Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:04:55 (6179)

[17:04]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Þetta frv. er samið í samgrn. og hefur verið leitað umsagnar Landvara sem er landsfélag vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum, en í því félagi eru nánast allir þeir sem stunda vöruflutninga með bifreiðum hér á landi.
    Frv. fjallar um vöruflutninga á landi gegn gjaldi með vöruflutningabifreiðum og er flutt í tengslum við samþykkt Alþingis á lögum um Evrópskt efnahagssvæði, nr. 2/1993.
    Eins og þingheimi er kunnugt er samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði, meginmál hans, bókanir við hann og viðaukar, bindandi að þjóðarétti fyrir samningsaðilana. Þær gerðir sem vísað er til í viðaukanum eru einnig bindandi að þjóðarétti. Í 7. gr. meginsamningsins um hið Evrópska efnahagssvæði er kveðið á um að gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samninginn eða ákvörðunum hinnar sameiginlegu nefndar hins Evrópska efnahagssvæðis, bindi samningsaðila og skuli teknar upp í landsrétt.
    Með lagafrv. er lögfest efni tveggja reglugerða ráðherraráðs Evrópubandalagsins. Í fyrsta lagi efni reglugerðar nr. 881/92, frá 26. mars 1992, um aðgang að vöruflutningamarkaðinum á vegum innan bandalagsins til eða frá yfirráðasvæði aðildarríkis eða um yfirráðasvæði eins eða fleiri aðildarríkja. Í öðru lagi efni reglugerðar nr. 3118/93, frá 25. okt. 1993, um skilyrði þess að flutningafyrirtæki megi stunda innanlandsflutninga í aðildarríki án þess að eiga þar staðfestu. Þessar reglugerðir eru báðar hluti af viðbótarpakkanum við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði og taka því ekki gildi fyrr en hann tekur gildi sem verður væntanlega í sumar. Við samningu þessa frv. var einnig höfð hliðsjón af dönsku lögunum um vöruflutninga á landi.
    Tilgangur frv. er að gera nauðsynlegar lagabreytingar vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Engin lög eru í gildi hér á landi um starfsréttindi þeirra er annast landflutninga með vöruflutningabifreiðum. Hins vegar hefur löggjafinn fjallað um önnur málefni þessara aðila sbr. lög nr. 62/1979, um landflutningasjóð og lög nr. 24/1982, um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi.
    Eitt af markmiðunum með hinu Evrópska efnahagssvæði er að koma á fót sameiginlegum reglum varðandi vöruflutninga á landi svo sameiginlegur flutningamarkaður innan svæðisins verði að veruleika. Fyrst og fremst fjallar þetta um rétt þeirra sem hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita þjónustu hvar sem er innan þess. Með þessum lögum opnast nýr markaður fyrir íslensk vöruflutningafyrirtæki til að stunda millilandaflutninga milli aðildarríkja hins Evrópska efnahagssvæðis og einnig til innanlandsflutninga innan sama svæðis. Auknir möguleikar af þessu tagi fyrir íslensk vöruflutningafyrirtæki til millilandaflutninga skapa svigrúm til aukinna umsvifa. Íslenskt vöruflutningafyrirtæki getur t.d. flutt íslenskan fisk á markað erlendis með skipi að evrópskri höfn og vöruflutningabifreið í áframhaldi af því á leiðarenda.
    Möguleikar til innanlandsflutninga innan ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis verða einnig fyrir hendi þó í takmörkuðum mæli sé, en 30. júní 1998 verða innanlandsflutningar innan svæðisins gefnir frjálsir. Fram að þeim tíma er flutningskvótanum til innanlandsflutninga úthlutað á aðildarríkin. Þeir flutningsaðilar sem hafa staðfestu á Íslandi geta því sótt um leyfi til samgrn. og að því leyfi fengnu hafið vöruflutninga innan lands með bifreiðum í þeim ríkjum sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Að sama skapi hafa vöruflutningafyrirtæki hinna aðildarríkjanna möguleika á því að stunda flutninga hér á landi. Helstu efnisþættir í frv. eru eftirfarandi:
    1. Lögunum er ætlað að gilda um vöruflutninga milli landa með vöruflutningabifreiðum yfir ákveðinni stærð innan hins Evrópska efnahagssvæðis.
    2. Kveðið er á um að fyrirtæki sem hyggst stunda vöruflutninga með bifreiðum á svæðinu þurfi leyfi sem gefið er út af lögbærum yfirvöldum þess ríkis sem fyrirtækið hefur staðfestu í. Til að öðlast slíkt leyfi þarf fyrirtækið að uppfylla viss skilyrði sem eru eftirfarandi:
    1. Gerð er krafa um óflekkað mannorð eða góðan orðstír fyrirtækis.
    2. Gerð er krafa um fullnægjandi fjárhagsstöðu fyrirtækis.
    3. Gerð er krafa um starfshæfni rekstraraðila.
    Loks er í frv. kveðið á um leyfi til innanlandsflutninga innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Þau vöruflutningafyrirtæki sem hafa staðfestu á Íslandi og hafa bandalagsleyfi geta sótt um leyfi til samgrn. til innanlandsflutninga innan ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis. Eitt slíkt leyfi gildir fyrir einn vöruflutningabíl í allt að tvo mánuði, en 10 slík leyfi eru til ráðstöfunar á þessu ári að því gefnu að viðbótarpakkinn taki gildi.
    Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og samgn.