Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 14:27:13 (6403)

[14:27]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú svo eins og fyrri daginn að það er lítið um ráðherra hér í salnum og það er kannski í samræmi við annað og kem ég að því nánar síðar. Hins vegar þætti mér gott ef hæstv. sjútvrh. væri aðvaraður um að þessi umræða væri byrjuð en ég ætla samt eigi að síður að hefja ræðuna.
    ( Forseti (VS) : Forseti ætlar að greina frá því að hæstv. sjútvrh. er í þinghúsinu og honum verða send boð um það að umræðan sé hafin.)
    Já, það er gott. Það má segja sem svo að hér sé sjávarútvegsmál komið á dagskrá frá hæstv. ríkisstjórn og eru það eiginlega nokkuð tíðindi því að sannleikurinn er sá að það er ekki á hverjum degi að málefni varðandi sjávarútveginn sem ríkisstjórnin virðist standa saman um kemur til umræðu á Alþingi. Þetta mál er reyndar ekki við fyrstu sýn mjög stórt í sniðum. Það fjallar um afnám laga Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og er aðeins tvær greinar sem fjalla um að leggja þennan sjóð niður og greiða til viðkomandi framleiðenda þær innstæður sem standa inni á reikningum á nafni einstakra framleiðenda í Verðjöfnunarsjóði og aðrar eigur skuli renna til Hafrannsóknastofnunar.
    Það er orðið nokkuð langt síðan og nokkuð um liðið síðan ég kom að málefnum þessa sjóðs síðast en það vildi svo til að ég átti sæti í nefndum sem um hann fjölluðu á sínum tíma þannig að ég fór að rifja upp þetta mál. Sannleikurinn er sá að þegar ég fór að lesa þessi gögn þá finnst mér það aldeilis með ólíkindum að það skuli eiga að keyra þetta mál í gegn hér á annasömum dögum í lok þingsins, þegar aðeins nokkrir vinnudagar eru eftir, eins og þetta lítur út og eins og þessi þingskjöl eru hér sem liggja frammi og um þetta fjalla og þau gögn sem liggja að baki. Ég veit eiginlega ekki hvað vakir fyrir hæstv. sjútvrh. að draga þetta mál ekki til baka og geyma það. Og eins og ég kem að síðar þá held ég að það væri mjög óskynsamlegt fyrir hann að láta þetta mál fara hér í gegnum þingið á lokadögunum ef svo skyldi vilja til að stjórnarliðið væri sammála um þetta mál sem er reyndar alls ekki víst því ferill þessarar hæstv. ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum er alveg með eindæmum.
    Það er nú svo að þessir dagar eru notaðir í það að reyna að berja stjórnarliðið saman um stefnu í sjávarútvegsmálum. Það hafa komið véfréttir um það héðan úr húsinu að nú sé jafnvel að ganga saman en svo eru þær fréttir bornar jafnóðum til baka aftur. Og ekki batnar málið með þeim fréttum sem nú koma, og virðast hafa komið nokkru róti á stjórnarliðið hér, að það sé búið að flýta flokksþingi Alþfl. vegna þess að það séu veður öll válynd í stjórnmálum, eins og formaður Alþfl. lætur hafa eftir sér, en hann er eins og alþjóð veit staddur úti í Marrakesh og hefur fengið þar einhverja vinda að heiman og segir að veður séu öll válynd og það sé best að skerpa stefnuna.
    Sannleikurinn er sá að m.a. út af sjávarútvegsmálum er þessi ríkisstjórn í öndunarvél og ef einhver stígur harkalega á slönguna þá er hætt við að það fari að styttast hjá henni. Það hafa sumir orðað það þannig að stjórnarsamstarfið sé eins og hjá hjónum sem séu skilin að borði og sæng og eigi aðeins eftir að ganga formlega frá skilnaðinum. En þetta er m.a. út af sjávarútvegsmálunum.
    Það er rétt að rifja upp aðeins þann feril af því að hann kemur einmitt inn á það mál sem hér er til umræðu. Ríkisstjórnin hóf sinn feril með því að skipa nefnd til þess að fara yfir sjávarútvegsstefnuna. Hún kom sér ekki saman um formann fyrir þessa nefnd og skipaði henni tvo formenn. Nefndin starfaði í tvö ár og kom þá loksins frá sér áliti. Frv. var byggt á þessu áliti og var lagt fram í haust og það er einmitt þetta frv. sem er verið að reyna að berja saman afgreiðslu á hér á göngum og í þingflokksherbergjum þingsins og hefur ekki tekist. Allar aðgerðir í sjávarútvegsmálum á þessu tímabili, á þessum þremur árum sem ríkisstjórnin hefur setið við völd hafa verið af skornum skammti svo ekki sé meira sagt. En ein aðgerðin var einmitt sú að greiða úti innstæður þessa Verðjöfnunarsjóðs sem við erum að leggja niður eða tillögur eru um að verði lagður niður.
    Það var nefnilega þannig, þrátt fyrir allt tal um sjóðasukk sem menn muna eftir og hæstv. forsrh. hafði forustu um og leiddi, að þá voru innstæður í þessum sjóði verulegar. Á árinu 1992 var það nánast eina efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar varðandi sjávarútveginn að greiða út þessar innstæður. En það má þá spyrja: Hvers vegna er þetta frv. lagt fram nú? Liggur svona á að leggja þennan sjóð niður? Er starfsemi hans sjávarútveginum til trafala? Hefur það eitthvert gildi fyrir starfsemi sjávarútvegsins í landinu? Styrkir það sjávarútveginn að leggja þennan sjóð niður? Nei, það gerir það ekki, það hefur engin áhrif á það hvort sjávarútveginum gengur betur eða verr. Það hefur ekki verið greitt inn í sjóðinn, hann hefur nánast ekki verið starfandi. Hins vegar er sjóðurinn eins og hann starfaði og þegar þannig árar hagstjórnartæki og ég kem nánar að því aðeins síðar í mínu máli.
    Eins og ég sagði átti ég fyrir nokkrum árum sæti í nefndum sem fjölluðu um þetta mál, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og tilveru hans. Reyndar hafði fyrri nefndin það hlutverk að endurskoða sjóðakerfi sjávarútvegsins og starfaði árið 1986 en á þeim tíma var mjög viðamikið og flókið sjóðakerfi í sjávarútvegi sem þáverandi stjórnvöld og þáverandi sjútvrh., Halldór Ásgrímsson, hafði forustu um að einfalda. Þetta flókna sjóðakerfi var lagt niður að meginhluta til en einn sjóður var skilinn eftir til umfjöllunar síðar og það var Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins. Í bréfi til sjútvrh. sem var dagsett þann 17. sept. 1986 segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í skilabréfinu frá 4. apríl kom þó fram að nefndin hyggst fjalla síðar um starfsemi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins [eins og hann hét þá]. Þetta hefur nefndin nú gert og fylgir þessu bréfi yfirlit yfir

starfsemi Verðjöfnunarsjóðsins árin 1970--1985 sem nefndin hefur látið taka saman.
    Nefndin kannaði í vor og sumar viðhorf helstu samtaka í sjávarútvegi til Verðjöfnunarsjóðsins. Þessi könnun leiddi í ljós að samtök fiskvinnslunnar eru á þeirri skoðun að leggja beri sjóðinn niður en samtök sjómanna og útvegsmanna telja aftur á móti að hann eigi að standa áfram. Að þessu athuguðu og á grundvelli þeirrar könnunar sem nefndin hefur sjálf gert á starfsemi sjóðsins telja nefndarmenn, aðrir en Árni Benediktsson og Knútur Óskarsson, ekki ástæðu til að breyta gildandi lögum um sjóðinn.``
    Þessi nefnd taldi sem sagt ástæðu til þess að athuguðu máli að sjóðurinn starfaði áfram og það gerði hann næstu árin.
    Það var svo árið 1990 að skipuð var nefnd til að endurskoða lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og hún skilaði þann 3. apríl greinargerð ásamt frv. til laga til sjútvrh. um málið sem var síðan samþykkt á Alþingi og sjóðurinn hefur starfað eftir þeim lögum síðan. Þar segir m.a. að að baki frv. liggi að verðjöfnun á útfluttum sjávarafurðum geti stuðlað að betra jafnvægi í sjávarútvegi og þjóðarbúskapnum í heild. Það byggist á greiðslum inn í Verðjöfnunarsjóð þegar verð á sjávarafurðum er hátt og greiðslum úr sjóðnum þegar verðið er lágt. Kúfurinn af uppsveiflunni er notaður til að draga úr niðursveiflunni. Í þessu felst viðleitni til að koma í veg fyrir þenslu og verðbólgu í góðæri og til að milda áhrif samdráttar á kaupmátt og atvinnu. Þessi áhrif koma m.a. fram í minni sveiflum á raungengi íslensku krónunnar.
    Og enn fremur segir, með leyfi forseta: ,,Þetta frv. felur í sér miklar breytingar frá núverandi Verðjöfnunarsjóði. Þrennt skiptir þó mestu máli. Í fyrsta lagi verða inngreiðslur á nafni framleiðanda. Engar tilfærslur verða á milli framleiðenda. Í öðru lagi eru greiðslur inn í sjóðinn og úr honum byggðar á hreinum verðjöfnunarsjónarmiðum. Í þriðja lagi er verðjöfnunarkerfið einfaldað verulega frá núverandi kerfi.``
    Þetta gekk eftir og frv. um sjóðinn var samþykkt í framhaldi af áliti nefndarinnar.
    Nú er sem sagt ætlunin með því frv. sem hér liggur fyrir að afnema þessi lög. Eins og ég kom að áðan mætti spyrja hvort afnám þessara laga væri það sem sjávarútvegurinn þarf helst á að halda núna. Sannleikurinn er sá að það er engin samstaða í ríkisstjórninni um aðgerðir til styrktar sjávarútveginum í landinu. Það er engin samstaða um það eftir hvaða ramma sjávarútvegurinn eigi að vinna í framtíðinni. Það hefur dregist von úr viti að endurskoða fiskveiðistefnuna, til stórtjóns auðvitað. Ekki vegna þess að það fyrirkomulag sem nú er sé svo vont heldur er algjör óvissa um það hvort það fær að vera áfram eða ekki. Það er náttúrlega til stórtjóns og eykur óvissu fyrir þá sem vinna í þessari undirstöðuatvinnugrein okkar.
    Þannig hefur afnám Verðjöfnunarsjóðsins engin bein áhrif á afkomu sjávarútvegsins fyrst í stað. Hins vegar er það mjög alvarlegt mál í þessu sambandi að með því að samþykkja þetta frv. og leggja niður Verðjöfnunarsjóð þá er hagstjórnartæki horfið, það hagstjórnartæki sem sjóðurinn hefur verið og það er ekkert hagstjórnartæki til í staðinn. Það hefur sem sagt ekkert verið ákveðið um framhaldið. Það er hið alvarlega í þessu máli og það er óskiljanlegt, eins og ég kom að í upphafi, hvað rekur hæstv. sjútvrh. til þess að vera að keyra þetta frv. fram hér í kastþröng á lokadögum þingsins.
    Rökstuðningur meiri hluta hv. sjútvn. sem kemur fram í nál. á þskj. 667 er alveg furðulega rýr í roðinu og satt að segja er það algjörlega óskiljanlegt að meiri hlutinn skuli láta undir höfuð leggjast að segja og rekja í nál. þær umsagnir sem hafa borist um málið. Hér er þessi venjulega klásúla í upphafi um það hverjir hafi komið til nefndarinnar og hverjir hafi sent umsagnir. Síðan kemur rökstuðningurinn, með leyfi forseta:
    ,,Meiri hlutinn telur að ekki sé þörf á sérstökum Verðjöfnunarsjóði, sérstaklega eftir að meginhlutinn af innstæðum hans voru greiddar út á síðasta ári.``
    Þetta er rökstuðningurinn fyrir málinu. Þetta er rökstuðningur meiri hluta sjútvn. Ein setning um þetta mál sem, eins og ég kem að á eftir ef aðeins er litið í þær umsagnir sem fylgja, er ekkert smámál. Hér er verið að leggja niður mikilvægt hagstjórnartæki í þjóðfélaginu eins og umsagnirnar gefa til kynna og meiri hlutinn leyfir sér að rökstyðja þetta með einni setningu í nál. á þskj. 667. En við skulum rekja okkur örlítið áfram í málinu og líta á það hvers vegna var greitt út úr sjóðnum. Það er grundvallaratriði sem verður að festa sér í minni varðandi þetta mál.
    Það var greitt út úr sjóðnum vegna slæmrar stöðu sjávarútvegsins almennt en ekki vegna verðfalls eingöngu eins og var þó ætlunin þegar þessi sjóður var settur á laggirnar. Í athugasemdum við frv. kemur þetta fram. Þar er vitnað í álit þeirrar nefndar sem undirbjó þetta mál á vegum þessarar ríkisstjórnar og segir svo hér, með leyfi forseta:
    ,,Loks rekur nefndin í áliti sínu ákvæði laga nr. 29/1992 varðandi útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóði en samkvæmt þeim lögum hafa 2.873 millj. kr. verið greiddar úr sjóðnum vegna slæmrar afkomu sjávarútvegsins án þess að verðfall afurða hafi gefið tilefni til.`` --- Takið eftir: Án þess að verðfall afurða hafi gefið tilefni til. Og enn fremur segir: ,,Er það niðurstaða nefndarinnar að með hliðsjón af aðstæðum í sjávarútvegi, andstöðu hagsmunaaðila við áframhaldandi starfsemi sjóðsins og stöðu sjóðsins eftir að fjármunir hans hafa verið uppurnir með útgreiðslu til þess að bæta stöðu sjávarútvegsfyrirtækja séu ekki raunhæf skilyrði fyrir því að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins starfi áfram. Leggur nefndin því til að lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins verði afnumin og sjóðurinn lagður niður.``
    Það sem vekur athygli hér er að útgreiðslan úr sjóðnum, og það staðfesti nefndin, er ekki vegna verðfalls heldur er hún vegna slæmrar stöðu sjávarútvegsins almennt. Það má í rauninni segja að þessi sjóður hafi verið notaður til nokkurs konar sértækra aðgerða í sjávarútvegi og þær hafi kannski byrjað heldur fyrr en hæstv. ríkisstjórn vill vera láta.
    Eins og fram hefur komið þá skipaði sjútvrh. í október 1991 nefnd til að endurskoða gildandi lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að það beri að leggja sjóðinn niður. Hins vegar er það svo einkennilegt að ef álit nefndarinnar er lesið þá kemur í ljós að þetta sé líklega bara nokkuð góður sjóður því það verður ekki séð á hverri síðu í þessu áliti að það sé ástæða til að leggja sjóðinn niður. Það segir t.d. á bls. 6 í fskj. I með frv. þar sem fjallað er um reynsluna af Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins, með leyfi forseta:
    ,,Þegar Alþingi samþykkti í maí sl. lög um útgreiðslu úr Verðjöfnunarsjóði hafði sjóðurinn aðeins starfað um tveggja ára skeið. Raunar hafði hann starfað enn skemur að fullu þar sem tekið var fyrir inngreiðslur í sjóðinn með sérstökum lögum í desember 1991. Langvinn reynsla hefur því ekki fengist af starfsemi sjóðsins og því naumast unnt að draga endanlegar ályktanir af því verðjöfnunarkerfi sem lögin kveða á um.``
    Hér kemur fram að í rauninni er engin reynsla komin á það hvernig þessi sjóður virkar til langframa og það er enginn tími til þess að láta reyna á það vegna þess hve mikið liggur á að leggja sjóðinn niður.
    Hér segir enn fremur á bls. 7 í fskj. I með frv.:
    ,,Reglurnar um ákvörðun verðjöfnunar þykja þannig hafa aukið mjög á festu í starfsemi sjóðsins og dregið úr misklíð og tortryggni um framkvæmd verðjöfnunarinnar. Þær virðast hins vegar ekki hafa valdið breytingum á viðhorfum hagsmunaaðila til opinberrar verðjöfnunar og starfsemi sjóðsins yfirleitt.``
    Það segir að þær hafi aukið mjög á festu og dregið úr misklíð og tortryggni.
    Þetta er úr áliti þeirrar nefndar sem kemst að þeirri niðurstöðu að leggja beri þennan sjóð niður og það liggur svo mikið á að það er ekki einu sinni hægt að leggja það niður fyrir sér hvað á að koma í staðinn fyrir þetta hagstjórnartæki.
    Hér segir enn fremur, og er hér vitnað í álitsgerð frá Árna Benediktssyni sem vann hana á vegum Íslenskra sjávarafurða hf. að álit hans hafi verið á þá leið að sjóðurinn hefði haft veruleg áhrif og sé hann eitt af örfáum hagstjórnartækjum sem komi að gagni til að viðhalda stöðugleika. Sjóðinn megi því ekki leggja niður fyrr en náðst hafi skilningur á því hvernig sjávarútvegurinn geti sjálfur jafnað sveiflur og að í þjóðfélagi, sem býr við óstöðugt afurðaverð, verði að gera ráð fyrir að kostnaður, ekki síst hráefnisverð, geti þurft að lækka í stað þess að gripið sé til gengisfellingar.``
    Það hefur engin athugun farið fram á því hvernig sjávarútvegurinn geti sjálfur jafnað sveiflur. Þannig er þetta mál allt saman með miklum ólíkindum. Það væri hyggilegast fyrir hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnina að draga það til baka og beita kröftunum að því að koma sér saman um önnur sjávarútvegsmál sem liggja hér óafgreidd í þinginu og veitir víst ekki af tímanum í það.
    Áður en ég vík frá þessu áliti sem liggur til grundvallar frv. þá vil ég vitna til lokaálits nefndarinnar á bls. 15 í frv. þar sem nefndin leggur til að hafin verði athugun á því með hvaða hætti megi bæta skilyrði fyrirtækja til að beita virkri sveiflujöfnun á vettvangi fyrirtækjanna sjálfra.
    Ég hef ekki orðið var við það að þessi athugun hafi farið fram og væri fróðlegt ef hæstv. sjútvrh. sem hlýðir hér á þessa umræðu upplýsti okkur um það áður en henni lýkur hvert framhaldið verður í þessum efnum.
    Það hefur komið í hlut minni hluta hv. sjútvn. að lýsa umsögnum aðila um þetta frv. þar sem meiri hlutinn stingur höfðinu í sandinn og lætur algjörlega undir höfuð leggjast að rekja efnisatriði málsins. Sannleikurinn er sá að mann rekur fyrst í rogastans þegar flett er í gegnum þau fylgiskjöl sem fylgja minnihlutaálitinu. Frv. hefur, eins og títt er um mikilvæg mál, verið sent til ýmissa stofnana sem maður skyldi ætla að hæstv. ríkisstjórn taki mark á. Það hefur verið sent til Seðlabankans. Það hefur verið sent til Þjóðhagsstofnunar, sem er ráðgjafarstofnun ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og heyrir undir forsrn. Það hefur verið sent til aðila vinnumarkaðarins, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Sannleikurinn er sá að umsagnir allra þessara aðila eru á einn veg. Þeir vara mjög við að þetta frv. verði samþykkt og það er gegnumgangandi í þeim viðvörunum að það hefur ekkert komið í staðinn fyrir það hagstjórnartæki sem hér er verið að leggja niður.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands segir, með leyfi forseta:
    ,,Hið yfirgnæfandi vægi sjávarútvegsins í útflutningsgrundvelli þjóðarbúsins veldur því að verðjöfnun eða aðra sveiflujöfnun á hans vegum ber fyrst og fremst að skoða sem hagstjórnartæki eða a.m.k. almennt hagstjórnarskilyrði. Almennt gildi verðjöfnunar mótar rekstrarskilyrðin í heild í samspili við gengisskráningu, hráfiskverð, laun og vexti, og felur þannig ekki í sér íhlutun í hag einstakra sjávarútvegsfyrirtækja sérstaklega.``
    Niðurstaða Seðlabankans sú að bankinn mælir með áframhaldi verðjöfnunar í sjávarúvegi. Framlagt frv. yrði þá dregið til baka en hæfilegur tími veittur til þess að fela sérfræðingum og hagsmunaaðilum að semja tillögur til umbóta á kerfinu sem tryggt gætu rekstur þess til frambúðar. Og þá segir að lokum í áliti Seðlabankans, með leyfi forseta: ,,Vera kann þó að besta umbótin verði sú að láta kerfið óbreytt en stjórnvöld stilli sig um frekari íhlutun í það.``
    Það er greinilegt að það er ekki hlustað mikið á þessar ráðleggingar í hæstv. ríkisstjórn en þó kastar fyrst tólfunum þegar litið er á umsögn Þjóðhagsstofnunar sem er þó sú stofnun sem á að ráðleggja ríkisstjórninni í efnahagsmálum og er stofnuð til þess. Ef litið er svona á ráðleggingar hennar þá held ég að það sé rétt að dusta rykið af tillögum hv. 4. þm. Reykv. sem hefur lagt til að þessi stofnun yrði lögð niður. Ef ekkert er hlustað á það sem þessi stofnun segir þá á náttúrlega að leggja hana niður eins og hv. 4. þm. Reykv. hefur lagt til. En í umsögn Þjóðhagsstofnunar um frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Þjóðhagsstofnun telur óskynsamlegt að afnema lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegs fyrr en gerðar hafa verið aðrar ráðstafanir sem þjónað gætu þeim tilgangi að jafna sveiflur í þjóðarbúskapnum. [ . . .  ]
    Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins er hagstjórnartæki sem stuðlar að því að draga úr sveiflum í þjóðarbúskapnum. Ekki er umdeilt að sjóðurinn gegndi þessu hlutverki í síðustu uppsveiflu afurðaverðs á árunum 1990 og 1991.``
    Það er einnig komið inn á þetta í áliti þeirrar nefndar sem undirbjó frv. Hún bendir á þetta en samt á að leggja sjóðinn niður.
    Enn fremur segir í umsögn Þjóðhagsstofnunar:
    ,,Ef Verðjöfnunarsjóður verður lagður niður án þess að nokkuð komi í staðinn, eins og umrætt frumvarp gerir ráð fyrir, verður að beita öðrum hagstjórnartækjum (gengi, vöxtum og sköttum) meira í því skyni að jafna sveiflur í þjóðarbúskapnum. Þetta hefur óþægilegar hliðarverkanir fyrir aðrar atvinnugreinar og fyrir vikið verður hagvöxtur líklega hægari en án sveiflujöfnunar í sjávarútvegi.``
    Þetta er umsögn þar sem hlutirnir eru sagðir umbúðalaust en það virðist ekki nægja því það er ekkert hlustað á þetta. Eða ætlar ríkisstjórnin að beita þessum hagstjórnartækjum í staðinn, gengi, vöxtum og sköttum, til þess að jafna sveiflur í þjóðfélaginu? Er það ætlunin með því að fella þessa löggjöf úr gildi? Hvað á að koma í staðinn fyrir þessa löggjöf? Eða er ætlunin að jafna ekkert sveiflur? Ég kem aðeins að því síðar hvaða afleiðingar það mundi hafa.
    Það er nokkuð sama hvar borið er niður í þessum umsögnum. Í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands, svo vitnað sé í hana en hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstjórn eru víst alveg hætt að taka mark á þeim sem þar tala, en þar segir m.a.:
    ,,Í ljósi þess sem að framan er rakið er æskilegt að fresta afnámi laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Í því felst ekki að verið sé að mæla með óbreyttri starfsemi sjóðsins því að mikilvægt er að sæmileg sátt náist um hagstjórnaraðferðir sem til þess séu fallnar að takmarka raungengishækkun í næstu uppsveiflu, þótt vandséð sé hvaða aðrar leiðir tryggi hagsmuni sjávarútvegsins betur.``
    Hér sem sagt allt á eina bókina lært. Einnig fylgir ítarleg greinargerð þeirra Hannesar G. Sigurðssonar og Þórarins V. Þórarinssonar hjá Vinnuveitendasambandinu sem er dagsett 23. apríl 1991, og ég get ekki stillt mig um að benda á lokamálsgrein hennar þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Í lok næsta árs falla niður síðustu leifar haftakerfis gjaldeyrisviðskipta en þá mun öllum frjálst að kaupa og selja gjaldeyri að vild. Frá þeim tíma verður gengi íslensku krónunnar hvorki haldið uppi né niðri með handafli þó formleg skráning þess verði trúlega í Seðlabanka. Verði rekin ótrúverðug efnahagsstefna munu fjármunir flytjast úr landi, gjaldeyrisvarasjóðir tæmast og enginn gjaldeyrir verða til greiðslu fyrir innflutning. Gengi krónunnar hlyti að falla og óðaverðbólga að hefja innreið sína. Um slíka efnahagsstefnu getur ekki orðið sátt og er því óhjákvæmilegt að stjórnvöld miði aðgerðir sínar á sviði efnahags- og peningamála við það meginmarkmið að varðveita stöðugleika, lága verðbólgu og á þann veg verðgildi gjaldmiðilsins.`` --- Síðan segir: ,,Afnám Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins, án þess að aðrar jafngildar ráðstafanir komi á móti, væri atlaga að þessum markmiðum.`` --- Takið eftir ,,atlaga að þessum markmiðum``.
    Hér er nú ekki töluð nein tæpitunga. Að gjaldeyrisvarasjóðurinn tæmist, enginn gjaldeyrir til fyrir greiðslu fyrir innflutning, gengið félli, óðaverðbólga héldi innreið sína. Enda er framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins þekktur fyrir að kveða að og ég er ekki að segja að það sé allt gullsatt sem hann mælir en það er þó a.m.k. skylda hæstv. sjútvrh. að svara með viðhlítandi hætti slíkum ábendingum sem hér koma fram úr því að meiri hluti hæstv. sjútvn. hefur enga tilraun gert til þess að segja einu sinni frá í nál. þessum neikvæðu umsögnum sem hefur snjóað inn um þetta mál.
    Hins vegar er svo ein hlið á þessu máli sem er stórpólitísk og hún snertir það hvað við tekur ef þetta mál verður samþykkt eins og ekkert hafi í skorist hér í þinglokin og verðjöfnun verði afnumin og Verðjöfnunarsjóður lagður niður. Það opnar auðvitað fyrir umræðu sem verið hefur í gangi um álagningu auðlindaskatts sem Alþfl. hefur borið mjög fyrir brjósti. ( Gripið fram í: Hvar eru þeir?) Þeir eru að venju ekki staddir hér, væntanlega að undirbúa flokksþing sem verður strax eftir sveitarstjórnarskosningar til að ydda og skerpa málflutning flokksins vegna þess að veður eru öll válynd núna þegar fer að vora. Og vafalaust ætla þeir að ydda og skerpa málflutning flokksins varðandi álagningu auðlindaskatts á sjávarútveginn því að einmitt þetta mál opnar fyrir þessa álagningu auðlindaskatts. Og það kemur fram með ljósum hætti. Ég veit að hæstv. sjútvrh. hefur verið andsnúinn auðlindaskatti og þess vegna er það alveg óskiljanlegt af hverju hann hleypur svona á sig að hleypa þessu máli fram hér. En auðvitað hafa fjölmargir aðilar talað fyrir auðlindaskatti, m.a. hafa Samtök iðnaðarins talað mjög í þá veru. Þeir skila einmitt umsögn um þetta frv. og þar stendur í lokamálsgrein:
    ,,Umræða um arftaka Verðjöfnunarsjóðs hefur enn ekki farið fram.`` Svo segja þeir og takið nú eftir: ,,Búast má við að aukinn kraftur færist í umræðuna um að tengja upptöku gjalds fyrir veiðiheimildir við sveiflujöfnun í hagkerfinu.``
    Hér álykta þeir auðvitað rétt. Þetta þýðir auðvitað að aukinn kraftur kemst í umræðuna um auðlindaskatt. Og svo segir: ,,Ekki má líta svo á að umræða um leiðir til að draga úr sveiflum í starfsskilyrðum íslensks atvinnulífs sé einkamál samtaka í sjávarútvegi.``
    En þeir sem eru á annað borð andsnúnir auðlindaskatti, þeir sem eru andsnúnir sérstakri skattlagningu á sjávarútveginn skyldu athuga mjög grannt að ef þetta mál fer í gegn hér á næstu dögum, þá er búið að opna leið fyrir auðlindaskattinn. Þá er búið að opna leið fyrir Alþfl. sem er að ydda og skerpa málflutning sinn þessa dagana og ætlar að halda flokksþing í júní til þess að mæta vondum veðrum en það gæti verið að það flokksþing yrði haldið til þess að brjóta upp á þá loftslöngu sem heldur lífinu í ríkisstjórninni. Það er nefnilega engin ástæða til þess að ætla annað heldur en það geti komið uppsveifla í sjávarútvegi og ég veit ekki hvort hæstv. sjútvrh. reiknar með því að það verði alls engin glæta fram undan í þessari grein. Ef það kemur uppsveifla, þá getur hún haft neikvæð áhrif á afkomu annarra atvinnugreina vegna áhrifa á gengið, ef ekkert tæki er til til þess að jafna þessar sveiflur.
    Það eru færð mjög veigamikil rök fyrir því í þeim umsögnum sem fylgja þessu máli að það gæti verið skynsamlegt jafnvel að reka þennan sjóð áfram eins og átti að reka hann til þess að jafna verðsveiflur í sjávarútvegi. Það höfðu verið gerðar á honum veigamiklar lagfæringar. Auðvitað kann að vera að lögin um þennan sjóð hefðu enn þurft einhverrar lagfæringar við en það er fullkomið ábyrgðarleysi að fella niður það hagstjórnartæki sem sjóðurinn er og getur verið án þess að nokkuð komi í staðinn þó að aðstæður séu þannig nú um stundir að þetta hafi ekki bein áhrif fyrst í stað.
    Ég tók þátt í þessari umræðu vegna þess að mér þótti mér bera skylda til að ítreka þessi sjónarmið og rekja nokkur atriði í þeim málsgögnum sem fyrir liggja. Það hefur verið farið ítarlega yfir málið af þeim ræðumönnum sem hafa talað hér á undan mér og kann að vera að eitthvað af þeim rökum hafi komið fram áður, en þau þurfa að koma nógu oft fram til þess að ná eyrum hæstv. sjútvrh. og hæstv. ráðherra. Ég geri mér náttúrlega ekki vonir um að það komi nokkrir aðrir ráðherrar til að hlýða á þessa umræðu vegna þess að þeir hafa nóg að gera við annað. Þeir hafa nóg að gera við það að reyna að ná samkomulagi um framtíð sjávarútvegsins í landinu, þann ramma sem hann á að starfa eftir og starfsskilyrði hans, en það verkefni hefur staðið frá 1. maí 1991 þegar þessi ríkisstjórn tók við og það hefur ekkert miðað. Ég segi það þangað til frv. um fiskveiðistefnuna kemur hér inn í þingið til 2. umr. með þeim breytingum sem hafa verið að sjá dagsins ljós undanfarna daga en ekkert liggur fyrir um hvort þingflokkar stjórnarliðsins hafa samþykkt.
    Það getur verið að þetta frv. sé hér til umræðu til þess að hæstv. ráðherra geti sagt að það hafi þó verið samþykkt eitt frv. sem varðar sjávarútveginn á þessu þingi, en það er bara allt of hættulegur leikur að hleypa því fram og ég vil ráðleggja hæstv. sjútvrh. að beita áhrifum sínum til þess að þetta mál verði dregið til baka og það verði athugað rækilega hvaða sveiflujöfnun á að vera í þjóðfélaginu ef aðstæður verða þannig sem vonandi verða að það kemur uppsveifla í sjávarútveginn á ný.