Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 15:18:25 (6404)


[15:18]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég á sæti í sjútvn. þingsins og hef tekið þátt í umfjöllun um þetta mál í hv. nefnd. Það hefur verið gerð skilmerkilega grein fyrir afstöðu Alþb. í þessu máli. Það gerði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. En ég tel samt vegna eðlis þessa máls að ég komist ekki hjá því að gera nokkuð ítarlega grein fyrir minni afstöðu til þess.
    Ég tel að þetta mál eigi rætur sínar í því allsherjarrugli í sjávarútvegsmálum sem hæstv. ríkisstjórn hefur plagað frá því að hún tók við.
    Ákvörðunin um það að leggja Verðjöfnunarsjóð niður var tekin vegna þess að ríkisstjórnin missti tökin á því samkomulagi sem hún hafði gert á sínum tíma um að innheimta auðlindaskatt af útgerðinni með sölu á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs. Þegar það samkomulag, sem var eitt af þessum hrossakaupasamkomulögum þessarar ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum, sprakk á sínum tíma, þá þurfti að fara að leita að peningum í staðinn fyrir þá peninga sem átti að hafa upp úr sölu á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðsins. Það var kannski ekki um auðugan garð að gresja en þó fundu menn í þessum sjóði peninga sem ekki hafði verið ráðstafað og gáfu möguleika á því að koma peningum til Hafrannsóknastofnunar í staðinn fyrir þá peninga eða í ríkissjóð í staðinn fyrir þá peninga sem ríkissjóður hafði lagt Hafrannsóknastofnun til vegna þess að veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs var ekki hægt að selja. Þá geta menn í upphafinu sjálfu séð að þegar undirrótin er slík vandamál og vandræði, þá er kannski ekki von að ákvörðunin sé byggð á mikilli skynsemi og þá er kannski ekki heldur von að það hafi verið tekin skynsamleg afstaða með skoðun á þeim álitsgerðum sem hv. nefnd voru sendar. Ég verð að segja það fyrir mig að mér finnst þessi afstaða ríkisstjórnarflokkanna vera óábyrg. Mér finnst þetta vera flumbrukennd vinnubrögð og ekki upp á þau bjóðandi.
    Ég ætla að fara nokkrum orðum um þær umsagnir sem komu til meðferðar í nefndinni og sem eru flestar á einn veg um það að þjóðhagslega sé mjög nauðsynlegt að viðhafa þá sveiflujöfnun sem Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins var ætlaður til. Og það er eiginlega má segja með miklum eindæmum að það skuli hafa orðið niðurstaða meiri hluta sjútvn. að leggja til að þetta frv. yrði samþykkt með einni smábreytingu vegna þess að meira að segja hv. formaður sjútvn. hefur haft þau orð um þessa hluti sem ekki

er hægt að misskilja, hann er í raun og veru andvígur því að leggja niður þessa sveiflujöfnun. Og það má segja að hann hafi nánast orðað það þannig að vegna þess að þeir sem eiga að búa við þessa sveiflujöfnun og hafa af henni kannski mesta gagnið, þ.e. sjávarútvegurinn sjálfur eða þeir sem þar stjórna málum, séu svo vitlausir að þeir vilji ekki hafa þetta fyrirkomulag, þá sé mátulegt á þá að verða við þessum tilmælum og leggja sjóðinn niður.
    Hv. meiri hluti sjútvn. flytur eina brtt. og hún gengur út á það að ráðstafa 10 millj. kr. af þeim fjármunum sem liggja inni í þessum sjóði. Brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við 2. gr. Síðari málsliður greinarinnar orðist svo: Aðrar eignir sjóðsins skulu renna til reksturs Hafrannsóknastofnunar utan 10 millj. kr. sem skulu renna til Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda.``
    Í nál. meiri hlutans er þessi tillaga rökstudd með því að Félag rækju- og hörpudiskframleiðenda eigi peninga þarna inni og það eigi að gera þeim kleift að hrinda af stað markaðsátaki með það fyrir augum að styrkja markaðshlutdeild íslenskrar kaldsjávarrækju erlendis. Þetta er út af fyrir sig gott málefni og ekkert nema gott um það að segja og ég ætla ekki að leggjast á móti þessari tillögu ef þetta mál fær framgang í þinginu. En ég er alfarið á móti því að leggja Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins niður. Mér finnst það vera dálítið kaldhæðnislegt að sú eina tillaga sem meiri hluti sjútvn. leggur fram, þ.e. þessi tillaga um að láta 10 millj. til rækju- og hörpudiskframleiðenda, er hugsuð til að koma til móts við þann hluta fiskiðnaðarins í landinu sem býr við hvað mestar sveiflur í verði og það eru kannski sterkustu rökin fyrir sjávarútveginn sjálfan hægt að sækja í einmitt þennan hluta atvinnugreinarinnar. Það eru auðvitað fleiri sem búa við miklar verðsveiflur í sjávarútveginum heldur en rækju- og hörpudiskframleiðendur en það má segja að einna mestu sveiflurnar séu þar. Í upplýsingum sem komu til nefndarinnar frá Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda er t.d. sýnt hvernig verðþróun var á þeirra vörun á árinu 1993 og það er satt að segja mikið umhugsunarefni að þeir eigi að horfast í augu við framtíð þar sem ekki sé á ferðinni neins konar sveiflujöfnun til handa þessum hluta sjávarútvegsins.
    Ég ætla að nefna tölur úr þessum upplýsingum sem eru einungis fyrir árin 1989--1993 og þær sveiflur sem hafa orðið á því tímabili. Þá er vísitala þessara upplýsinga miðuð við janúar 1989 og þetta er til nóvember 1993. Í janúar 1989 er þessi vísitala SDR frá 1986 í 90. Hún fer hæst í um 102 í mars árið 1989. Hún fer lægst í nóvember árið 1993 og þá er hún líklega 57--58. Það er sem sagt um það að ræða að það sé nánast helmings verðlækkun á þessu tímabili á þessum vörum og það sér auðvitað hver maður að það er mikil nauðsyn á sveiflujöfnun í jafnsveiflukenndum atvinnurekstri og þessum. Og þó að sveiflurnar í verði annarra sjávarafurða séu kannski ekki alveg svona miklar þá eru þær verulega miklar.
    En það er ekki bara verið að hugsa um hagsmuni sjávarútvegsins þegar menn reka slíkan sjóð eins og hér er verið að tala um að leggja niður. Það eru fyrst og fremst hagsmunir landsins í heild og efnahagskerfisins sjálfs. Ég held að það sé hollast fyrir menn að minnast þess sem síðast gerðist þegar við lentum í hremmingum vegna sveiflu í sjávarútvegi. Það var á árinu 1987 þegar hæstv. forsrh. var sá sem nú er hæstv. sjútvrh., Þorsteinn Pálsson. Þá varð mikil uppsveifla í sjávarútvegi og verð á sjávarafurðum hækkaði bæði austan hafs og vestan. Sérstaklega varð mikil verðhækkun á sjávarafurðum í Evrópu og íslenskur fiskur seldist sem aldrei fyrr. Ríkisstjórnin sem þá sat við völd hafði tekið upp það sem var kallað fastgengisstefna. En einhvern veginn hafði mönnum láðst að festa gengið nema í annan endann. Því þó að gengi íslensku krónunnar væri fast miðað við verðlag á erlendum gjaldeyri óð verðbólgan áfram innan lands og gengið breyttist þess vegna mjög hratt. Það sem var ömurlegast við þetta var að sjávarútvegurinn, sem aldrei hafði í langan tíma búið við annað eins verð á erlendum mörkuðum, var rekinn með bullandi tapi og tapaði aldrei meiru en þegar verðið var hæst erlendis.
    Þetta segir sína sögu um að það er ekki hægt að hafa efnahagsstjórn með þeim hætti sem þarna var framkvæmt. Það sem þó má segja er að það hefði ekki bjargað öllu þó að þá hefði verið til sjóður sambærilegur við þennan sem nú er til. Auðvitað hefði ríkisvaldið líka þurft að standa sig betur en gerðist á þessum tíma. En þá var hreinlega ágreiningur í ríkisstjórn um hvernig ætti að bregðast við málum og niðurstaðan varð sú að það var ekkert brugðist við og verðbólgan óð áfram, sjávarútvegurinn var rekinn með bullandi tapi langtímum saman og vandi sjávarútvegsins sem nú er á ekki síst rætur að rekja til þessa tímabils. Síðan þetta tímabil gekk yfir hefur sjávarútvegurinn ekki fengið að njóta neins sem hægt er að kalla góðæri.
    Það má kannski segja að í gegnum tíðina hafi verið óskaplega miklar sveiflur í sjávarútveginum. Ef við förum t.d. yfir það hvernig saltfiskverkunin hefur farið út úr þessum sveiflum þá var það oft sagt að það væri þriðja, fjórða hvert ár sem saltfiskverkunin gerði það gott á Íslandi. En það eru liðin þó nokkuð mörg ár núna sem saltfiskverkun hefur ekki spjarað sig og menn eru orðnir langeygir eftir því að fá góð ár í þeim atvinnuvegi. Enda hefur saltfiskverkun hrakað, hún hefur fallið saman og því miður eru nú fréttir um það að gæði framleiðslunnar hafi líka fallið og að við séum að byrja að tapa mörkuðum erlendis af þeim ástæðum. Það er vissulega mjög alvarlegt mál ef það bætist ofan á aðrar hremmingar í þessum atvinnuvegi.
    Eins og ég sagði áðan komu umsagnir frá ýmsum aðilum um þetta frv. til hv. nefndar og ég ætla að nefna fyrst umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna en í henni kemur fram að stjórn LÍÚ sé samþykk því að þessi sjóður verði lagður niður og mælir með því. Hún leggur það til að eftirstöðvar sjóðsins gangi til rekstrar Hafrannsóknastofnunar og mælir með því að þær gangi til þess að stofna sjóð til að standa undir kostnaði við smíði nýs hafrannsóknaskips. Það er út af fyrir sig góð tillaga og ef mönnum lánast þetta ætlunarverk sitt að leggja sjóðinn niður þá finnst mér ástæða til að skoða þá hugmynd betur. En það eru reyndar fleiri hugmyndir á ferðinni í þessum plöggum um það hvað eigi að gera við þessa peninga annað en það sem ríkisstjórninni hefur dottið í hug, þ.e. að peningarnir renni í ríkissjóð. En það er fullur rökstuðningur fyrir því að nota þessa peninga, ef þeir verða til ráðstöfunar, í það að undirbúa byggingu nýs hafrannsóknaskips því ef ég man rétt þá er elsta skip Hafrannsóknastofnunar 34 ára gamalt og það yngsta líklega 23 eða 24 ára þannig að það er komin full ástæða til þess að skoða þau mál upp á nýtt.
    En ég verð að segja það eins og er að mér finnst það undarlegt af stjórn LÍÚ að leggja það til að þessi sjóður verði lagður niður. Þeim er manna best kunnugt um það á þeim bæ að það eru margs konar hugmyndir á ferðinni um auðlindaskatt og annað því um líkt sem er umræða sem mun kvikna og magnast um allan helming þegar þessi möguleiki til sveiflujöfnunar hefur verið lagður niður, eins og hér er lagt til.
    Vinnuveitendasamband Íslands kemur með athyglisvert innlegg inn í þetta mál og ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í þeirra greinargerð. Þar stendur á einum stað:
    ,,Reynslan af sjóðnum á þeim stutta tíma sem hann starfaði sýndi m.a. að sjávarútvegurinn þoldi ekki að búa við þær aðstæður að einungis væri miðað við afurðaverð en ekkert mið tekið af aflamagni. Þessi aðkoma tók meira mið af þjóðhagslegum markmiðum, sér í lagi gengisstöðugleika, en afkomu sjávarútvegs. Aflasamdráttur og versnandi afkoma af völdum hans leiddi til þess að fyrst voru sett lög um stöðvun innborgana í sjóðinn og síðan útgreiðslur úr honum sem annars hefðu ekki átt sér stað. Þegar lögin um sjóðinn voru sett á sínum tíma gerðu menn sér ekki í hugarlund þann mikla aflasamdrátt sem fram undan var og því voru starfsreglur sjóðsins ekki sniðnar að slíkum aðstæðum. Viðmiðunarreglurnar tóku þannig einungis mið af verði en ekki verðmæti eins og e.t.v. hefði verið eðlilegt.``
    Það sem hér kemur fram er að það hafi verið ákveðinn galli á þessum sjóði og ég tel að það sé alveg hárrétt. Ég tel hins vegar að það sé fráleitt að það eigi að vera niðurstaðan af þessum vangaveltum eða skoðun á þessum galla sem kom fram við notkun þessa sjóðs að það eigi að leggja hann niður. Ég held að það sé auðveldlega hægt að setja inn í reglur sjóðsins ákvæði sem virka þannig að aflasamdráttur sem veldur versnandi afkomu verði líka tekinn inn í þær reglur sem sjóðurinn starfar eftir. Þetta má gera með ýmsum hætti og ég ætla ekki að eyða tíma hv. þm. í það að lýsa því. Það þýðir heldur ekkert um það að ræða nema það sé vilji hjá meiri hluta hv. alþm. fyrir því að halda þessari verðjöfnun áfram og að endurbæta það tæki sem þessi sjóður er til þess.
    Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram athyglisverð afstaða sem ég tel ástæðu til að vekja athygli á. Þar stendur á einum stað, með leyfi forseta:
    ,,Afstaða Alþýðusambandsins til þessa frv. er þessi: Alþýðusambandið telur brýnt að tryggja að þau markmið sem lágu til grundvallar starfsemi Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins, þ.e. nauðsyn þess fyrir uppbyggingu annarra atvinnugreina að sveiflur í afkomu sjávarútvegs verði jafnaðar með einhverjum hætti, nái fram að ganga. Verði það ekki gert standa stjórnvöld frammi fyrir því að jafna afkomusveiflur í sjávarútvegi með breytingum á gengi krónunnar eða vöxtum með þeim skaða sem það hefði fyrir aðrar greinar sem ekki nytu t.d. sambærilegrar uppsveiflu og í sjávarútvegi. Íslenskt efnahagslíf hefur farið í gegnum mjög erfiða aðlögun að sífelldum samdrætti í þorskveiðiheimildum á undanförnum árum og ljóst er að leggja verður höfuðáherslu á að efla aðra útflutningsstarfsemi ef okkur á að takast að treysta og auka það velferðarstig sem við höfum búið við. Ef það á að takast þá verðum við einfaldlega að jafna afkomusveiflur í sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti, þó þannig að sú sveiflujöfnun hafi ekki skaðleg áhrif á aðrar greinar. Á þessu er ekkert tekið í frv. og hvorki liggur fyrir nein stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnar né Alþingis hvernig bregðast eigi við. Það er t.d. óljóst hvort hér er verið að undirbúa ákvörðun um að taka upp auðlindaskatt en ákvörðun um að fella lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins úr gildi mun óhjákvæmilega færa meiri þunga yfir á þá umræðu. Ef snögg umskipti verða á afkomu sjávarútvegs gæti sú umræða þurft að fara fram í verulegri tímaþröng þar sem við stæðum frammi fyrir annaðhvort gengishækkun eða upptöku auðlindaskatts. Það er að sjálfsögðu óviðunandi og því telur Alþýðusambandið eðlilegra að Alþingi fresti ákvörðun um framtíð Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins um sinn eða þangað til ljóst er hvers konar sveiflujöfnunarkerfi eigi að taka við og þegar í stað verði teknar upp viðræður um mótun slíks kerfis.``
    Ég held að það sem segir í þessari greinargerð eða umsögn Alþýðusambands Íslands sé nákvæmlega það sem segja þarf um þetta atriði. Það er óábyrgt af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar og stuðningsmönnum hennar að ætla að leggja niður Verðjöfnunarsjóð án þess að það liggi fyrir hvað eigi að koma í staðinn. Ég tel það einsýnt að Alþingi eigi að fresta þessu máli.
    Þjóðhagsstofnun kemst að álíka niðurstöðu. Ég ætla að grípa niður, með leyfi forseta, á einum stað í umsögn Þjóðhagsstofnunar. Þar segir:
    ,,Ef Verðjöfnunarsjóður verður lagður niður án þess að nokkuð komi í staðinn, eins og umrætt frumvarp gerir ráð fyrir, verður að beita öðrum hagstjórnartækjum (gengi, vöxtum og sköttum) meira í því skyni að jafna sveiflur í þjóðarbúskapnum. Þetta hefur óþægilegar hliðarverkanir fyrir aðrar atvinnugreinar og fyrir vikið verður hagvöxtur líklega hægari en án sveiflujöfnunar í sjávarútvegi. Jafnframt verður ekki séð að sjávarútvegur bíði tjón af sérstakri sveiflujöfnun innan greinarinnar. Þvert á móti má færa rök fyrir því að slík tilhögun geti styrkt greinina þegar til lengri tíma er horft.``
    Hérna er sagt skýrt og greinilega að það muni hreinlega draga úr hagvexti ef ekki sé um að ræða þá sveiflujöfnun sem hér hefur verið möguleiki á að hafa.
    Höfum við efni á því að stjórna okkar málum þannig á Íslandi í dag að við drögum úr hagvexti með sjálfri efnahagsstjórninni? Eigum við að leggja þau tæki til hliðar sem hefur verið hægt að nota til þess að láta atvinnulífið í landinu snúast betur og til að styrkja það? Ég tel það ekki vera. Ég tel að við þurfum á öllu öðru að halda en að sleppa þeim möguleikum fram hjá okkur sem við höfum til þess að hafa góð áhrif á atvinnulífið.
    Það er líka athyglisverð umsögn frá Íslenskum sjávarafurðum sem kom til nefndarinnar. Ég vil, með leyfi forseta, grípa niður í þá umsögn:
    ,,Í Félagi Sambandsfiskframleiðenda og síðar í hagsmunanefnd Íslenskra sjávarafurða þótti lengstum rétt að styðja Verðjöfnunarsjóð af ástæðum sem fyrr eru taldar í þessari greinargerð. Þegar allir aðrir innan sjávarútvegsins höfðu hins vegar fallið frá stuðningi sínum snemma árs 1993 og krafist útborgunar úr sjóðnum varð niðurstaða hagsmunanefndarinnar að ekki þýddi lengur að halda uppi vörnum og mælti hún með að greitt yrði úr sjóðnum. Hagsmunanefndin taldi að með því að tæma sjóðinn væri í raun búið að taka ákvörðun um að leggja sjóðinn endanlega niður og að ekki yrði aftur snúið. Það er enn þá skoðun hagsmunanefndarinnar og getur hún þess vegna mælt með því að sjóðurinn verði formlega lagður niður.``
    Svo kemur: ,,Hinu er svo ekki að leyna að nú er þeirri skoðun að vaxa fylgi innan sjávarútvegsins að rétt sé að endurvekja verðjöfnun í einhverju formi. Ákveðið hefur verið að taka það til umræðu á fundi í stjórn Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins síðar í þessum mánuði.`` --- Þetta bréf er skrifað þann 6. jan. 1994. --- ,,Hér verður samt sem áður ekki gert ráð fyrir því að út úr því komi nokkuð að viti en samt getur verið rétt að bíða þessa fundar og sjá hvort þar koma einhverjar bitastæðar hugmyndir fram. Þrátt fyrir þetta verður hér gert ráð fyrir að sjóðurinn verði lagður niður og kemur þá til ráðstöfunar þess fjármagns sem eftir stendur. En frv. gerir ráð fyrir því að það renni til reksturs Hafrannsóknastofnunar. Það er að sjálfsögðu hið þarfasta verk. En engu að síður er sú skoðun ríkjandi innan sjávarútvegsins að rétt sé að nota þetta tækifæri til þess að leggja til hliðar allnokkurt fé til rannsókna og þróunar og í sjávarútvegi. Undir það er tekið hér. Þrír aðilar hafa í raun lagt í Verðjöfnunarsjóð, þ.e. fiskvinnslan, útgerð og sjómenn.
    Þegar lögunum var breytt árið 1992 í því skyni að hægt væri að tæma sjóðinn var nokkurt tillit tekið til þátttöku sjómanna á þann hátt að ákveðin fjárhæð var lögð í lífeyrissjóði sjómanna en þeir sjóðir eru mjög vanburða og veitir ekki af að styrkja þá. Það fjármagn sem lagt var í sjóðinn var þó væntanlega minna en hlutdeild sjómanna í inngreiðslum í sjóðinn. Hér verður lagt til að bætt verði úr því og hluti þess fjár sem eftir stendur í sjóðnum verði greiddur í lífeyrissjóði sjómanna.``
    Þarna er sem sagt komin önnur tillaga um það með hvaða hætti eigi að ráðstafa þessum peningum og þá eru komnar fjórar hugmyndir um það með hvaða hætti eigi að nota þá peninga sem eru í þessum sjóði.
    Ég held að þetta sé hugmynd sem þurfi að ræða betur og það þarf reyndar að ræða miklu betur ef niðurstaðan verður sú að leggja þennan sjóð niður, hvað eigi að gera við þessa peninga. Það er ekki einsýnt að láta þá renna í ríkissjóð.
    Í umsögn Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda hf. koma fram eftirfarandi atriði sem ég vil, með leyfi forseta minna á:
    ,,Stjórn SÍF hf. er því einnig meðmælt fram komnu frv. um afnám laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, þ.e. 1. gr. frv., en stjórn SÍF getur ekki fallist á það ákvæði 2. gr. frv. þar sem kveðið er á um að aðrar eignir sjóðsins skuli renna til reksturs Hafrannsóknastofnunar. Ástæðan er þessi:`` --- Og síðan rökstyður Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda hf. þessa skoðun sína með eftirfarandi orðum:
    ,,Þessir peningar voru á sínum tíma teknir af skilaverði útfluttrar skreiðar og lagðir í þennan sjóð og sérstaklega eyrnamerktir skreiðinni. Því telur SÍF hf. grundvallaratriði að þessu sérstaka eyrnamerkta framlagi verði ráðstafað til skreiðarframleiðenda í formi verðbóta á sama hátt og gert hefur verið undanfarnar vikur. Þó sjóðurinn verði lagður niður hlýtur að vera hægt að fela t.d. Seðlabanka Íslands að ljúka greiðslu verðbóta þar til peningar í skreiðardeildinni verða uppurnir.
    Í annan stað getur SÍF ekki mælt með því að 205 millj. kr. af sameiginlegum reikningi, sem m.a. hefur orðið til vegna gjaldþrota fiskvinnslufyrirtækja og að hluta til af sérstökum reikningi saltfiskafurða og humars, renni til reksturs Hafrannsóknastofnunar. Eðlilegra er að þessir peningar renni til stuðningsverkefna innan fiskiðnaðarins þar sem þeir mynduðust að stórum hluta á sínum tíma, en ekki að þeir renni í ríkissjóð. Má í því sambandi m.a. nefna verkefni á sviði vöruþróunar í fiskiðnaði og markaðsöflunar. Einnig getur stjórn SÍF hf. stutt þær hugmyndir sem uppi eru að þessir peningar, 205 millj. kr., geti runnið til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins sem framlag greinarinnar til hans.``
    Þarna eru á ferðinni viðbótarhugmyndir við þær sem ég hef áður nefnt í mínu máli um það hvað eigi að gera við þessa fjármuni. En engin af þessum hugmyndum hlaut náð fyrir augum meiri hluta hv. sjútvn. heldur, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, einungis ein tillaga frá hv. meiri hluta nefndarinnar um það að veita 10 millj. af þessum peningum til Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda.

    Ég ætla að víkja að erindi frá Samtökum iðnaðarins sem kom hingað til nefndarinnar. Ég tel að það sé ástæða til þess að gefa gaum að sjónarmiðum þeirra sem þar ráða húsum. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þá greinargerð því að hún er stutt og á fullt erindi inn í þessa umræðu að nokkru leyti. Hér stendur:
    ,,Með vísan til sambúðarvanda iðnaðar og sjávarútvegs í gegnum tíðina, sem lýsir sér helst í því að þróun raungengis hefur verið látin haldast í hendur við afkomu í sjávarútvegi og valdið þannig miklum sviptingum í starfsskilyrðum iðnaðar, er ljóst að sveiflujöfnun er afar þýðingarmikil fyrir atvinnurekstur á Íslandi.
    Samtök iðnaðarins líta svo á að stöðugleiki hljóti að verða höfuðmarkmið hagstjórnar á næstunni. Það er ekki hægt að búast við að fjölbreytt atvinnulíf vaxi og dafni á Íslandi ef samkeppnisstaða og starfsskilyrði eru stöðugum breytingum undirorpin, allt eftir því hvernig árar í sjávarútvegi.
    Iðnaðurinn þolir ekki þá raungengishækkun sem hlýtur að fylgja ef ekkert verður að gert þegar fer að rofa til í sjávarútvegi. Það eru ekki boðleg starfsskilyrði að lúta slíkum utanaðkomandi og óþörfum sviptingum í samkeppnisstöðu og fá ekkert við því gert. Það er á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að hér ríki viðunandi starfsskilyrði og góð samkeppnisstaða fyrir allan atvinnurekstur.
    Raungengishækkun yrði ekki aðeins slæm fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinar heldur einnig viðskiptajöfnuð og skuldastöðu. Í gegnum tíðina hefur hátt gengi krónunnar stuðlað að þrálátum viðskiptahalla og meðfylgjandi skuldasöfnun í útlöndum. Það ætti að vera útgangspunktur þegar stjórnvöld móta stefnu sína í efnahagsmálum að stuðla að afgangi í viðskiptum við önnur lönd svo að unnt sé að hefjast handa við að grynnka á erlendum skuldum.
    Tæki til sveiflujöfnunar gegnir lykilhlutverki í að skapa viðvarandi stöðugleika í þjóðarbúskap Íslendinga. Samtök iðnaðarins leggja á það þunga áherslu að það þurfi að liggja fyrir hvað taki við af Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins áður en hann verður lagður niður eins og lagt er til. Frumvarpið er því ótímabært.
    Umræða um arftaka Verðjöfnunarsjóðs hefur enn ekki farið fram. Búast má við að aukinn kraftur færist í umræðuna um að tengja upptöku gjalds fyrir veiðiheimildir við sveiflujöfnun í hagkerfinu. Ekki má líta svo á að umræða um leiðir til að draga úr sveiflum í starfsskilyrðum íslensks atvinnulífs sé einkamál samtaka í sjávarútvegi.``
    Þetta var umsögn Samtaka iðnaðarins og við höfum heyrt frá forráðamönnum þeirra áður um það að þeir eru auðvitað og af eðlilegum ástæðum að krefjast starfsskilyrða þar sem þeir geta þokkalega búist við því að þar sé nokkurn veginn jafnvægi á hlutunum. Og það er ekki hægt að neita því vegna þess að það liggur nokkuð í augum uppi að þær sveiflur sem hafa verið í okkar hagkerfi vegna mismunandi hás verðlags á sjávarafurðum erlendis hafa eyðilegt og drepið í dróma möguleika okkar í alls konar iðnaðarframleiðslu. Það þarf ekki að líta langt aftur í tímann til þess að sjá þá hluti.
    Þá ætla ég að fara fáeinum orðum um það með hvaða hætti væri hugsanlegt að jafna þessar sveiflur ef þessi sjóður verður lagður niður, en ég tel að það yrði mikið slys ef það gerðist núna meðan ekkert annað er fyrir hendi því að það er enginn vafi á því. Ég er a.m.k. ekki í neinum vafa um það að landið mun rísa á ný fyrir þá sem eru í atvinnurekstri í sjávarútvegi og við eigum eftir að sjá uppsveiflu í honum. Og vandamálið sem er út af fyrir sig góðkynja, þ.e. að sú uppsveifla komi, það nálgast okkur og við þurfum þess vegna að vera við því búin. Og það væri skelfilegt ef við yrðum ekki betur undir þá uppsveiflu búin heldur en við vorum 1987 þegar allt fór úr böndunum með þeim hætti sem allir hljóta að muna sem hafa verið komnir af bernskuskeiði þegar sá tími leið. Það er hægt að gera með fjölmörgum aðferðum ef menn vilja jafna út sveiflur. Hér erum við með í höndunum sveiflujöfnun sem byggist fyrst og fremst á því að verðjafna þessum afurðum sem hér er verið að tala um.
    Samtök iðnaðarins hafa bent á það að það þurfi að taka upp auðlindaskatt, það megi nota hann til þess að jafna þessa samkeppnisaðstöðu og halda verðlagi stöðugu og gengissveiflum í lágmarki. Þá eru þau auðvitað að tala um að það verði mismunandi hátt gjald innheimt af þeim sem stunda sjó á Íslandi eða útgerð eftir því hvernig árar og þannig verði þessar sveiflur jafnaðar út. Ég tel að þetta sé hluti af þeirri sjávarútvegsstefnu sem á að reka í landinu og ég held að það sé ástæða til þess að ræða hina ýmsu möguleika til að jafna út þessar sveiflu, menn eigi ekki fyrir fram að vera með mótaðar skoðanir í því.
    Mér hefur fundist á þeim sem um þessar mundir tala um auðlindaskatt og vilja koma honum á að þeir séu meira að hugsa um eitthvað annað en sveiflujöfnun í sjávarútvegi þegar þeir tala um þennan auðlindaskatt þó svo að ég geri ráð fyrir því að flestir þeirra muni vilja nýja sér möguleika auðlindaskattsins til þess að jafna út sveiflur í sjávarútvegi ef hann á annað borð verður settur á.
    Ég hef sett fram hugmynd og ber ábyrgð á hugmynd sem var dreift hér í þinginu í fyrra og fylgdi þáltill. Alþb. um sjávarútvegsstefnu í fyrravor sem var framlag Alþb. til þess að reyna að koma af stað víðtækari umfjöllun um sjávarútvegsmál heldur en þessi hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu. Í þeirri tillögu er reyndar hugmynd um aflagjald. Þetta aflagjald er auðvitað nothæft til sveiflujöfnunar í sjávarútvegi ef því verður komið á. Það er að vísu eingöngu miðað við þarfir sjávarútvegsins og gæti verið það alfarið þó að það væri notað til sveiflujöfnunar því að hugmyndin um aflagjald byggist á því að innheimta gjald, mismunandi hátt eftir hverri tegund og eftir þeim aðstæðum sem eru í sjávarútvegi á hverjum tíma. Og það er ekki bara hugsað sem stjórntæki í sjálfum sjávarútveginum til þess að stýra veiðum

og hafa áhrif á þær. Það er líka hugsað sem sveiflujöfnunartæki. Þegar verð væri mjög hátt í sjávarútveginum þá væri hægt að frysta hluta af því aflagjaldi sem innheimt væri og geyma til síðari tíma þegar verr áraði og þannig væri mögulegt að jafna sveiflurnar út. Þetta er í sjálfu sér ákaflega einfaldur hlutur og ég ætla ekki að fara í neinar meiri vangaveltur um þetta nú en ég tel að ef það verður af áformum ríkisstjórnarinnar um að leggja þennan sjóð niður þá muni þessi umræða öll fara af stað og þá muni myndast mikill þrýstingur á stjórnvöld í landinu að taka til alvarlegrar umfjöllunar með hvaða hætti eigi að jafna sveiflurnar í okkar hagkerfi og auðlindaskattur verður það sem margir munu þrýsta á að verði tekið upp. Ég er einn af þeim sem hafa ekki viljað að tekinn yrði upp auðlindaskattur með þeim hætti sem t.d. Alþfl. hefur lagt til sem stjórntæki í sjávarútveginum. Ég tel að sú tillaga, sem ég lýsti í örfáum orðum áðan sem er hluti af hugmyndinni um það hvernig eigi að stjórna fiskveiðum án þess aflamarkskerfis sem nú er í gangi, þ.e. að létta af sjávarútveginum þeim hluta stjórnkerfis fiskveiða sem felst í aflamarkinu, en taka upp í staðinn sóknarstýringar ásamt þeim sóknarstýringum sem fyrir eru því að þær eru æðimargar, að sú hugmynd, sem ég nefndi þarna áðan sem er hluti af þessu, getur í sjálfu sér vel gengið sem sveiflujöfnun í sjávarútveginum. Og það er hægt að nýta þetta með margvíslegum hætti.
    Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá er allt þetta auðvitað hluti af þessu vandræðarugli ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum. Hún hraktist til þess að leggja til að þessi sjóður yrði lagður niður eingöngu vegna þess að hún þurfti á því að halda að fá þá peninga sem í sjóðnum eru til þess að bæta ríkissjóði upp tekjutap sem hann varð fyrir vegna þess að hann fékk ekki þá peninga sem hann átti að fá fyrir veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs sem átti að selja. Og það verður að segjast eins og er að það er ekki upp á það bjóðandi að hæstv. ríkisstjórn í landinu hrekist áfram og berist með straumnum með þessum hætti takandi ákvarðanir út í loftið án rökstuðnings, takandi ekki mark á góðum rökstuðningi þeirra manna sem best þekkja og hafa besta menntun og þekkingu á efnahagslífinu í landinu. Það er sem sagt engum rökum tekið. Þetta er í raun og veru ömurleg staða sem hv. Alþingi er í og hv. meiri hluti þessa þings, að hann skuli þurfa að rétta upp hendur eða ýta á takkana við atkvæðagreiðslur hér í þinginu til þess að standa að framgangi mála sem þannig eru undirbúin og ákvarðana sem eru teknar með svona rökstuðningi eins og við höfum hér séð, þ.e. að meiri hluti hv. nefndar leggur bara til að tillagan verði samþykkt og rökstyður það ekki með nokkrum hætti þrátt fyrir að það hafi komið fram mjög öflugur og sannfærandi rökstuðningur fyrir því að halda þessum sjóði á lífi áfram og nýta hann þegar öðruvísi fer að ára í þjóðfélaginu.
    Ég ætla, hæstv. forseti, að láta þessari ræðu minni lokið. Það kann svo sem að vera að ég sjái ástæðu til að taka til máls aftur í þessari umræðu en ég hef verið að vonast til þess að hv. þm. stjórnarliðsins tækju hér til máls og rökstyddu þá skoðun sína ef hún er þá þannig að þeir ætli að styðja þetta mál. Mér finnst það vera Alþingi Íslendinga til lítilsvirðingar að mál eins og þetta skuli nánast eingöngu vera rætt af stjórnarandstæðingum og að þeir sem ætla að styðja málið og styðja sína ríkisstjórn við það að koma því í gegnum þingið skuli ekki leggja það á sig þó ekki sé nema með fáum orðum að rökstyðja sína skoðun.