Skipulag ferðamála

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 18:40:54 (6202)


[18:40]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég bar ekki ósannsögli upp á hæstv. ráðherra. Ég taldi það koma fram í hans máli og það gerði það að hann væri ekki nógu vel upplýstur um gang mála eða misminnti. Ég trúi því nú ekki að hæstv. ráðherra, þegar hann hugsar sinn gang betur, ætli að vefengja það á hvaða kjörum þessi umræddi maður var starfandi. Hann var ráðinn sökum hæfni sinnar og menntunar á því sviði. Hann er með hagfræðimenntun og tungumálakunnáttu og var sem slíkur mjög heppilegur til að sinna m.a. þeim störfum varðandi fjármálagerð og skipulagningu í ráðuneytinu sem hann var ráðinn til. Við þekktumst ekki þegar hans ráðning kom til sögunnar, ég og þessi umræddi starfsmaður, bara svo það sé á hreinu. Hann var ekki ráðinn og starfaði ekki sem pólitískur aðstoðarmaður ráðherra þó það væri að vísu svo að hann átti mikinn trúnað þess ráðherra sem þá sat og vann í ýmsum verkum sem pólitísk mega kallast en hann var ekki ráðinn sem slíkur hann hafði ekki það starfsskipulag og hæstv. ráðherra getur kynnt sér það með viðtölum við starfsfólk í samgrn. að samskipti og skipulag starfa þar innan veggja var ekki með þeim hætti sem gerist þegar í hlut á pólitískur aðstoðarmaður ráðherra eða ég vænti að það skipulag sé enn við lýði sem tíðkast hefur í þeim efnum. (Gripið fram í.) Ég er ekki að væna hæstv. samgrh. um að vera að flytja þetta mál núna í einhverjum sérstökum tilgangi hvað varðar sem sagt það að losa upp skipunartíma ferðamálaráðs. Enda er það rétt sem hæstv. ráðherra bendir á að hann hefur nú nýlega skipað nýtt ferðamálaráð sem myndi þá starfa jafnlangt inn á næsta kjörtímabil og það sem áður sat gerði, og hann kom að og bjó við fyrstu árin, ef um heilt kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar verður að ræða, sem menn draga nú reyndar mjög í efa. Ég tel í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja. Það er það skipulag sem viðgengist hefur um langa hríð í ferðamálunum og miklu, miklu víðar. Það er ekkert einkamál einhverra ráðherra fyrrv. og núv. og tilvonandi eða hvað það nú er, það er auðvitað það skipulag sem Alþingi hefur í gegnum lagasetninguna búið út á löngum tíma og er hin almenna regla. Ég tel að eigi að skoða málið í því almenna samhengi ef menn ætla að taka upp nýja stefnu þá á það auðvitað að vera almenn ákvörðun sem gengur yfir stjórnsýsluna á almennum grundvelli en ekki ráðast tilviljanakennt að prívatskoðunum ráðherra í hverju tilviki.