Kaup á slökkvibílum fyrir Flugmálastjórn

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:07:02 (6104)


[16:07]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Þau voru ágæt og fullnægjandi þó að ég sé óánægður með að svona skuli hafa tekist til. Við því er ekki mikið að gera úr þessu. Ég býst við að það liggi þannig að ekki sé unnt að losna undan þessum samningi, þ.e. varðandi þá fimm bíla sem hann tekur til.
    En auðvitað er það ekki nógu gott ef hugsunarhátturinn er einfaldlega sá að ef mönnum sé ekki kunnugt um einhvern íslenskan aðila sem sé þegar að framleiða eða bjóða fram svona þjónustu, þá snúi menn sér sjálfkrafa til erlendra framleiðenda. Það er það sem þarna virðist hafa gerst, samanber svörin við spurningu eitt og tvö. Það kom fram í báðum tilvikunum að þar sem Flugmálastjórn var ekki kunnugt um það, þá fór hún beint til erlendra aðila og bauð þeim upp á að gera tilboð. Hér hefði auðvitað átt að kanna það fyrst heima fyrir hvort einhverjir íslenskir aðilar, íslensk verkstæði, íslenskir framleiðendur á einhverjum búnaði, yfirbyggingarverkstæði eða aðrir slíkir aðilar hefðu áhuga á því að gera tilboð, hefðu áhuga á því að ganga til samningaviðræðna við Flugmálastjórn um að þróa svona framleiðslu og smíða hana.
    Mér finnst mjög dapurlegt að standa frammi fyrir niðurstöðu af þessu tagi þó að ég sé ekki að áfellast núv. hæstv. samgrh. því að ég býst ekki við að málið hafi komið til hans kasta frekar en minna, en það fellur inn á þá mánuði þegar ráðherraskipti urðu, en mér er kunnugt um það samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn að undir þennan samning mun hafa verið ritað seint í júlímánuði 1991.
    En ég þakka hæstv. ráðherra þó fyrir að vera tilbúinn til að beita sér í málinu upp á framhaldið. Væntanlega eiga stórir opinberir aðilar eins og Flugmálastjórn og fleiri eftir að kaupa meira af svona búnaði og þá vona ég að svona mistök, sem ég leyfi mér að kalla þetta, endurtaki sig ekki og meðvitund manna fyrir því að beina viðskiptum til innlendra aðila verði meiri í framtíðinni en þetta dapurlega dæmi ber vitni um.