Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 23:44:44 (6306)


[23:44]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegur forseti. Þeir hv. þm. sem hér hafa tekið til máls í kvöld og mælt gegn samþykkt þessa frv. hafa verið tveir. ( KE: Þrír.) Þrír, það er rétt. Það eru sömu þingmenn og tóku þátt í hinni fyrstu umræðu um málið og voru þá jafnframt á móti. Allir aðrir sem tóku þátt í umræðunni hafa verið meðmæltir þessu. Hér talaði einn annar þingmaður fyrr í kvöld sem kvaðst ekki ætla að taka afstöðu.
    Nú er það svo að enginn af þeim sem veittu umsögn um þetta frv. fyrir hv. allshn. var sammála þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram hjá þessum tveimur hv. þm. í kvöld, ekki nokkur einasti maður. Það var enginn sem gerði neina sérstaka athugasemd við þetta og þar með var enginn sem tók undir þessi sjónarmið sem hér hafa komið fram og verið flutt af mismunandi festu og rökfimi. Það er líka athyglisvert, virðulegur forseti, að þau sjónarmið sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur flutt hér í kvöld eiga sér til að mynda ekki stuðning hjá formanni Alþb. Nú er það að vísu svo að það hefur komið fram

aftur og aftur í umræðum um umhverfismál í þessum sölum að það er greinilegur klofningur innan Alþb. um umhverfismál. Formaður Alþb. er ítrekað annarrar skoðunar og ég tel miklu heilladrýgri skoðunar en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson.
    Það kann vel að vera, virðulegur forseti, að það hefði verið hægt að setja upp einhvers konar veröld þar sem hlutunum ætti að vera skipað með öðrum og hagfelldari hætti og það gildir um málefni þessarar stofnunar og þeirra málaflokka sem undir hana falla sem við höfum verið að ræða hér í kvöld. Ég get alveg fallist á það.
    Ég segi það hins vegar að í dag er það svo að þarna er um að ræða stofnun sem hefur verið í nokkru tómarúmi. Ég tel það nokkurs virði að reyna að gefa henni betra samband við umheiminn og umhverfið. Hún hefur verið byggð upp þannig að þar hafa verið nokkur svið sem hafa fallið undir tvö mismunandi ráðuneyti. Umhvrn. hefur haft faglegt vald, heilbrrn. fjárhagslegt vald. Þetta skapar eðlilega skipulagslega óvissu, þetta skapar óvissu um stjórn stofnunarinnar eins og þeir menn sem þar hafa um vélað hafa ítrekað talað um og kvartað yfir. Ég tel þess vegna að það sé nokkurs virði að reyna að leysa úr þeirri óvissu. Ég held að það skipti máli fyrir starfsemi stofnunarinnar og tryggi framtíð hennar mun betur. Stjórn Hollustuverndar tók þá ákvörðun að leggja til að stofnunin yrði fremur sett undir umhvrn. en að hún yrði klofin upp. Ég tel að það beri að virða þessi sjónarmið og rökræða þau, þau eiga rétt á sér. Mér hefur fundist örla á rökum gegn þessum viðhorfum hjá þeim þingmönnum sem hér hafa talað í kvöld en mér hefur ekki fundist það vera veigamikil rök. Nú ef menn eru sammála þeirri niðurstöðu sem stjórn Hollustuverndar komst að að það bæri fremur að flytja hana undir umhvrn. eða fella hana undir eitt ráðuneyti heldur en að kljúfa hana upp þá geta menn velt því fyrir sér hvar hún eigi að vera, vistuð undir heilbrrn. eða umhvrn. Það kann kannski engum að koma á óvart að umhvrh. sé þeirrar skoðunar að hún eigi að vistast undir hans ráðuneyti. En nú er það svo að yfirmaður stofnunarinnar kom fram með þær upplýsingar sem ég hef flutt áður í ræðum og ekki hafa verið bornar brigður á að í dag væri yfir 50% af starfi stofnunarinnar þess eðlis að það félli að réttu lagi undir svið umhvrn. fremur en heilbrrn. Jafnframt tók hann það fram að vægi þessa málaflokks færi vaxandi. Það er eðlilegt, ekki síst með tilliti til þeirra frv. sem hér hafa verið flutt í vetur og tengjast aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Sú aðild leggur okkur þyngri skyldur á herðar en áður varðandi ýmis mál sem tengjast umhverfismálum. Ég vísa þar ekki síst til mengunarvarna, fráveitumála og sorphirðumála. Það er því eðlilegt að komast að þeirri niðurstöðu að ef meira en helmingur starfsins í dag fellur undir svið umhverfismála, og það er mat stjórnenda stofnunarinnar að vægi þessa flokks fari vaxandi, að það eigi að fella stofnunina undir umhvrn.
    Ég vil síðan líka koma fram með þá skoðun mína sem vera má að aðrir séu ekki sammála að ég tel að eftirlit með matvælum sem að mörgu leyti er eftirlit með aðskotaefnum, aðskotahlutum í matvælum, það sé líka eins konar mengunareftirlit. Ég tel ekkert óeðlilegt við það að slíkt eftirlit falli undir umhvrn., alls ekki.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson las hér upp og henti gaman að ýmsum þeim þáttum sem væru með þessu ráðslagi færðir yfir til umhvrn. Ég kallaði fram í ræðu þingmannsins og endurtek það hér, að umhvrn. fer líka með skipulags- og byggingarmál og þau heilbrigðismál sem tengjast t.d. náðhúsum, sem hv. þm. dvaldist nokkuð við í sinni ræðu. Eða skólabyggingum. Þau tengjast þess vegna líka skipulagsmálum og byggingarmálum þannig að þetta er alls ekki jafnfráleitt og mátti ætla af ræðu hv. þm., alls ekki. En nú sé ég að honum er skemmt og það er út af fyrir sig gleðilegt að ná þeim árangri á einu kvöldi þegar liðið er langt á nótt að fá hv. þm. Hjörleif Guttormsson til að hlæja. Það gerist því miður allt of sjaldan í þessum sölum.
    Það hefur verið spurt hér í kvöld: Leituðu menn fanga til annarra landa? Því hefur verið haldið fram að hvergi annars staðar hafi þetta ráðslag verið tekið upp. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Kristín Einarsdóttir sem gat þess að menn hefðu sett svipaða stofnun undir umhvrn. í Danmörku en kippt henni jafnharðan til baka. Hvernig var þetta í Danmörku? Ég leitaði ráða hjá Erik Linnegård sem er yfirmaður umhverfisstofnunarinnar dönsku. Það er rétt að það komi fram að í Danmörku er sú stofnun sem menn hafa verið að vísa til ekki alveg samsvarandi Hollustuvernd. Hún er ekki heilbrigðiseftirlit, hún er fyrst og fremst matvælaeftirlit sem var upphaflega vistað í iðnaðarráðuneytinu þar í landi og síðan í umhverfisráðuneytinu. Þegar menn stofnuðu heilbrigðisráðuneyti þá var tekin um það pólitísk ákvörðun til þess að styrkja heilbrigðisráðuneytið að setja þessa stofnun þar undir. Það er dómur Eriks Linnegårds að það hafi verið misráðið. Reynslan hafi sýnt fram á það að þetta hefðu verið mistök vegna þess að starf stofnunarinnar skaraðist miklu meira við stofnanir umhvrn. heldur en heilbrrn. Þetta er niðurstaða þessa Dana og hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni er skemmt enda þykist hann vafalaust hafa miklu meira vit á því en títtnefndur Erik Linnegård.
    Ég tel, virðulegur forseti, að þessi rök sem ég hef fært fram séu fyllilega nægjanleg til að réttlæta þennan flutning, fyllilega nægjanleg. Ég skal ekki deila síðan um það við menn að hv. þm. sem hér hafi verið þessu máli andstæðir hér í kvöld þeir kunna að vera þeirrar skoðunar að þegar þessi rök séu vegin þá verði þau léttvæg fundin. Ég er annarrar skoðunar. Ég ítreka að það er ákveðin óvissa í starfi stofnunarinnar út frá því hvernig hún er uppbyggð. Hún er undir tveimur ráðuneytum, að hluta til undir faglegu valdi eins ráðuneytisins en fjárhagslegu valdi annars. Þetta er ekki gott ráðslag. Ég vísa enn til þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um matvælaþáttinn. Í dag er hann í rauninni vistaður í þremur ráðuneytum, landbrn., heilbrrn. og sjútvrn. Það er gert ráð fyrir því í því frv. til matvælalaga sem hér liggur fyrir í 8. gr. að það verði sett upp sérstakt samstarfsráð með þeim þremur stofnunum sem tengjast þessum umræddu þremur ráðuneytum, þ.e. yfirdýralækni, Fiskistofu og Hollustuvernd. Það er jafnframt gert ráð fyrir að það verði skoðað eftir fimm ár frá gildistöku laganna. Ég held að það sé ágætt að hafa þetta með þessum hætti.
    Ég velti því nú fyrir mér þó það eigi kannski ekki mikið erindi í þessa umræðu þegar menn halda því fram að matvælaeftirlit, eftirlit með mengun matvæla t.d. eigi ekki heima í umhvrn. Ég minni á það að tryggingar skipa voru teknar úr heilbr.- og trmrn. og settar yfir í sjútvrn. Og ég man ekki betur heldur en ábyrgðartryggingar bifreiða séu ekki í samgrn., heldur í dómsmrn. ( HG: Er það til fyrirmyndar?) Ég spyr er það til fyrirmyndar? Það kann vel að vera að svo sé ekki. En ég hef ekki orðið var við, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, að menn amist neitt sérstaklega við því.
    Þetta, virðulegur forseti, set ég hér fram seint á þessu kvöldi vegna þess að hv. þm. hafa kvartað undan því að það hafi ekki verið skipulega flutt rök fyrir því hvers vegna þessi færsla á sér stað. Þetta eru mín rök, þau eru fyllilega nægjanleg að mínum dómi. Mínar ræður hér fyrr í kvöld hafa allar verið í andsvörum þannig að þetta er í rauninni mín fyrsta ræða. En jafnframt sú síðasta.