Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu SR-mjöls

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:06:38 (6412)


[15:06]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Að frumkvæði fjárln. var óskað eftir því að Ríkisendurskoðun gerði athugun á sölu og sölumeðferð hlutabréfa í SR-mjöli. Þetta var ákveðið og þeim tilmælum beint til Ríkisendurskoðunar á fundi fjárln. 12. jan. Ég tel eðlilegt að þegar Ríkisendurskoðun hefur lokið athugun sinni, sem hún mun hafa gert eftir því sem fréttir herma, þá kynni hún fjárln. niðurstöður sínar enda er skýrslan gerð að frumkvæði þeirrar nefndar. Það hlýtur síðan að vera á valdi eða forræði fjárln. hvernig fjárln. telur eðlilegast og réttast að þessar upplýsingar verði notaðar, þ.e. hvort þær verði birtar eða ekki.
    Fjárln. hefur verið boðuð til fundar út af þessu máli í fyrramálið kl. 11 þar sem fulltrúar Ríkisendurskoðunar munu mæta á fundinn og síðan mun fjárln. taka sínar ákvarðanir á þeim fundi um framhald málsins.
    Mér þótti nauðsynlegt að þetta kæmi fram, virðulegi forseti.