana og samstilltra aðgerða tryggingafyrirtækja, t.d. um almenna iðgjaldataxta eða staðlaða tryggingaskilmála.``
    Það kemur sem sagt fram í seinni hlutanum í athugasemdum að það er verið að veita undanþágu frá samkeppnisreglunum. Ég veit ekki hvort menn þurfa frekari vitna við.