Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 17:43:37 (6355)


[17:43]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kannast út af fyrir sig við þessi sjónarmið hæstv. fjmrh. varðandi biðlaunaréttinn. Þau hafa legið fyrir og hann hefur gert grein fyrir því í viðræðum sínum við fulltrúa opinberra starfsmanna, geri ég ráð fyrir, og mjög oft úr ræðustóli þessarar virðulegu stofnunar. Engu að síður liggur málið núna þannig að hæstv. fjmrh. ætlar að láta lögfesta sín sjónarmið í þessu máli. Hann ætlar að láta Alþingi að beita þeim meiri hluta sem hér er til þess að lögfesta þau sjónarmið sem hann hefur í málinu. En á sama tíma ætlar hann að halda áfram viðræðum við opinbera starfsmenn um aðra meðferð mála væntanlega en það hefur í för með sér að samþykkja lög af þessu tagi og síðan fari mál dómstólaleiðina.
    Mér finnst þetta óeðlileg vinnubrögð. Mér finnst þetta vera svipað, eins og ég sagði áðan, og að segja sem svo t.d. í kjarasamningum: Hækkum launin strax, frá og með þeim degi sem við setjumst niður til að ræða kaup og kjör, en svo lækkum þau seinna þegar samningsaðilar eru búnir að ná niðurstöðu. Mér finnst að það sé verið að setja opinbera starfsmenn í algjörlega vonlausa eða mjög erfiða stöðu í þessum viðræðum með þessum hætti. Þess vegna skora ég á hæstv. fjmrh. í nafni sanngirninnar að ýta þessu frv. út af borði Alþingis og síðan í framhaldi af því að halda áfram viðræðum við opinbera starfsmenn um það hvernig á að standa að einkavæðingu fyrirtækja og meðferð þeirra mála sem snúa að starfsfólki.