Samfélagsþjónusta

135. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 16:04:12 (6437)


[16:04]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil skýra frá því að á fundi allshn. í morgun var frv. til laga um samfélagsþjónustu aftur tekið til umræðu vegna ábendinga um ákveðinn þátt þess og framkvæmd ef frv. verður að lögum. Í frv. sem lagt var fram upphaflega var gert ráð fyrir því að samfélagsþjónustunefnd, samkvæmt 5. gr. frv., yrði skipuð með öðrum hætti en nú er raun á, en nefndin skal samkvæmt ákvæðum frv. til bráðabirgða vinna til 1. júlí 1995 að undirbúningi að gildistöku laganna verði þau samþykkt og að undirbúningi að framkvæmd þess úrræðis sem samfélagsþjónusta er. Samkvæmt 5. gr. frv., eins og hún var, átti forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins að eiga sæti í nefndinni, en sú stofnun fer með mikilvæga þætti framkvæmdar laganna.
    Í meðferð allshn. og Alþingis varð hins vegar sú breyting á frv. að samfélagsþjónustunefnd fær stöðu æðra stjórnsýslustigs gagnvart Fangelsismálastofnun í vissum tilvikum sem skapar möguleika á málskoti og endurskoðun ákvörðunar sem er íþyngjandi fyrir brotamanninn. Þessi breyting á stöðu nefndarinnar gagnvart Fangelsismálastofnun leiðir af sér þá breytingu á skipun samfélagsþjónustunefndar, samkvæmt 5. gr. frv., að þar má nú enginn starfsmaður Fangelsismálastofnunar eiga sæti. Það er hins vegar áfram eðlilegt og raunar alveg nauðsynlegt eðli málsins samkvæmt að Fangelsismálastofnun ríkisins komi að undirbúningi þessa máls vegna þess hve stofnunin hefur miklu hlutverki að gegna við framkvæmd laganna og því þarf að leggja það fyrir þá samfélagsþjónustunefnd sem skipuð verður og á samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í frv. að undirbúa gildistöku laganna, svo sem áður sagði, að hún hafi náið samband við Fangelsismálastofnun og samvinnu um allan þann undirbúning. Eðlilegt er að um þetta verði gefin skýr fyrirmæli af hálfu hæstv. dómsmrh. og því ætti það ekki að koma að sök við þennan undirbúning þótt fulltrúi Fangelsismálastofnunar eigi nú ekki sæti í nefndinni. Stofnunin ætti þannig beinan þátt að þessari undirbúningsvinnu svo sem nauðsynlegt er.
    Virðulegi forseti. Fyrir hönd allshn. vil ég koma þessum ábendingum á framfæri við hæstv. dómsmrh. og vænti þess að þeim verði vel tekið.