Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:40:27 (6191)


[17:40]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get vel fyrirgefið hæstv. ráðherra þó hann hafi ekki upplýsingarnar um öxulþungann við höndina en hitt finnst mér eiginlega verra að hann skuli ekki hafa upplýsingar um það hvaða rétt útlendingar hafi gagnvart flutningum hér því að auðvitað hljóta menn að þurfa að semja svona frv. með það fyrir augum að hér séu á ferðinni gagnkvæm réttindi. Og ég hef a.m.k. trú á því að það hafi átt að vera undirliggjandi í öllum samningum um EES-svæðið að um gagnkvæm réttindi væri að ræða og reynt að sjá til þess að ekki væri á aðila hallað. Ef það er þannig að það séu engin skilyrði fyrir því að útlendingar geti komið hingað til að reka flutningastarfsemi, eins og frv. virðist benda til, ég get a.m.k. ekki lesið annað út úr því. Þegar ákvæði um það hvað Íslendingar geti gert erlendis eru sett inn í frv. en engin ákvæði um það hvað útlendingar geti gert þá get ég ekki lesið það öðruvísi en svo að útlendingar hafi hér ótakmörkuð réttindi. En EES-samningurinn gengur út á það að það eigi að vera a.m.k. sambærileg réttindi hjá öllum samningsaðilunum og ég geri ekki ráð fyrir að erlendir aðilar þurfi að sætta sig við að fá engin réttindi hér innan lands ef við fáum einhver erlendis.