Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 21:14:09 (6362)


[21:14]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það var um miðjan desember sem við ræddum seinast um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins hér í sölum Alþingis og þá átti raunar að hespa því máli í gegn fyrir jól. Ég gerði þá að umtalsefni hvaða vit væri eiginlega í því að hætta því í góðærum að safna til mögru áranna og ég man ekki betur en að hæstv. sjútvrh. væri í rökvandræðum að neita þeirri speki. M.a. gripum við til hinnar helgu bókar því þar eru þessi mál túlkuð mjög myndrænt og þessi speki er að sjálfsögðu í fullu gildi.
    En nú er enginn jólahugur í fólki lengur, raunveruleikinn blasir við og því miður hafa menn ekkert vitkast eða, sem kannski verra er, ekkert tekið mark á því sem þeir e.t.v. hafa þó áttað sig á. Ég hef ekki nokkra trú á því að hv. stjórnarsinnar geri sér ekki grein fyrir því hvers konar vitleysa þetta er sem hér er á ferðinni. Spurningin er bara: Hvers vegna í ósköpunum að halda dauðahaldi í þetta? En það hefur mjög ljóst komið hér fram að fyrir því eru einföld og að mörgu leyti mjög ómerkileg rök. Það er verið að reyna að seilast í hverja þá féþúfu sem finnst og þarna fundust einhverjir aurar á lausu og nú skal ná í þá og gleyma öllum skynsamlegum markmiðum um framtíðina. Og það á jafnvel að rústa heilt kerfi fyrir það. Mér finnst engin glóra í þessu.
    Hæstv. sjútvrh. komst reyndar að þeirri niðurstöðu við 1. umr. fyrir jólin í andsvari við ræðu minni að sjávarútvegsfyrirtæki mundu sjálf sjá um að jafna sveiflurnar þótt ekkert formlegt apparat á borð við Verðjöfnunarsjóð væri til. Nú hefur það verið fullkannað að engin slík verðjöfnun er í bígerð af hálfu þeirra fyrirtækja sem starfa í sjávarútvegi og þetta hefur fengist margstaðfest. Þetta er hvorki að gerast með formlegum né óformlegum hætti. Og ef hæstv. sjútvrh. er sjálfum sér samkvæmur, sem hann reyndar allt of sjaldan er, þá ætti hann að fengnum þessum upplýsingum að hætta við þessa dómadagsvitleysu sem nánast enginn mælir bót þrátt fyrir að fram hafi komið ábendingar um að e.t.v. væri hægt að lagfæra þetta kerfi svolítið, en það er bara allt annað mál.
    Ég tók það fram í ræðu minni við 1. umr. þessa máls að mér þætti alveg lítandi á það að fyrirtæki innan sjávarútvegs sem væru komin í greiðslustöðvun og sannanlega á barmi gjaldþrots gætu fengið greiddar út inngreiðslur sínar úr Verðjöfnunarsjóði. Þetta er jú einn af þeim ásteytingarsteinum sem mest hefur verið rætt um varðandi núverandi tilhögun Verðjöfnunarsjóðs sem annars hefur verið töluverður friður um þrátt fyrir það að hagsmunaaðilar hafi verið að færast í áttina að því að leggja þetta kerfi niður. Flestum þeirra sem komu á fund hv. sjútvn. þótti þetta framkvæmanlegt og mörgum til bóta.
    Ég tel því að frekar en að gefast upp þótt einhverjir hnökrar séu á lögunum eins og þau eru nú þá ættu menn að vinda sér í það að lagfæra það litla sem þarf að lappa upp á í þessu ágæta verðjöfnunarkerfi. Ég vil m.a. taka það fram að Bjarni Bragi Jónsson, sem kom á fund nefndarinnar fyrir hönd Seðlabankans, sagði að slíkt mætti alveg gerast sjálfvirkt ellegar meta hvert tilvik fyrir sig. Persónulega hallast ég frekar að hinu síðarnefnda því mér finnst ekki að þarna eigi skýlaust að vera um sjálfvirkar greiðslur út að ræða en mér finnst hitt alveg fáránlegt þar sem öll tök eru á því að meta hverjar inngreiðslur hvers fyrirtækis eru. Mér finnst alveg augljóst að það þurfi að líta á þessa leið og vera hægt að grípa til þessara ráðstafana. Og það komu afskaplega fá rök gegn þessu fram í þeim spurningum sem við höfðum möguleika á að leggja fyrir gesti nefndarinnar. Miklu fleiri voru á því að þetta væri nákvæmlega það sem þyrfti að gera. Og það er ekki nokkurt vafamál að ef þetta yrði gert yrði meiri friður um þetta kerfi.
    Það er hins vegar annað mál og öllu stærra sem rætt hefur verið um og það er að jafna þurfi fleiri sveiflur en verðsveiflur. Það hefur í rauninni þegar verið gert með útgreiðslum sem ákveðnar voru úr sjóðnum á ská við gildandi lög. Þetta eru eðlilegar breytingar sem án efa væri hægt að gera af einhverju viti ef ekki væri verið að rugla með þetta mál, sem hér er til umræðu, með því að þykjast ætla að leggja sjóðinn niður án þess að rökstyðja það, án þess að koma með neitt bitastætt í staðinn heldur ,,af því bara``. Það eru einfaldlega engin rök. Það er það sem krakkarnir segja þegar þau komast í rökþrot og það er greinilega það sem stjórnmálamenn hafa gert sem ekkert hafa kynnt sér málið. Ég verð því miður að taka undir með hv. 1. þm. Austurl. að það mætti helst halda að hér væri hreinlega um vanþekkingu að ræða.
    Svo ég vitni nú aftur í Bjarna Braga Jónsson, er hann kom á fund nefndarinnar ásamt fleirum, þá held ég að orð hans lýsi kannski þessari hringavitleysu einna best. En hann sagði um niðurstöðu nefndarinnar sem vann það verk sem er bakland frv. og allir geta kynnt sér sem kæra sig um að lesa greinargerð frv.:
    ,,Menn komust að því að kerfið virkaði vel og því skyldi það lagt niður.``
    Í greinargerðinni með frv., neðarlega á bls. 7 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Verðjöfnunin samkvæmt lögunum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins virðist hafa gengið vel í framkvæmd og reynst næsta snurðulaus. Uppgjörstilhögun í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins er mun betri en verið hafði í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Þá þykir deildaskipting í sjóðnum vera betri en í hinum gamla, einkum þar sem hún hefur ekki áhrif á ráðstöfun hráefnis milli vinnslugreina. Ekki hefur síður þótt skipta máli að reglur um ákvörðun viðmiðunarverðs samkvæmt lögum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins eru mun ákveðnari en hinar sem áður giltu. Ákvarðanir urðu mun sjálfvirkari en verið hafði og reglurnar gefa ekki færi á huglægu mati, undantekningum eða geðþóttaákvörðunum til að bregðast við tilteknum skilyrðum eða afbrigðum. Þannig sýnist nánast hafa verið komið í veg fyrir að sjóðnum yrði beitt í öðru skyni en til verðjöfnunar. Reglurnar um ákvörðun verðjöfnunar þykja þannig hafa aukið mjög á festu í starfsemi sjóðsins og dregið úr misklíð og tortryggni um framkvæmd verðjöfnunarinnar.``
    Virðulegi forseti. Þannig hljóðar tilvitnun í greinargerð. Af þessu mætti ráða að þar með væru allir sáttir við málið. En ég vil, virðulegur forseti, ljúka tilvitnuninni með lokasetningu málsgreinarinnar, sem kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum:
    ,,Þær virðast hins vegar ekki hafa valdið breytingum á viðhorfum hagsmunaaðila til opinberrar verðjöfnunar og starfsemi sjóðsins yfirleitt.``
    Sem sagt það er bara nákvæmlega það sama og Bjarni Bragi Jónsson sagði: Menn komust að því að kerfið virkaði vel og skyldi því lagt niður.
    Þessi furðulega niðurstaða er ekki einasta undarleg miðað við efni málsins heldur er hún alls ekki rétt. Því eins og fram kemur á 9. síðu í sömu greinargerð þá voru ekki einu sinni öll fyrirtækin í fiskvinnslu og úr hópi fiskseljenda sem tóku undir þetta viðhorf. Það kom t.d. fram hjá Arnari Sigmundssyni hjá Samtökum fiskvinnslustöðva að hann tæki ekki undir þessi viðhorf og svo væri um fleiri.
    Samtök fiskvinnslustöðva lögðu til varðandi afgreiðslu á frv. að henni yrði a.m.k. frestað þar til frv. um Þróunarsjóð yrði afgreitt en svo sem kunnugt er tekur það frv. daglegum breytingum og við vitum ekkert hvað verður úr og hvað verður eftir og er það kannski út af fyrir sig vel.
    Frá Íslenskum sjávarafurðum fengust þau skilaboð að þar var bent á í umsögn að sveiflujöfnun væri ekkert einkamál sjávarútvegsins. Þetta finnst mér ábyrg niðurstaða og gott að heyra, ekki bara frá þeim sem fjalla um fjármál þjóðarinnar heldur einnig frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Mér finnst það góðra gjalda vert. Það er því ekki einu sinni verið að tala um að það sé eining um þetta eins og látið er í veðri vaka meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi, síður en svo. Hins vegar hafa menn með semingi og með dræmum orðum sagt að það væri hvort eð er svo lítið eftir í sjóðnum og þetta virkaði kannski ekki alveg nógu vel og það væri kannski allt í lagi að gera það og ætti kannski að gera þetta eða gera þetta öðruvísi. Mér fannst ekki hugur fylgja máli. En það er auðvitað mitt mat á orðum fólks.
    Hins vegar er eins og það hafi orðið einhver niðurstaða að þarna væri kannski hægt að ná í pening sem hægt væri að hafa í rekstri og umferð. Það er einmitt nákvæmlega það sem vandamálið er og tilgangur slíkrar sveiflujöfnunar, að dæla ekki inn í hagkerfið of miklum peningum þegar góðæri er þannig að þensla verði of mikil. Ég held að ég geti fullyrt það alla vega að það eru blendnar tilfinningar hjá sumum þeirra sem þó hafa verið að mæla með því að þessi sjóður yrði lagður niður.
    Það sem mér finnst þó vega enn þyngra er það að enginn þeirra hagsmunaaðila sem komu á fund nefndarinnar gat upplýst um nokkra einustu tilburði í átt til þess að taka upp sveiflujöfnun af einu eða neinu tagi hjá fyrirtækjunum sjálfum. Og ég gerði það nú, ég get ekki sagt mér til gamans en mér og öðrum til fróðleiks, að spyrjast allítarlega fyrir um þetta og sama svarið kom alls staðar. Menn voru jú að ræða að það væru til einhverjar leiðir, þær voru mjög lítið ígrundaðar, mjög lítið útfærðar og þar gerðist það sama og í ræðum hæstv. sjútvrh. fyrir jólin, það var ekki hægt að benda á nokkurn skapaðan hlut sem gæti komið í staðinn. Gefi maður sér þær forsendur, sem ég geri og fjölda margir aðrir, að það þurfi eitthvað að koma í staðinn ef það á að leggja svona skilvirkt kerfi niður, þá er alls ekkert að gerast og þar af leiðandi má ekki fella niður kerfið svona ábyrgðarlaust.
    Ég vil líka benda á að jafnvel í umsögnum sumra þeirra sem þó töldu að leggja yrði niður sjóðinn komu fram rök sem í leiðinni gerðu það óskiljanlegt hvernig þeir komust að þeirri niðurstöðu. Í því sambandi vil ég vitna til nokkurra orða í umsögn Árna Benediktssonar, sem mætti á fundinn fyrir hönd Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þessi umsögn er í framhaldi af ummælum á fundi sjútvn. nú í morgun þar sem fram kom það álit mitt að fullreynt væri eftir aldarfjórðungs reynslu að verðjöfnun á vegum sjávarútvegsins sjálfs hefði runnið sitt skeið og ekki þýddi að reyna að nýju á þeim vettvangi. Jafnframt kom fram vegna hinna miklu sveiflna á verði sjávarafurða væri verðjöfnun nauðsynleg, ekki einasta fyrir sjávarútveginn heldur fyrir atvinnulífið í heild og alla efnahagsstarfsemi, það er að segja ef við eigum í framtíðinni að búa við þann efnahagslega stöðugleika sem er nauðsynlegur til þess að renna traustum stoðum undir atvinnulífið til frambúðar.``
    Í niðurlagi sömu umsagnar segir: ,,Að öllu samanlögðu virðist því vera vænlegra að fara fyrri leiðina sem hér hefur verið nefnd, taka af sjávarútveginum í uppsveiflu og endurgreiða til hans í niðursveiflu.
    Á undanförnum árum hafa sjávarútvegsmenn oft spurt hvort ekki sé rétt að láta verðjöfnun ná til fleiri atvinnugreina en sjávarútvegs ef menn vilja verðjöfnun á annað borð. Því er til að svara að sveiflurnar eru mestar í sjávarútvegi. Þar að auki er varla ástæða til að gera kerfið of flókið. Þó er alls ekki loku fyrir það skotið að fleiri útflutningsgreinar gætu fallið undir verðjöfnun ef athugun leiddi í ljós að einhver þeirra byggi við álíka verðsveiflur og sjávarútvegurinn.``
    Ég verð því miður að segja það að ég les ákveðna þversögn út úr þessu þar sem það er alveg viðurkennt að sveiflujöfnunar sé þörf. Ég ætla ekki að útlista þær hugmyndir sem Árni veltir upp til lausnar nema einhver fari sérstaklega fram á það síðar í umræðunni. En meginhugmyndin er eftir sem áður sú að verðjöfnun verði að eiga sér stað áfram á vegum opinberra aðila. Það er niðurstaðan í þessari umsögn. Og það hefur verið gert með Verðjöfnunarsjóði og það sem meira er, um aðra lausn hefur ekki orðið skárri sátt og ekki bent á neina slíka lausn enn sem á sér jafnmarga málsvara. Ég bendi sérstaklega á þá tengingu sem hv. síðasta ræðumaður gerði grein fyrir þar sem margir telja að þeir standi annaðhvort frammi fyrir því að um slíka verðjöfnun verði að ræða ellegar veiðileyfagjald. Ég held að þá verði menn að hugsa sig um tvisvar ef þeir ætla að fara að styðja slíkt. Ég er ekki viss um að allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi komi svo skælbrosandi eða glaðbeittir inn í þá umræðu.
    Af þessu þykist ég hafa sýnt fram á að það eru ekki einu sinni hagsmunaaðilar, sem forðum samþykktu hið breytta verðjöfnunarkerfi með stofnun Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins en vilja nú víkja frá því, geta ekki rökstutt það að leggja beri sjóðinn niður nema þá e.t.v. með einhverjum klisjum um að verðjöfnun eigi að vera hjá fyrirtækjunum sjálfum en ekki í einhverju föstu opinberu kerfi. Hæstv. sjútvrh. er fastur í slíkum alhæfingum án þess að geta á nokkurn hátt útfært það að mínu mati. Honum gefst tækifæri til þess síðar í þessari umræðu ef hann er allt í einu dottinn niður á einhverja alveg gráupplagða lausn. En ég hef ekki heyrt hana enn.
    Þar sem ekkert slíkt er í sjónmáli þá er það orðið meira en lítið þversagnarkennt að vera yfir höfuð að halda þessari skoðun til streitu. Þetta er svona álíka og að segja að það borgaði sig ekki að hafa gula björgunarbáta í skipum af því að þeir bláu væru svo miklu betri og svo færu menn að henda þeim gulu fyrir borð án þess svo mikið að hafa séð neina bláa til að setja um borð í staðinn, hvað þá að hafa prufað hvernig þeir virki.
    Mér finnst þetta einfaldlega umræða sem ekki er samboðin þeim sem láta sér hag sjávarútvegsins einhverju skipta.
    Ég ætla þá að víkja frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Ekki geta þeir rökstutt að Verðjöfnunarsjóð beri að leggja niður og það þrátt fyrir að við höfum fengið allmiklar umsagnir í hendurnar, bæði þær sem fylgdu gerð frv. og einnig þær sem síðar bárust í hendur sjútvn. og þá á ég bæði við munnlegar og skriflegar umsagnir.
    Spurningin sem við fjölluðum mjög um í hv. sjútvn. er hins vegar sú hvort þær gífurlegu sveiflur sem orðið geta í sjávarútvegi séu yfir höfuð eitthvert einkamál hagsmunaaðila þar. Auðvitað eru þær það ekki. Rétt eins og samfélaginu ber skylda til að rétta hlut sjávarútvegsins þegar hann verður fyrir skakkaföllum, því hann tengist öllu okkar lífi hér á landi, þá ber sjávarútveginum að sjálfsögðu að leggja fyrir í þágu sjálfs sín og þar með allrar þjóðarinnar þegar vel árar til þess að vera betur í stakk búin til að mæta erfiðu árunum sem alltaf hljóta að koma. Annars er sjálfstæði samfélags okkar ógnað. Þetta hefur margfaldlega sýnt sig og það kom sér sannarlega vel að eiga í sjóði nokkurt fé þegar skakkaföll höfðu um nokkurt skeið dunið á sjávarútvegnum á vordögum árið 1992.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt máli mínu til stuðnings að fara að nokkru leyti í gegnum þær umsagnir sem hv. sjútvn. bárust en þær voru afskaplega margar og þó að hv. síðasti ræðumaður hafi gert grein fyrir töluverðu af því sem þar kom fram þá er, eins og hann sagði í lokaorðum sínum, töluvert ósagt. Hann vísaði til okkar sem studdum nál. minni hlutans að fylla þar í eyðurnar og ég held að þær umsagnir sem ég ætla að vitna til hafi einmitt þann tilgang þar sem við höfum tekið nokkuð misjafnar áherslur. Að mörgu leyti var umfjöllunin innan sjútvn. afskaplega fróðleg og þar kom ekkert í rauninni fram annað en það sem skaut stoðum undir þá bjargföstu skoðun mína að hér sé verið að flana að hlutunum og taka óþarfa áhættu fyrir hönd þjóðarbúsins.
    Mér finnst sérstaklega forvitnilegt að skoða vel þær umsagnir sem komu frá fulltrúum í atvinnulífinu. Ég staldra fyrst við umsögn frá ASÍ en það þarf ekki að fjölyrða um það hve mikilvægt það er að hlusta á stærstu launþegasamtök Íslands, sem m.a. hafa tengt þessa umræðu aðstæðum í atvinnumálum þjóðarinnar. Ég held að það samhengi sé þess eðlis að við getum ekki leitt slíka afstöðu hjá okkur. En í umsögn Alþýðusambands Íslands, sem er dagsett þann 21. febr. á þessu ári segir hreint út, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Alþýðusambandið telur brýnt að tryggja þau markmið sem lágu til grundvallar starfsemi Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins, þ.e. nauðsyn þess fyrir uppbyggingu annarra atvinnugreina að sveiflur í afkomu sjávarútvegs verði jafnaðar með einhverjum hætti, nái fram að ganga. Verði það ekki gert standa stjórnvöld frammi fyrir því að jafna afkomusveiflur í sjávarútvegi með breytingum á gengi krónunnar eða vöxtum með þeim skaða sem það hefði fyrir aðrar greinar sem ekki nytu sambærilegrar uppsveiflu og í sjávarútvegi. Íslenskt efnahagslíf hefur farið í gegnum mjög erfiða aðlögun að sífelldum samdrætti í þorskveiðiheimildum á undanförnum árum og ljóst er að leggja verður höfuðáherslu á að efla aðra útflutningsstarfsemi ef okkur á að takast að treysta og auka það velferðarstig sem við höfum búið við. Ef það á að takast þá verðum við einfaldlega að jafna afkomusveiflur í sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti, þó þannig að sú sveiflujöfnun hafi ekki skaðleg áhrif á aðrar greinar. Á þessu er ekkert tekið í frv. og hvorki liggur fyrir nein stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar né Alþingis hvernig eigi að bregðast við. Það er t.d. óljóst hvort hér er verið að undirbúa ákvörðun um að taka upp auðlindaskatt en ákvörðun um að fella lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins úr gildi mun óhjákvæmilega færa meiri þunga yfir á þá umræðu. Ef snögg umskipti verða á afkomu sjávarútvegs gæti sú umræða þurft að fara fram í verulegri tímaþröng þar sem við stæðum frammi fyrir annaðhvort gengishækkun eða upptöku auðlindaskatts. Það er að sjálfsögðu óviðunandi og því telur Alþýðusambandið eðlilegra að Alþingi fresti ákvörðun um framtíð Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins um sinn eða þangað til ljóst er hvers konar sveiflujöfnunarkerfi eigi að taka við og þegar í stað verði teknar upp viðræður um mótun slíks kerfis.``
    Ég held að þetta segi afskaplega mikið og sé því miður alveg hárrétt. Í þeirri deiglu sem nú er og þeim fundum sem eru í herbergjum úti um hvippinn og hvappinn um húsið þar sem menn eru að reyna að ná saman um sjávarútvegsstefnuna er allavega brýnt að menn séu ekki að taka einhverjar gáleysislegar ákvarðanir í tímaþröng vegna einhverra aðgerða sem eru alveg gjörsamlega óþarfar, skila litlu og hafa að mínu mati ekki nokkurn tilgang. Ef það á að vera vatn á myllu auðlindaskattpínara að leggja þennan sjóð niður þá þykir mér menn vera orðnir býsna ósamkvæmir sjálfum sér en þessi tenging er alveg fullkomlega eðlileg.
    Samtök iðnaðarins sendu einnig inn umsögn og það varð að mörgu leyti mjög jákvæð breyting á starfi hv. sjútvn. þegar fulltrúar iðnaðarins komu, ég held ég muni rétt, í fyrsta sinn á fund hv. sjútvn. Ég tel að að mörgu leyti þá hafi það verið fróðlegt fyrir alla aðila, bæði Samtök iðnaðarins og sjútvn. og þá sem vonandi taka eitthvert mið af starfinu sem þar var unnið, að þessi umræða og þetta samstarf skyldi takast þarna. Það er ekki mikið sem ég þarf að vitna í umsögn samtaka iðnaðarins en þó finnst mér forvitnilegt sem þar kemur fram, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Það er ekki hægt að búast við að fjölbreytt atvinnulíf vaxi og dafni á Íslandi ef samkeppnisstaða og starfsskilyrði eru stöðugum breytingum undirorpin, allt eftir því hvernig árar í sjávarútvegi.
    Iðnaðurinn þolir ekki þá raungengishækkun sem hlýtur að fylgja ef ekkert verður að gert þegar fer að rofa til í sjávarútvegi. Það eru ekki boðleg starfsskilyrði að lúta slíkum utanaðkomandi og óþörfum sviptingum í samkeppnisstöðu og fá ekkert við því gert. Það er á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að hér ríki viðunandi starfsskilyrði og góð samkeppnisstaða fyrir allan atvinnurekstur.``
    Við þurfum kannski ekki síst að hafa í huga að það virðast allir, nema hæstv. ríkisstjórn, gera ráð fyrir því að það muni rofa til í sjávarútvegi. Ég held ég verði að taka upp aftur þá umræðu sem ég átti við hæstv. sjútvrh. við 1. umr. málsins í desember þegar ég spurði hann hvort hann sæi virkilega ekki fram á betri tíð í sjávarútvegi því mér fannst það mjög merkilegt og bókstaflega ábyrgðarhluti ef hæstv. sjútvrh. landsins þættist sjá eymd og óáran fram undan. Það virðist benda til þess að hann telji alla vega ekki í sínum verkahring að reyna að gera neitt til að bæta stöðuna í íslenskum sjávarútvegi og gera þá ekki einu sinni ráð fyrir því að aðrir, t.d. fulltrúar hagsmunaaðila, sjómenn, jafnvel skynsamir útgerðarmenn, Hafrannsóknastofnun, eða einhverjir geti að gert ef getu- og viljaleysi stjórnvalda er algjört eins og virðist vera. Ég ætla ekkert að fara að endurtaka þessa umræðu en mér þykir það alveg furðulegt ef iðnaðurinn hefur meiri trú á sjávarútvegi þjóðarinnar heldur en ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar.
    Mér finnst þetta ekki bara furðulegt heldur verð ég að segja heldur ógeðfellt.
    Stærstu samtök vinnuveitenda, VSÍ, vara einnig við afnámi laga um sjóðinn. Þeirra rök eru að hluta til dálítið á öðrum nótum en þar sem ég er sérstaklega að fjalla um aðila vinnumarkaðarins, sem koma að flestum málum hér, þá finnst mér ekki úr vegi að við lítum á hvað Vinnuveitendasamband Íslands segir. Það eru aðeins tveir bútar úr greinargóðri og ítarlegri umsögn þeirra sem ég sé ástæðu til að taka hér upp. Með leyfi forseta segir í þessari umsögn, dagsettri 22. febr. 1994:
    ,,Tillaga nefndarinnar um afnám laganna er því ekki niðurstaða af efnislegri umfjöllun um þörf fyrir sveiflujöfnun á borð við þá sem í lögunum felst né reynslunni af starfstíma sjóðsins því að rökræn niðurstaða af þeim hluta greinargerðarinnar hefði verið tillaga um að starfsemi hans væri haldið áfram þótt þörf væri nokkurrar breytingar á starfsreglum. Tillagan um afnám laganna er hins vegar til komin vegna samstöðuleysis um sjóðinn, nánar tiltekið andstöðu allra helstu aðila í sjávarútvegi við lögin, en nefndin gengur út frá því að starfsemi sjóðsins verði ekki fram haldið nema sæmilegur friður ríki um starfsemi hans innan sjávarútvegsins.``
    Og síðar í þessari umsögn segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frv. til laga um afnám laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins er því ótímabært. Ef almennur skilningur ríkir á því að þjóðarhagsmunir krefjist þess að uppsveiflu í sjávarútvegi, hvort sem um er að ræða magn eða verð, fylgi ekki keðjuverkandi kostnaðarhækkanir og hækkun raungengis, þá ber ekki að kasta þessu hagstjórnartæki á glæ öðruvísi en að annað jafngilt eða betra verði tekið upp í staðinn. Sveiflur í sjávarútvegi eru ekki einkamál sjávarútvegs því að þær hafa áhrif á þjóðfélagið allt vegna yfirburðastöðu hans í gjaldeyrisöfluninni. Raungengishækkun, sem undantekningarlaust hefur fylgt uppsveiflu í sjávarútvegi, lætur ekkert fyrirtæki ósnortið og veruleg raungengishækkun mundi kæfa í fæðingu þá fáu vaxtarbrodda sem fyrirfinnast í efnahagslífinu.
    Í ljósi þess sem að framan er rakið er æskilegt að fresta afnámi laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Í því felst ekki að verið sé að mæla með óbreyttri starfsemi sjóðsins því að mikilvægt er að sæmileg sátt náist um hagstjórnaraðferðir sem til þess séu fallnar að takmarka raungengishækkun í næstu uppsveiflu, þótt vandséð sé hvaða aðrar leiðir tryggi hagsmuni sjávarútvegsins betur.``
    Ég hef þegar upplýst það, og tel að ekki nokkur maður geti sagt annað um það, en það er ekkert annað í gangi. Það er ekkert kerfi í umræðu sem á að koma í staðinn nema ef vera skyldu einhverjar útfærslur á veiðileyfagjaldi og um það held ég sem betur fer að sé ekki sátt í samfélaginu. Mér finnst það í rauninni afskaplega sérkennilegt í því atvinnuástandi sem hér er nú skuli menn vera að úthugsa einhverjar leiðir til þess að gera vaxtarbroddi í atvinnulífi erfitt fyrir ef við komumst út úr þeim vanda sem sjávarútvegurinn er í nú. Ég hef lýst því áður að það virðast flestir hafa trú á því aðrir en hæstv. ríkisstjórn sem bara vantar smáaura í skiptimynt.
    Á fundi sjútvn. sagði Hannes G. Sigurðsson, sem kom fyrir hönd Vinnuveitendasambands Íslands, fullum fetum að það ætti frekar að hefja vandaða umræðu um þetta mál og halda þessum lögum. Um sveiflujöfnun innan fyrirtækja, sem ýjað er að í greinargerð um frv., sagði hann þá hugmynd beinlínis hlægilega og að slíkt mundi aldrei ná tilgangi sínum. Ég man ekki betur en ég hafi hváð og tekið þetta afskaplega skilmerkilega fyrir því ég tek gjarnan allítarlegar nótur á fundum sjútvn. en alla vega er alveg ljóst að orðin ,,hlægilegt`` og ,,þetta mun aldrei ná tilgangi sínum``, eru nákvæmlega það sem frá honum kom. Þessar hugmyndir eiga því ekki upp á pallborðið hjá fulltrúum í Vinnuveitendasambandi Íslands og ég verð því miður að taka undir það að ég er ekki farin að sjá neina útfærslu. Ég hef jafnvel gengið á milli þingmanna stjórnarliðsins, að vísu úr órólegu deildinni, og milli manna sem hafa verið vel heima í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og spurt þá hvað í ósköpunum sé eiginlega verið að meina með þessum glósum um að fyrirtækin muni taka við þessu. Það varð fátt um svör nema einn sem reyndist svo raunsær að hann sagði að þetta væri náttúrlega bara þvættingur og það er alveg rétt. Ég vona að hann sýni það með atkvæði sínu í umfjöllun um þetta mál ef það fær ekki bara að sofna. ( Gripið fram í: Hver var maðurinn?) Maðurinn heitir Einar og er Guðfinnsson og er hv. þm. fyrir hönd Vestfirðinga. Ég held að hann sé ærlegur og segi það sem margir meina. Og þó hér hafi verið um kaffistofuspjall að ræða þá held ég að hann erfi það ekki við mig þó ég segi frá því skynsamlega sem frá hans munni kom í þessu ágæta spjalli. ( Gripið fram í: Og var þetta það eina?) Virðulegi forseti, ég ætla ekki að fara að standa í samræðum við þingmenn úti í sal en ég er spurð hvort þetta hafi verið það eina. Spurning mín gaf ekki tilefni til annars heldur en að fjalla um nákvæmlega þetta og svörin voru afskaplega skýr enda voru spurningarnar það skýrar að ég sætti mig ekki við neitt moð. Ég vonast til þess að hv. þm. muni taka þátt í umræðunni og lýsa baklandinu að þessari niðurstöðu.
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Austurl. gerði við upphaf umræðunnar afskaplega vel grein fyrir sjónarmiðum þeirra stofnana sem falið hefur verið að meta og stýra fjármálastefnu ríkisstjórna á hverjum tíma, þ.e. Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka Íslands. Mér þykir það hins vegar með ólíkindum að það skuli þurfa okkur stjórnarandstæðinga til þess að reyna að koma tauti við ríkisstjórnina og fá hana til þess að hlusta á vel rökstuddar ábendingar þessara stofnana. Ég ætla að láta mér nægja í ljósi mjög ítarlegrar og góðrar ræðu hv. seinasta ræðumanns að víkja í örfáum atriðum að umsögnum þessara aðila.
    Ég kem þá fyrst að erindi Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, frá því 28. okt. 1993 á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna. Þetta erindi er meðal þeirra gagna sem við í sjútvn. höfum haft undir höndum og ég tek það fram að þegar þetta erindi er haldið er þessi umræða komin á fullan skrið og frv. gott ef ekki komið fram eða í þann mund að koma fram á Alþingi en þetta var sl. haust. Á bls. 7 í útskrift af ræðu forstjóra Þjóðhagsstofnunar, í lok hennar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nú er fyrirhugað að fella úr gildi lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Hlutverk hans er að jafna áhrif verðsveiflna á sjávarafurðum á þjóðarbúskapnum. Flestir eru sennilega sammála um að sjóðurinn gerði gagn á árunum 1991 og 1992. Þess vegna er mikilvægt að menn hugleiði hvort skynsamlegt er að fella lögin um sjóðinn úr gildi fyrr en til staðar er tæki sem getur gegnt svipuðu hlutverki og hann gerir. Aðalatriðið er þó ekki hvort Verðjöfnunarsjóður starfar áfram eða ekki heldur hitt að gerðar verði ráðstafanir sem stuðla að betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum þegar til lengri tíma er litið en hér hefur verið um langt skeið.
    Það er einfaldlega ekki fullnægjandi að beita eingöngu almennum ráðstöfunum á sviði peningamála og ríkisfjármála. Það er hægt að ná betri árangri eftir öðrum leiðum.``
    Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir þetta og raunar að lýsa eftir því hvað á að koma í staðinn. Ég endurtek: Hvað á að koma í staðinn? Menn geta ekki farið að styðja afgreiðslu þessa frv. nema þeir geti bent á það og ég spyr: Hér eru þó stjórnarliðar inni þó að verið sé að plotta á fundum út um allt

hús eftir því sem ég best veit þar sem menn eru í vanda vegna sjávarútvegsmála á ýmsum stigum þeirra mála. ( GHall: Það er misskilningur hjá ræðumanni. Það er ekkert verið að plotta úti í sal.) Virðulegi forseti. Ég heyri hér í frammíkalli að öllu plotti er lokið og ég veit ekki hvort ég á að hryggjast eða gleðjast. En þegar ég kom til fundar og raunar nokkru eftir að fundur hófst, þá voru menn enn alveg á fullu undir rauðu ljósi að funda og eftir því sem mér var sagt var það um sjávarútvegsmálin. Það má vera að hv. stjórnarþingmenn sjái ástæðu til að leiðrétta það hér og ég verð ekki vitrari en þær upplýsingar eru sem mér berast. En það er alveg ljóst að það er töluverður titringur í húsinu og ekki trúi ég því að hv. þm. og frammíkallandi fari að neita því. En það getur svo sem vel verið að honum sé rótt og það er út af fyrir sig alltaf gott ef fólki líður vel.
    Virðulegi forseti. Ég var ekki alveg búin með tilvitnun í ræðu Þórðar Friðjónssonar. Hann sagði einnig: ,,Um markmið sveiflujöfnunar eru menn án efa sammála. Skynsamlegt er að búa þannig um hnútana að þegar verð hækkar á ný verði tækifærið notað til þess að bæta stöðu sjávarútvegs eftir því sem kostur er og jafnframt draga úr þensluáhrifum verðhækkunarinnar á þjóðarbúskapinn. Þótt verðhækkun sé ekki í augsýn nú er mikilvægt að huga að þessu verkefni, finna þar tryggar og ásættanlegar leiðir að því markmiði sem hér hefur verið gert að umtalsefni.``
    Eins og fram hefur komið er ekkert slíkt að gerast hér. Ég hlýt að lýsa eftir ábyrgð og ég hlýt að lýsa eftir heilbrigðri skynsemi ef menn eru virkilega enn að hugsa um að keyra þetta mál hér í gegn.
    Það er ekki margt sem ég þarf að bæta hér við úr umsögnum en aftur á móti held ég að þessi umræða megi ekki halda áfram án þess að við fáum eitthvað meira en vel meinandi ræðu hv. 1. þm. Vestf. sem var í virkilega miklum vanda staddur að mæla hér fyrir nál. meiri hluta hv. sjútvn. Ég hafði vissa samúð með honum að þurfa að mæla fyrir þessu máli. Vissulega er hann að reyna, fyrst þessi staða er uppi, að sjá til þess að þessum peningum, sem eru kannski ekki afskaplega miklir, sé að einhverjum hluta varið í eitthvað sem að gagni mætti koma, en það er afskaplega leiðinlegt ef menn standa frammi fyrir því að vera að ráðstafa fé sem væri miklu betur komið áfram í þeim sjóði sem á að hafa þann tilgang, sem kannski er einna stærstur hér í efnahagslífi, og það er að jafna þær miklu og eðlilegu sveiflur sem eru í sjávarútvegi vegna ýmissa atriða. Og ég ítreka það: Vilji menn gera eitthvað, þá er það frekar að líta á það hvernig þessum peningum og þeim peningum sem vonandi gætu safnast upp í góðæri í slíkum sjóði væri varið og hvernig best væri að nýta þá peninga þegar vel árar en vera núna að skipta reytunum á milli sín einhvern veginn, reyna að gera það besta úr öllu.
    Þetta á ég verst með að sætta mig við. Ég held að menn sjái þetta meira og minna, ég held að þeir skilji það og ég held að þeir virði það. En það er eins og þeir hafi dregist inn í atburðarás sem ekki verður stýrt og séu bara að reyna að gera gott úr öllu. Og vissulega er það virðingarvert, en staðan er óþolandi og hún er óþörf.
    Ég tek það fram að Þjóðhagsstofnun sendi, auk þess að láta okkur í té ræðu Þórðar Friðjónssonar, formlega umsögn þann 22. febr. sl. Þar eru dregin saman í þrjá punkta ástæður þess að Þjóðhagsstofnun telur óskynsamlegt að afnema lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, a.m.k. fyrr en gerðar hafa verið aðrar ráðstafanir sem gætu þjónað þeim tilgangi að jafna sveiflur.
    Fyrsti punkturinn er sá að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins sé hagstjórnartæki sem stuðlar að því að draga úr sveiflum í þjóðarbúskapnum. Og það er ekki umdeilt að sjóðurinn gegni þessu hlutverki sínu mjög vel í þeirri uppsveiflu sem varð á árunum 1990 og 1991. Það er heldur ekki umdeilt að sveiflujöfnun í sjávarútvegi er æskileg við íslenskar aðstæður frá sjónarmiði hagstjórnar. Þetta er sem sagt fyrsti punkturinn og ég tek undir hann því að það eru fá vestræn samfélög sem búa við eins dómadagsmiklar sveiflur og við gerum hér og það er staða sem við erum enn í. Við höfum búið við það á þessari öld að um 80% af vöruútflutningi landsmanna eru sjávarafurðir og allt okkar efnahagslíf byggist á sjávarútvegi.
    Í öðrum punkti frá Þjóðhagsstofnun kemur fram að ef Verðjöfnunarsjóður yrði lagður niður án þess að nokkuð kæmi í staðinn, þá yrði að beita öðrum hagstjórnartækjum, svo sem gengi, vöxtum og sköttum, meira í því skyni að jafna sveiflur í þjóðarbúskapnum. Þetta hefði að sjálfsögðu óþægilegar hliðarverkanir fyrir aðrar atvinnugreinar og fyrir vikið segir Þjóðhagsstofnun að hagvöxturinn yrði þá líklegast hægari án sveiflujöfnunar í sjávarútvegi. Jafnframt tekur Þjóðhagsstofnun fram að það verði ekki séð að sjávarútvegur bíði tjón af sérstakri sveiflujöfnun innan greinarinnar. Þvert á móti megi færa fyrir því rök að slík tilhögun geti styrkt greinina þegar til lengri tíma er horft og aftur get ég tekið undir með Þjóðhagsstofnun. Þetta er auðvitað alveg laukrétt og það hlýtur jafnvel harðasti stjórnarsinni að sjá.
    Í þriðju ábendingu Þjóðhagsstofnunar kemur fram að eitt af mikilvægari viðfangsefni á sviði efnahagsmála sé að búa þannig um hnútana að næsta uppsveifla í sjávarútvegi, hvort sem hún verður fyrr eða síðar, leiði ekki til ójafnvægis í þjóðarbúskapnum eða skerði hagvaxtarmöguleika til lengri tíma litið. Þjóðhagsstofnun tekur það að sjálfsögðu fram að Verðjöfnunarsjóður sé ekki eina leiðin að þessu markmiði og ýmsar fleiri komi til greina. En ástæðulaust sé hins vegar að gefa Verðjöfnunarsjóðinn upp á bátinn fyrr en ráðstafanir í þessu skyni hafa verið gerðar. Og ég ítreka: Þær hafa ekki verið gerðar.
    Í þessu ljósi telur Þjóðhagsstofnun þar af leiðandi ótímabært að afnema lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Það er mælt með því að skoða það gaumgæfilega hvaða leið til sveiflujöfnunar sé hagkvæmust frá sjónarmiði jafnvægis í þjóðarbúskapnum og skilyrða til hagvaxtar. Ég get alveg tekið undir það. En ég held að það sé engin tilviljun að ekki í einni umsögn eða tveimur heldur í fleirum kemur hreinlega fram að það hafi ekki verið fundin nein betri leið enn þá. Það getur vel verið að við eigum eftir að þróa okkur áfram og finna einhverja betri leið. Þegar ég tala um betri leið, þá er ég að tala um bæði leið sem við verðum sátt um og leið sem hreinlega er skynsamleg.
    Virðulegi forseti. Seðlabanki Íslands hefur verið hér nokkuð til umræðu og kannski helst fyrir það að frá honum barst umsögn þann 17. mars 1994, á þessu ári, þ.e. eftir að meiri hlutinn í sjútvn. hafði skilað inn nál. sínu. Ég verð að segja að það hefði verið kannski alveg ljómandi ef meiri hlutinn hefði lagst í lestur og skoðað þessa umsögn og látið prenta upp nál. og komist að annarri niðurstöðu því að ég sé ekki að tilefni sé til annars.
    Ég ætla ekki að fara mikið út í þessa umsögn. Henni hefur verið gerð alveg ljómandi góð skil, en ég ætla þó að taka það fram að í henni segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Starfsemi Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins frá árinu 1990 þarf síður að kynna.`` --- Þ.e. núverandi kerfi --- ,,Ákveðin markmið um sveiflujöfnun voru sett í lögum þess sjóðs og allt bendir til þess að þessum markmiðum hafi verið náð að því er varðaði inngreiðsluna í sjóðinn á árunum 1990--1991 og að nokkru leyti með útgreiðslunni 1992--1993, sem fór fram á grundvelli laga nr. 29/1992 um sérstaka útgreiðslu úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins.``
    Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að þarna er einmitt verið að opna fyrir það og Seðlabankinn að taka undir þau rök að það þurfi að jafna fleiri sveiflur heldur en einungis verðsveiflurnar, þ.e. magnsveiflurnar. Þetta finnst mér mjög gott innlegg í þessa umræðu og rökstyðja það enn frekar að við eigum að snúa okkur að því að gera þetta kerfi enn hæfara til þess að þjóna sínum tilgangi heldur en það nú er í stað þess að fara að afnema það og hella okkur út í óvissuna og þar með samfélaginu öllu. Ég get ekki kallað slíkt annað en ábyrgðarleysi og ég kæri mig ekki um að taka þátt í slíku ábyrgðarleysi.
    Ég er í rauninni dálítið undrandi á því að þetta mál skuli yfir höfuð einhvern tíma hafa farið út úr nefndinni og ég hlýt að spyrja: Hvern eru þeir að friða? Hvað er verið að gera? Hver hagnast á þessu? Var búið að lofa einhverju meiru en efni stóðu til og eru menn ekki reiðubúnir til að endurskoða það þá og gera betur og eitthvað skynsamlegra ef þeir eru búnir að binda sig á einhvern slíkan heimskulegan klafa? Ég hlýt að spyrja þessara spurninga og ég krefst þess að fá svör í þessari umræðu því að mér finnst að ég hafi sjaldan orðið vitni að eins fáum rökum fyrir jafnstórri breytingu og jafnvandræðalegum röksemdum fyrir henni. Ég held að það hafi fátt breyst frá því að við áttum okkar 1. umr. um þetta mál í desember í vetur nema að það hafa komið fram enn fleiri rök máli okkar til stuðnings sem vöruðum við því að fara út í þessa breytingu.
    Ég er ekki bara ósátt við þetta. Ég er einfaldlega undrandi og hneyksluð. Ég er það þrátt fyrir að maður sé ýmsu vanur í umræðum um sjávarútvegsmál þar sem maður sér ekki að skynsemin ráði ferðinni nema e.t.v. í einhverjum örfáum tilvikum. Þar er æ ofan í æ verið að sætta mjög margvísleg sjónarmið og þar ræður styrkleikamunur sem er mjög misjafn, en í þessu dæmi er málið ekkert flókið. Þetta er ekki eitt af þeim mýmörgu dæmum sem við höfum um það að aðilar hafi mismunandi hagsmuna að gæta. Hér eru flestir á sama báti og þar af leiðandi er aldrei slíku vant ekki verið að glíma við hina flóknu samsetningu flotans og þann vanda sem upp kemur sérstaklega þegar þarf að skipta sífellt minni afla á milli jafnstórs flota eða jafnvel stærri. Þessi vandræðagangur er því ekki bara óafsakanlegur heldur er hann mjög fáránlegur. Loksins þegar við erum með tiltölulega skýrar línur, ljósar niðurstöður, vel kannað mál, sátt sem varð á sínum tíma um þetta mál þótt eitthvað sé farið að slá í hana, þá ætla menn að fara að slá þetta kerfi af án þess að hafa nokkur rök fyrir því, án þess að vera búnir að gera þær ráðstafanir sem óhjákvæmilegar eru ef það á að fara út í þetta.
    Ég ætla ekki í fyrri ræðutíma mínum við 2. umr. málsins að fara neitt nánar út í þetta mál. Ég trúi því ekki að menn geti með góðri samvisku og fullum heilindum staðið að afgreiðslu þessa máls og á það jafnt við þá stjórnarsinna, sem tilheyrt hafa órólegu deildinni í sjávarútvegsmálunum, og þægu og góðu stjórnarsinnana sem kannski eru ekki eins mikið inni í sjávarútvegsmálunum. Því að það verður að segjast eins og er að því meiri þekkingu sem menn hafa á sjávarútvegsmálum, þeim mun órólegri virðast þeir verða og tregari í taumi að elta ríkisstjórnina því að þar virðast ákvarðanir vera teknar oft og tíðum með alveg ótrúlegri vankunnáttu á málefnum sjávarútvegsins. En loksins þegar við höfum allt í höndunum, við höfum rannsóknir, við höfum dæmi, við höfum skýrslur, við höfum niðurstöður, við höfum umsagnir, við höfum andmæli án raka við þessari lagasetningu, þá ætla menn að fara að guggna á því að taka til við hið raunverulega verkefni sem er að breyta því sem breyta þarf. Það er ekkert óskaplega mikið. Það virðist vera hægt að gera það og það á að vinda sér í það og hætta að skjóta mýflugur með fallbyssum eins og hér virðist vera gert.