Málefni sumarhúsaeigenda

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:36:20 (6426)



[15:36]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Umræddur starfshópur hefur ekki skilað áliti sínu en samkvæmt upplýsingum frá formanni hópsins er stefnt að því að starfi hans verði lokið innan eins mánaðar og hefur dregist lengur en ég ætlaði að fá niðurstöðu. Af því að fyrirspyrjandi nefndi að hópurinn hefði verið skipaður í apríl þá er skipunarbréfið, þegar þessi starfshópur er skipaður, dags. 27. sept. 1993 en í þessum starfshópi eiga sæti Hallgrímur Guðmundsson bæjarstjóri, sem er tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Hrafn Hallgrímsson, tilnefndur af umhvrn., og Kristján Jóhannsson, tilnefndur af Sambandi sumarhúsaeigenda, ásamt fulltrúa félmrn.
    Vegna tölul. 2 í fyrirspurninni er rétt að fram komi að skipta má fasteignagjöldum í tvo flokka, þ.e. annars vegar fasteignaskatta sem lagðir eru á fasteignir í samræmi við 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga og hins vegar þjónustutengd fasteignagjöld, svo sem sorphirðugjöld. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru fasteignaskattar einn af tekjustofnum sveitarfélaga og eru þeir lagðir á fasteignir án

sérstakra kvaða um veitta þjónustu af hálfu sveitarfélaga til handa fasteignaeigendum.
    Samkvæmt núgildandi lögum er sveitarfélögum ekki skylt að veita sumarhúsaeigendum nánar tilgreinda þjónustu nema að því er varðar brunavarnir. Hins vegar er í hinum ýmsu lögum að finna heimildir til handa sveitarfélögunum til að sjá um ýmiss konar þjónustu, t.d. rekstur vatnsveitu, lagningu holræsis og sorphirðu. Í þessu sambandi þarf hins vegar einnig að skoða þá staðreynd að í þeim sveitarfélögum þar sem finna má flesta sumarbústaði er álagður fasteignaskattur á sumarhúsaeigendur stór hluti heildarálagðra fasteignaskatta. Þau sveitarfélög veita sumarhúsaeigendum of litla þjónustu og eigendurnir hafa litla eða enga aðstöðu til að þrýsta á sveitarfélögin um að veita einhverja þá þjónustu sem þeir telja þörf á.
    Eins og áður sagði hefur starfshópurinn ekki skilað sínum niðurstöðum og þykir mér rétt að bíða með afstöðu mína til þessa máls þar til álit starfshópsins liggur fyrir.