Lögheimili

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 18:27:14 (6269)


[18:27]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er komin í einkennilega stöðu að fara að verja hér brtt. minni hluta allshn., það var ekki meiningin þó ég tæki undir þær. Ég tók hins vegar fram að ég gæti ekki samþykkt þetta frv. Ég er ekkert viss um að ég hafi viljað styðja það en ég tel þó rétt, úr því að nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi að gera einhverjar breytingar á því, að það sé þá hægt að fara þá millileið sem þarna er lögð til. Ég tók það fram að mér þætti 18 mánuðir langt og mér finnst það enn.
    Ég veit að allir nefndarmenn vilja gera breytingar og mér er það alveg ljóst. Svo vitlaus er ég ekki.

Kannski hef ég ekki verið nógu skýr í orðalagi en ég talaði alltaf um fasta búsetu. Ég tel að þó að maður fari á spítala og sé þar í mánuð þá sé ekki verið að flytjast búferlum. Ef hv. þm. hefur ekki verið það ljóst þá leiðréttist það hér með. Ég var að tala um fasta búsetu og sérstaklega þegar um er að ræða íbúðir sem byggðar eru fyrir aldraða, sem mjög mikið er um víða um land. Og ég var að tala um fullfrískt fólk sem flyst í sérstakar íbúðir sem heita þjónustuíbúðir eða íbúðir fyrir aldraða þar sem það telur betra að búa heldur en kannski þar sem það bjó áður, það hefur kannski verið í óheppilegu húsnæði eða eitthvað þess háttar, það vinnur áfram, er með tekjur og þarf auðvitað að greiða skatta og skyldur til sveitarfélagsins en þá er það sveitarfélag kannski langt frá þeim stað þar sem það vinnur og býr og hefur fasta búsetu. Það sveitarfélag sem á að veita þjónustuna það þarf að veita þjónustuna, sem ég tel að sé nauðsynlegt að það geri, en fær ekki neinar tekjur í staðinn í formi skatta.