Útflutningur hrossa

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:01:44 (6164)

[16:01]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um útflutning hrossa. Núgildandi lög um útflutning hrossa eru frá 1958. Þeim hefur verið breytt lítillega þrisvar, síðast með lögum nr. 40/1993. Við umræður um þá lagabreytingu í hv. landbn. kom fram að útgáfa útflutningsleyfa væri óþarflega margbrotin og í áliti nefndarinnar var því beint til landbrn. að lögin yrðu endurskoðuð í heild sinni. Það hefur nú verið gert og er

frv. unnið í samráði við Kristin Hugason hjá Búnaðarfélagi Íslands, Halldór Gunnarsson hjá Félagi hrossabænda og yfirdýralækni. Frv. var lagt fyrir búnaðarþing sem mælti með samþykki þess. Búnaðarþing gerði athugasemdir við nokkur atriði í frv. og hefur verið tekið tillit til þeirra í því frv. sem hér liggur fyrir.
    Með frv. er reynt að einfalda reglur um útflutning á hrossum og koma til móts við þá öru þróun sem orðið hefur á síðustu árum. Útflutningur hrossa hefur aukist mjög mikið og er nú veigamikill þáttur í tekjuöflun hrossaræktarinnar. Á síðasta ári voru flutt út rúmlega 2.400 hross en fyrir 10 árum voru flutt út 250--300 hross ár hvert.
    Með þessu frv. er reynt að koma til móts við þessa breytingu án þess að slaka á þeim kröfum sem gerðar hafa verið. Gildir það um aðbúnað í flutningsfari, eftirlit með heilbrigði hrossa og tryggingu fyrir að innlendir ræktendur hafi forkaupsrétt á úrvalskynbótadýrum. Þá er ákvæðum um gjaldtöku fyrir útflutt hross breytt verulega og reynt að efla markaðsstarf í öðrum löndum.
    Helstu breytingar og nýmæli frv. eru eftirfarandi: Landbrh. til ráðuneytis verði þriggja manna útflutnings- og markaðsnefnd og eiga Búnaðarfélag Íslands og Félag hrossabænda hvort sinn fulltrúa en ráðherra skipar formann án tilnefningar. Hlutverk nefndarinnar skal vera þríþætt en einna helst að vinna að frekari mörkuðum fyrir íslensk hross. Ekki er lengur gerð krafa um útflutningsleyfi fyrir hross, heldur einungis um upprunavottorð og heilbrigðisskoðun. Eina undantekningin frá því eru úrvals kynbótahross en innlendir ræktendur hafa tímabundinn forkaupsrétt á þeim. Hrossaræktarnefnd Búnaðarræktarfélags Íslands metur árlega hvað telst úrvalskynbótagripur.
    Breytt er reglum um heilbrigðisskoðun á útflutningshrossum þannig að hún getur nú farið fram í heimabyggð en ekki einungis í útflutningshöfn eins og nú tíðkast. Nánar verður kveðið á um framkvæmdina í reglugerð, en þessi breyting verður til hagsbóta fyrir þá útflytjendur sem búa fjarri útflutningshöfn. Ekki verður slakað á kröfum um aðbúnað og öryggi en í frv. er gert ráð fyrir að rýmka þann tíma sem heimilt er að flytja hross með skipum. Mikil breyting til batnaðar hefur orðið í öllum tæknibúnaði og flutningsför eru mun öruggari nú en þegar núgildandi lög voru sett. Gert er ráð fyrir að innheimta fast gjald á hvert útflutt hross. Hér er gerð tillaga um að upphæð gjaldsins verði 7.000 krónur og það renni í sérstakan sjóð í vörslu útflutnings- og markaðsnefndar. Sjóður þessi skuli standa undir kostnaði við útgáfu upprunavottorða, sem unnið er upp úr skýrsluhaldi Búnaðarfélagsins, og undir kostnaði við lögbundna heilbrigðisskoðun á útflutningshrossum. Fimm prósent af innheimtugjaldi skal renna í Stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins og eftirstöðvum hvers árs verður úthlutað til markaðsmála. Gjaldtaka af útfluttum hrossum er nú með þeim hætti að útflytjendur greiða sjálfir fyrir upprunavottorð 55 þýsk mörk eða 2.310 kr. og dýralæknisskoðun um það bil 2.000 kr. Auk þess er greitt í Stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins og sjóðagjöld. Verði þetta frv. að lögum verður hætt sérstakri innheimtu til Stofnverndarsjóðsins en sjóðagjöld áfram innheimt. Tekjur Stofnverndarsjóðs af útfluttum hrossum hafa verið 6,3 millj. kr. árið 1992 og um 4,5 millj. kr. árið 1993 samkvæmt bráðabirgðauppgjöri. Tölur milli ára eru ekki sambærilegar þar sem reglum um innheimtu var breytt á tímabilinu og gjaldið lækkað. Þó má ljóst vera að heildarinnheimta verður svipuð eða ívið lægri.
    Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að þetta frv. er seint fram komið. Ég óska eftir því að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn. og hún taki málið síðan til skoðunar og athugi hvort unnt sé að athuga það nú á þessu þingi eða hvort þurfi að bíða næsta þings.