Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 14:52:22 (6505)


[14:52]

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið ljóst frá því að samningaviðræður um hið Evrópska efnahagssvæði hófust að markmiðið með þessum samningum væri að skapa efnahagssvæði þar sem sömu grundvallarreglur giltu um alla atvinnustarfsemi. Einungis með þeim hætti er hægt að tryggja að allar viðskiptahindranir falli niður og að um einn sameiginlegan markað sé að ræða. Aðgangur okkar að Evrópumarkaði og aðstaða okkar öll á þeim markaði byggist á þessum forsendum. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að í vissum tilfellum geti reglur um framleiðslu ökutækja, dráttarvéla eða annars tækjabúnaðar hljómað smásmygilega eða að reglugerðir geti orðið allmiklar að vöxtum. Það hefur alla tíð legið fyrir. Menn geta leikið sér að því ef þeir vilja að taka einhverja verklýsingu að tæknilegri framleiðslu sem lúta á stöðluðum reglum og hafa af því nokkra skemmtan að fara yfir smásmygilegar lýsingar, fullar af nákvæmum smáatriðum.
    En ef íslenskar vörur eiga að vera gjaldgengar á mörkuðum annarra Evrópuþjóða verðum við að uppfylla þessi skilyrði. Það er útlátalaust að taka yfir þær reglur, eins og fram hefur komið í þessum umræðum, sem í samningnum felast um þá atvinnustarfsemi sem ekki fer fram hér á landi og satt að segja er það mest að vöxtum í þessum bókum sem mönnum vex nú mjög í augum að þurfa að berja augum. En fyrir þá starfsemi sem hér er stunduð og ætluð er til útflutings þá er okkur lífsnauðsyn að hún uppfylli þær reglur sem á markaðnum gilda því annars ættu afurðir okkar ekki rétt á þessum mörkuðum. Enda hefur það komið í ljós að jafnvel hörðustu andstæðingar EES hafa þrátt fyrir allt fagnað ýmsum umbótum og lögum og reglum, sem ekki hafði tekist að koma á fyrr en við framkvæmd ákvæða EES-samningsins. Og mun nú sannast hið fornkveðna að ,,hjörtum mannanna svipar nokkuð saman í Súdan og Grímsnesinu``. Hið sama má segja um allar aðstæður atvinnulífs í Evrópu yfirleitt. Það hefur líka komið í ljós að breytingar þær sem þarf að gera á íslenskri löggjöf vegna þessarar viðbótar við EES-samninginn eru ekki miklar að vöxtum og flestar eru þær til bóta. Dæmin um nauðsynleg löggjafaratriði eru satt að segja tiltölulega fá, eins og t.d. lög um öryggi við framleiðslu vöru og breytingar á nýsettum lögum um verðbréfaviðskipti og reyndar fyrirsjáanlegar nauðsynlegar breytingar á innlendri löggjöf ef svo fer að GATT-samningurinn taki gildi fyrr en upphaflega hefur verið ráðgert.
    Fyrstu úttekt á þeim gerðum sem búast mátti við að bættust við EES-samninginn var dreift á Alþingi, ekki í gær og ekki í fyrradag og ekki fyrir viku, heldur í nóvembermánuði sl. Það hefur verið farið ítarlega yfir efnissviðið í utanrmn., þar sem t.d. hv. þm. Páll Pétursson á sæti, og aðrar nefndir þingsins hafa komið að málinu þegar um lagabreytingar hefur verið að ræða. Mér sýnist af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að ekki séu gerðar veigamiklar athugasemdir við einstök efnisatriði eða innihald heldur hafi menn fremur staldrað við umfang textanna eða gefið í skyn mikinn kostnaðarauka sem rekja megi beint til samningsákvæðanna. Umfangið skýrist af því að í flestum tilfellum er ekki um að ræða almennan lagatexta heldur útfærslu og framkvæmd almennra ákvæða svipað og framkvæmdarvaldinu er almennt falið að gera hér á landi og ganga frá í reglugerðum Stjórnarráðsins í B-deild sem einatt er miklu meira að vöxtum og fyllra af smáatriðum, útfærsluatriðum, smásmygli, heldur en rúmast í löggjöfinni sjálfri. Dæmi um gagnrýni af þessu tagi má nefna að hv. 1. þm. Norðurl. v. hafði orð á öryggiskröfum til lækningartækja. Vissulega er verið að setja reglur til þess að herða eftirlit með öryggiskröfum til slíkra tækja og hliðsjón verður höfð af þeim reglum við framleiðslu og innkaup nýrra tækja. Reglurnar eru hins vegar ekki afturvirkar og þetta þýðir ekki að það eigi að þurfa að henda á haugana þeim tækjum sem nú eru í notkun. Því fer fjarri.
    Virðulegur forseti. Ég skal nú víkja nokkrum orðum að einstökum gagnrýniatriðum sem hér hafa verið nefnd og svara þeim eftir því sem tilefni er til.
    Þá vil ég fyrst víkja að málflutningi hv. 1. þm. Norðurl. v., Páls Péturssonar. Þingmaðurinn sagði það nýlundu hér á Alþingi að við verðum að samþykkja svona gerning og fá engu fram hnikað og hafði jafnvel uppi orð um að þetta sannaði hans málflutning um að löggjafarvaldið hefði verið tekið af Alþingi Íslendinga. Af þessu tilefni er mér spurn: Hversu oft hefur hv. þm. tekið þátt í því á löngum þingmannsferli sínum að staðfesta hér á hinu háa Alþingi milliríkjasamninga þar sem hann stendur í sömu sporum, að samþykkja eða synja um gildistöku milliríkjasamninga en þar sem hann á þess ekki kost eftir að samningum er lokið að gera einstakar breytingar? Ég hef aldrei heyrt því haldið fram að þótt Alþingi Íslendinga samþykki eða synji um slíka milliríkjasamninga eða staðfestingu þeirra þá hafi Alþingi þar með framselt löggjafarvald í hendur öðrum þjóðum. Þessu er nákvæmlega eins farið. Að sjálfsögðu heldur Alþingi löggjafarvaldi sínu, að sjálfsögðu hefur enginn tekið það af því, að sjálfsögðu hefur það ekki verið framselt. En þegar um er að ræða staðfestingu á milliríkjasamningum þá er ekki til önnur aðferð en sú að samþykkja eða synja en það er fyllilega á valdi Alþingis að ráða því hvor niðurstaðan verður. Mér er nær að halda að hv. þm. hafi sjálfur svo tugum skiptir staðið í þeim sporum gagnvart staðfestingu milliríkjasamninga og muni jafnvel gera það á ókomnum árum svo skiptir tugum.
    Hv. þm. hélt því fram að hann hefði fyrst í gær fengið texta að hluta af þessum tilskipunum. Um þetta er það að segja að textar hafa verið aðgengilegir fyrir meðlimi utanrmn. og aðra þingmenn í marga mánuði. Þannig að þetta er sýnist mér ekki réttmætt umkvörtunarefni.
    Hv. þm. hafði nokkrar áhyggjur af traktorunum sínum heima á Höllustöðum. Tilskipanir þær sem hér er verið að fjalla um hafa engin áhrif á traktorana á Höllustöðum. Ekki nokkur. Og ég bið hv. þm. fyrir alla muni að hafa ekki áhyggjur af þeim ekki af þessum sökum. ( PP: Setur mér skorður um hvaða traktor ég kaupi næst.) Í raun og veru ekki heldur. Vegna þess að það er nú einu sinni svo, svo ég víki að málflutningi sem hér hefur verið hafður uppi um amerískar bifreiðar, ég tek eftir að hv. þm. Steingrími Hermannssyni hefur orðið það á að trúa hv. þm. Páli Péturssyni í því efni, en það er á algjörum misskilningi byggt. Þær tilskipanir sem hér er verið að samþykkja kveða á um þá staðla sem gilda um framleiðslu, smíði á bifreiðum. Atvinnuvegur sem hefur verið stundaður hér á landi og mundi vissulega koma í veg fyrir það að Íslendingur sem keypt hefði ameríska bifreið gæti selt hana á Evrópumarkaði annars staðar ef í þeim örfáu tilvikum sem það kann að vera hugsanlegt að amerísk bifreið mundi ekki fullnægja þessum stöðlum. Það kom fram í umræðunum að það mundi vera hugsanlega eitt eða tvö dæmi um slíkt en í yfirgnæfandi meiri hluta tilvika fullnægja amerískar bifreiðar þessum stöðlum, þannig að þetta hefur ekkert með það að gera að við getum ekki beint okkar viðskiptum hvert sem við viljum að því tilskyldu að þessum kröfum sé fullnægt. Og það mun gilda að öðru jöfnu um bæði bandarískar og japanskar bifreiðar svo ég nefni sem dæmi og ekki ástæða til að ætla annað heldur en að bifreiðaframleiðslan í heiminum muni taka upp þessa lágmarksstaðla. Þannig mun t.d. vera um tiltölulega nýja atvinnugrein í landi sem ég er nýkominn frá, Kóreu, að hún fullnægir þessum kröfum.
    Sama máli gegnir um það að við höfum nú allt í einu uppgötvað að við höfum beygt okkur undir ytri viðskiptastefnu Evrópubandalagsins með þessum samningi og séum að taka upp ytri tollmúra eða að við séum búnir að binda okkur af því að geta ekki gert viðskiptasamninga við önnur ríki vegna þessa samnings. Allt eru þetta rangar fullyrðingar. Við erum ekki að taka upp ytri tolla Evrópusambandsins. Við erum ekki að taka upp sameiginlega viðskiptastefnu þess. Við erum ekki innan tollasvæðis Evrópusambandsins. Við erum frjálsir að því að gera viðskiptasamninga við hvaða aðra þriðju þjóð utan Evrópusambandsins sem okkur lystir. Við erum frjálsir að því að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin eða Kanada nú eða gera samninga um aðild að NAFTA. Ekkert af þessu kemur í veg fyrir það.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði í ræðu sinni: ,,Þetta hundrað manna lögreglulið sem EFTA-ríkin hafa sett á stofn þarna út í Brussel til að passa sjálf sig og kostar 1 milljarð kr. á ári að reka . . .  `` o.s.frv. Ekki veit ég hvaðan hv. þm. koma þessar upplýsingar. En ef hann hefði kynnt sér málið áður en hann talaði þá hefði hann fengið það upplýst að Íslendingar borga á árinu 1994 22,4 millj. kr. til eftirlitsstofnunar og fastanefndar EFTA, hvort tveggja í senn, 22,2 millj. kr. Mig minnir að hv. þm. hafi stundum haft á orði að þær upplýsingar sem hann fengi frá utanrrh. væru ekki nákvæmar en þarna munar helst til miklu til þess að ásættanlegt sé.
    Hv. þm. fullyrti að Íslendingar hefðu hvergi komið að undirbúningi þessara 500 tilskipana. Ísland hefur samið um undanþágu og aðlögun að flestum þessara 500 tilskipana eins og öðrum. Hv. þm. gerði að gamanmálum ákvæði reglugerðar sem á að tryggja að starfsmenn sem vinna erfiðisvinnu utan húss séu í skjóli fyrir veðrum eða varðir fyrir aðvífandi hlutum. Mér þykir það ekkert gamanmál, mér þykir það vera eðlilegur þáttur reglusetningar um öryggi á vinnustöðum að svo sé og tek eftir því að talsmönnum Alþýðusambandsins, sem hafa átt mjög jákvæðan hlut að mótun þessara reglna, þykir þetta ekki vera neitt gamanmál heldur hafa þeir nefnt þetta sem dæmi um reglur sem ganga lengra heldur en þær reglur sem gilda hér á landi um almennt öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum og hafa þeir nefnt þetta sem sérstakt dæmi um kosti við samninginn.
    Þá hefur upp komið verulegur misskilningur sem gætti bæði í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. og reyndar einnig mjög margra annarra ræðumanna sem hér hafa talað um það að í þessum samningum felist það að við séum að koma á tæknilegum viðskiptahindrunum sem séu settar upp til þess að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja í Evrópubandalaginu gagnvart fyrirtækjum utan Evrópusambandsins og setja hér upp tæki til hagræðingar fyrir auðhringa í Evrópu. Allt er þetta á misskilningi byggt, sem betur fer. Tilgangurinn með reglugerð nr. 151/1993 er t.d. að auðvelda hagræðingu við framleiðslu, nýtingu niðurstaðna úr sameiginlegum rannsóknum og þróun og útbreiðslu tækniþekkingar. Þetta er, öfugt við það sem haldið hefur verið fram, fyrst og fremst neytendasjónarmið þar sem að baki búa að samráð af þessu tagi þykir líklegt til að lækka vöruverð og styrkja vöruþróun. Sá varnagli er sleginn í reglugerðinni að markaðshlutdeild þeirra fyrirtækja sem standa að samstarfssamningum um dreifingu megi ekki fara yfir 10%. Og þegar um aðra samstarfssamninga er að ræða má hlutdeildin ekki fara yfir 20% af markaði. Það er því einmitt verið að tryggja að fyrirtæki sem eru minni, svokölluð lítil og meðalstór fyrirtæki, geti með slíku samstarfi staðið sig betur í samkeppni við risafyrirtæki sem samkvæmt því sem áður segir mega ekki gera slíka samninga. Að auki eru í reglugerðinni taldir upp ýmsir samningsskilmálar sem bannað er að hafa í slíkum samstarfssamningum til að koma í veg fyrir að þeir verði misnotaðir. Þannig að vissulega er þetta ákvæði, þveröfugt við það sem fullyrt hefur verið, til þess að styðja við bakið á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það er ekki til þess að efla markaðshlutdeild auðhringa með ráðandi markaðsstöðu heldur þvert á móti.
    Sama máli gegnir um lækningartæki, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. og fleiri hafa vikið að, og sagt á þá leið með nokkuð óljósu orðalagi, ég vitna í ræðu hv. þm., nú er ég ekki með upplýsingar um hvort það þarf ný tæki fyrir 1 milljarð eða 2 milljarða eða einhvers staðar þar á milli en endurnýjun þeirra hefur í för með sér verulegan kostnað. Þetta er á misskilningi byggt. Það er engin skuldbinding um endurnýjun eldri tækja vegna þessara reglna. Reglurnar gilda ekki afturvirkt. Þær gilda um þau tæki sem verða

sett á markað eftir gildistöku tilskipunarinnar. Nú gilda í raun og veru engar reglur um lágmarksöryggisstaðla varðandi slíkan tækjabúnað. Hér er því um að ræða raunverulega réttarbót og aukið öryggi varðandi tækjabúnað við heilsugæslu sem er sjálfsagt að koma á og er öryggisatriði almennt bæði fyrir heilbrigðisstéttir og fyrir sjúklinga. Að því er varðar að líta á þetta sem viðskiptahindrun þá er það ekki svo vegna þess að það er vitað að tækjabúnaður, hvort heldur er japanskur eða bandarískur á þessu sviði, tekur evrópskum búnaði að öðru jöfnu yfirleitt fram.
    Hv. þm. hafa fullyrt hver á eftir öðrum að með þessum reglugerðum verði amerískir bílar útilokaðir af markaðnum. Ég hef þegar svarað því að það er á misskilningi byggt.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vék m.a. nokkuð að hinni sameiginlegu yfirlýsingu Íslands og Evrópusambandsins um launþega í byggingariðnaði. Evrópusambandið bauð Íslandi gagnkvæman fyrirvara til þriggja ára í þessu efni. Það hefði haft í för með sér að íslenskir byggingarmenn hefðu ekki notið aðgangs að markaði Evrópuríkja. Í ljósi þess að EES-samningurinn hafði verið gerður, en í honum er byggt á frjálsri för launþega sem meginreglu, var það mat utanrrn. að sérstaða Íslands í þessu máli væri ekki slík að möguleiki væri á undanþágu nema með því að fórna hagsmunum íslenskra launþega sem hug hefðu á að afla sér vinnu erlendis. Þess vegna var ákveðið í framhaldinu að leita sameiginlegrar yfirlýsingar með Evrópusambandinu um skyldu þess til að kynna iðnaðarmönnum frá Evrópusambandsríkjum sérstöðu reglna hér á landi ásamt því að undirbúningur var hafinn að kynningu á þessum reglum við móttöku iðnaðarmanna sem koma kynnu hingað til lands. Þessi ráðstöfun var gerð í samráði við Alþýðusamband Íslands en fulltrúar þess fylgdust náið með framvindu samninga um þetta atriði alla tíð. Endanleg ábyrgð hlýtur hins vegar að sjálfsögðu alltaf að hvíla á utanrrh.
    Ef miðað er við þann fjölda iðnaðarmanna sem starfa sem launþegar í aðildarríkjum Evrópusambandsins og koma frá öðrum aðildarríkjum má gera ráð fyrir því með framreikningi að hingað komi tveir eða þrír iðnaðarmenn í þessu skyni. Í þessu máli sem og öðrum gildir að sjálfsögðu öryggisfyrirvarinn í 112. gr. samningsins sem heimilar einhliða takmörkun af Íslands hálfu ef röskun verður á vinnumarkaði.
    Þá gerði hv. 4. þm. Austurl. nokkrar athugasemdir við afstöðu Alþýðusambands Íslands til EES-samningsins. Af því tilefni vil ég aðeins segja þetta: Alþýðusambandið gerði á sínum tíma athugasemdir við meðferð íslenskra stjórnvalda á einni tiltekinni tilskipun Evrópusambandsins í samningaviðræðunum um þennan svokallaða viðbótarpakka. Utanrrh. og félmrh. áttu afar gagnlegan fund með forseta Alþýðusambandsins og sérfræðingum hans um þetta efni. Þar var fjallað ítarlega um samskipti aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda varðandi Evrópumál og afstaða beggja aðila skýrð. Það er ekkert sem bendir til þess að Alþýðusambandið hyggist draga til baka stuðning sinn við EES-samninginn eða hætta þátttöku í samráði um Evrópumál, þvert á móti tekur Alþýðusambandið fullan þátt í samstarfi á sviði Evrópumála nú sem fyrr.
    Hv. 4. þm. Austurl. vék einnig að nýrri tilskipun 93/96 um staðfesturétt stúdenta í stað eldri tilskipunar um sama efni. Um þetta er það að segja að þessi nýja tilskipun kemur í stað þeirrar fyrri þar sem sú var ógilt af dómstóli Evrópusambandsins þar sem hún var ekki talin byggja á fullnægjandi lagaheimild. Það er hins vegar ekki rétt að í þessu felist að við þurfum að taka skilyrðislaust við dómsúrlausnum dómstóls Evrópusambandsins. Í þessu felst einungis að engin tilskipun um þetta atriði var í gildi innan Evrópusambandsins eftir dóm dómstólsins og því var nauðsynlegt fyrir Evrópusambandið að setja nýja tilskipun um sama efni sem fullnægði lagastoð. Óbreytt ástand hefði þýtt að íslenskir stúdentar hefðu ekki átt rétt til staðfestu í aðildarríkjum Evrópusambandsins, enda er réttur þeirra samkvæmt fyrri tilskipun einskis virði þar sem hann er byggður á gerð sem ekki gildir innan Evrópusambandsins. Þetta er með öðrum orðum aðgerð sem er í þágu íslenskra námsmanna sem dvelja við nám í þessum löndum. Alveg eins og við förum fram á að réttarkerfi okkar sé virt í EES-samningnum þá hljótum við einnig að virða réttarkerfi þeirra. En í þessu felst alls engin skuldbinding um það að lúta dómsvaldi Evrópusambandsdómstólsins.
    Virðulegi forseti. Þetta eru þau meginatriði sem fram hafa komið í umræðunni sem ástæða var til að leiðrétta. Að lokum vil ég árétta eftirfarandi: Það er yfirleitt sammæli allra þeirra sem kynnt hafa sér málið að í óefni væri komið í málum okkar Íslendinga á þeim mörkuðum sem tekur við fjórum fimmtu hlutum af vöruútflutningi okkar ef við hefðum ekki borið gæfu til að ná niðurstöðu um EES-samninginn. Án þess samnings væri þrýstingur af hálfu viðskiptaaðila og atvinnulífs á Íslandi um það að stíga skrefið til fulls, að ganga nauðugir viljugir nánast inn í Evrópusambandið, nánast óbærilegur. Með þessum samningi höfum við tryggt okkur því sem næst tollfrjálsan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir okkar. Við höfum tryggt íslenskum sjávarútvegi samkeppnisskilyrði. Við höfum skapað forsendur fyrir því að hefja meiri úrvinnslu í matvælaiðnaði á Íslandi og að ná betri markaðsstöðu, ekki bara á uppboðsmörkuðum hafnarborganna heldur einnig á neytendamarkaði, á þeim mörkuðum sem, hvort sem okkur líkar betur eða verr, taka við fjórum fimmtu hlutum af okkar vöruútflutningi. Þetta skiptir að sjálfsögðu sköpum. Nú geta menn lengi velt því fyrir sér hvort þetta sé nóg og spurt t.d. í ljósi þess að Norðmenn hafa lokið aðildarviðræðum, fengið niðurstöður í samninga sína um fulla aðild: Hvaða áhrif hefur það á samkeppnisstöðu Íslendinga? Það er alveg ljóst að Norðmenn hafa með þeim samningum sem væntanlega taka gildi að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um áramótin næstu, tryggt sér enn betri markaðsaðstöðu í samkeppni við Íslendinga heldur en við njótum. Þeir munu hafa t.d. fullan tollfrjálsan markaðsaðgang frá fyrsta degi, jafnvel þótt þeir hafi samið um tollfrjálsan kvóta, magnkvóta, að því er varðar átta tegundir til fjögurra ára. Það er hins

vegar svo lítilfjörlegt mál í samanburði við heildarþýðingu samningsniðurstöðunnar að það skiptir ekki sköpum. Við hljótum að játa að samningsstaða þeirra verður í veigamiklum atriðum verri. Sama er að segja að við höfum af því nokkrar áhyggjur þegar Ísland verður viðskila við hinar samstarfsþjóðir sínar í EFTA þá er nokkur óvissa ríkjandi um það hvernig t.d. síldarmörkuðum okkar, þar sem við nutum fríverslunar með fiskafurðir, reiðir af þegar þessir markaðir okkar eru komnir inn fyrir tollmúra Evrópusambandsins. Það kallar á sérstaka samninga. Við höfum vakið athygli samstarfsþjóða okkar á þessu vandamáli og öðrum vandamálum því tengdum þar sem við höfum haft hagstæðari samninga við Norðurlönd eða EFTA-ríkin heldur en við Evrópubandalagið og látið í ljós þær kröfur að eins verði með þau mál farið og t.d. þegar Danir eða Portúgalar yfirgáfu EFTA á sínum tíma og gerðir voru við þá sérstakir samningar til þess að þeir biðu ekki skaða af þeim vistaskiptum.
    Hinar stærri spurningar eru náttúrlega þær sem nú eru óhjákvæmilega á dagskrá, hvert framhaldið verði. Eins og kunnugt er náðist um það samstaða á Alþingi Íslendinga í framhaldi af samþykkt EES-samningsins að leita eftir tvíhliða viðræðum við Evrópusambandið um framhaldið. Þar skiptir mestu máli eftirfarandi:
    EES-samningurinn er þjóðréttarsamningur sem gerður er af hálfu lýðveldisins Íslands við Evrópusambandið. Vistaskipti fyrrverandi EFTA-þjóða sem færa sig handan yfir borðið og eru orðnir aðilar að stærra Evrópusambandi breyta því ekki að EES-samningurinn heldur gildi sínu. Hann er þjóðréttarleg skuldbinding sem Evrópusambandið hafði tekið á sig, hin nýju aðildarríki verða að taka á sig allar fyrri þjóðréttarskuldbindingar Evrópusambandsins. Þannig að samningurinn, inntak hans, skuldbindingar og réttindi standa og það er undirstöðuatriði. Íslendingar mega ekki gera neitt sem raskar því og það væri glapræði hið mesta að óska eftir formlegum samningaviðræðum um það að spretta upp þessum samningi. Hvers vegna væri það svo slæmt? Það væri varhugavert vegna þess að nýr þjóðréttarsamningur mundi kalla á staðfestingu, nýtt staðfestingarferli í hvorki meira né minna en 16 þjóðþingum, við þær pólitísku aðstæður þegar áhuginn á EES-svæðinu er því sem næst horfinn og pólitískur vilji á þessum þjóðþingum vafasamur fyrir því að fara í slíkt samningaferli við það eina ríki sem eftir er innan EES-svæðisins, utan EB. Með öðrum orðum, það sem við þurfum að gera er að taka upp viðræður við Evrópusambandið og fá það staðfest sem við höfum fengið staðfest í formlegum viðræðum við tvo af utanríkisráðherrum framkvæmdastjórnarinnar, þá fyrrverandi, Frans Andriessen, og núverandi, Hans van den Broek, um það að samningurinn haldi gildi sínu og að Íslendingar haldi þeim réttindum sem samningurinn færir þeim og að þeir standi við þær skuldbindingar sem þeir hafa tekið á sig. Það er þess vegna með hliðsjón af þeim viðræðum sem fram undan eru afar mikilvægt að Alþingi Íslendinga ljúki nú staðfestingu þessa viðbótarpakka og sanni þar með að ekkert sé upp á okkur að klaga að því er varðar það að við höfum tekið á okkur þær skuldbindingar og staðið við það til fullnustu, með formlegum hætti. Ef við ekki gerðum það mundi það veikja samningsstöðu okkar í þeim viðræðum sem fram undan eru og það með öllu að óþörfu.
    Hitt atriðið sem við þurfum að ræða við Evrópusambandið er síðan það hvernig við getum komið okkur niður á praktíska og einfalda lausn til þess að fullnægja ákvæðum samningsins um eftirlit með framkvæmd hans og lausn deilumála. Það er alveg ljóst að eftirlitsstofnunin og dómstóll EFTA verða lagðir niður, ef ekki strax um áramót þá væntanlega með ekki lengri aðdraganda en hálfu ári. Við þurfum að ná samningum um praktíska lausn um það hvernig þessu eftirliti verður háttað og hvernig lausn deilumála verði háttað án þess að það feli í sér framsal á framkvæmdar- eða dómsvaldi. Það var grundvallaratriðið í samningunum um EES að halda þannig á að til þess kæmi ekki og það tókst. EFTA-dómstóllinn var hins vegar, og eftirlitsstofnunin, fjölþjóðleg stofnun og þess ekki að vænta að auðvelt sé að ná samningum um það að eitt ríki, einn samningsaðili, í þessu tilviki Ísland, hafi heimild til þess að taka að sér eftirlit með sjálfum sér eða lausn deilumála sem upp kunna að rísa varðandi íslensk fyrirtæki. Þetta verður vafalaust vandasamt verk og mun taka nokkurn tíma. Ég á ekki von á því að Evrópusambandið verði tilbúið til alvörusamningaviðræðna um þetta fyrr en fyrir liggur hver verður niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslna umsóknarríkjanna í EFTA. En nú liggur fyrir að þær þjóðaratkvæðagreiðslur fara fram á tímabilinu frá því í júlí að því er varðar Austurríki og til loka nóvember að því er varðar Noreg. Tíminn sem eftir lifir til áramóta verður þá naumur en sjálfsagt er að búa í haginn fyrir þær samningaviðræður með því að taka upp viðræður með formlegum eða óformlegum hætti um það hvað gera þarf og rétt að upplýsa að óformlegar viðræður hafa farið fram um þetta mál og um tæknilegt inntak þess að frumkvæði fastafulltrúa Íslands hjá Evrópubandalaginu.
    Að því er varðar spurningar sem fram komu í ræðu hv. 7. þm. Reykn. um aðra kosti í þessu máli þá vék hann sérstaklega annars vegar að hugsanlegri aðild Íslands að NAFTA-samningunum og því næst að því hverjar væru horfur á því að styrkja viðskiptasambönd okkar í öðrum heimshlutum t.d. í Austurlöndum fjær.
    Að því er varðar spurninguna um tvíhliða samning við Bandaríkin og Kanada eða aðild að NAFTA-samningnum þá er það rétt að slíkir samningar, ef þeir tækjust, mundu styrkja stöðu Íslands í hinu alþjóðlega viðskiptakerfi ef við gætum boðið tollfrjálsan markaðsaðgang bæði í austri og vestri, bæði í Evrópu og eins Norður-Ameríku. Einkum og sér í lagi mundi þetta skipta miklu máli þegar við leitum eftir atfylgi væntanlegra fjárfesta, erlendra fjárfesta, til þess að styrkja undirstöður og auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.

    Þetta mál hefur lengi verið undirbúið. Embættismenn innan margra ráðuneyta skiluðu áfangaskýrslu á miðju sl. sumri og nú hefur verið lögð fram á hinu háa Alþingi lokaniðurstaða skýrslu þeirra þar sem gerð er úttekt á fríverslunarsamningunum og hugsanlegri aðild að NAFTA út frá íslenskum hagsmunum. Þær samningsniðurstöður leiða í ljós að vissulega mundi þetta styrkja stöðu okkar en það breytir ekki því ef við lítum á utanríkisverslunarmynstur Íslendinga og breytingar á því á seinustu árum þá hefur það gerst bæði fyrir þróun gengis, gjaldmiðla og eins verðbreytinga á alþjóðlegum mörkuðum að íslenskur fiskiðnaður og reyndar íslenskur útflutningur hefur í vaxandi mæli beinst að Evrópu. Okkur hefur mistekist á undanförnum tveimur áratugum að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Við erum orðnir háðari fiskútflutningnum að því er varðar okkar gjaldeyrisöflun heldur en við vorum fyrir nokkrum árum síðan og í vaxandi mæli beinist hann að Evrópu. Á sama tíma hafa viðskipti okkar við Bandaríkin dregist saman frá því sem þau voru að hámarki fyrir allmörgum árum, úr 35% niður í 10--12%. Þannig að við skulum vera raunsæ í því mati okkar að út frá bandarískum viðskiptahagsmunum er ekki eftir miklu að slægjast að gera fríverslunarsamninga við Ísland enda engin fordæmi fyrir því að Bandaríkin hafi gert slíka samninga við ríki utan Ameríku utan Ísrael og þjóðir sem eru nánast mjög háðar bandarískum stjórnvöldum sem nokkur dæmi eru um í Karíbahafinu.
    Það eru því varla á þessari stundu veigamikil rök fyrir því að samningar af þessu tagi við Bandaríkin geti orðið valkostur við EES-samninginn. En ég legg áherslu á það að við höfum skoðað þennan kost af raunsæi. Það hefur farið fram ítarleg undirbúningskönnun. Við munum eindregið óska eftir slíkum samningum. Það er ekki sjálfgefið að Bandaríkjamenn verði við þeim óskum. Heyrst hafa þær raddir af þeirra hálfu að nær væri af því að um svo lítið mál er að ræða frá þeirra bæjardyrum séð að gera þá heldur tvíhliða samning sem mundi eitthvað styrkja markaðsaðstöðu okkar til viðbótar við þann ávinning sem við fengum með GATT-samningunum, fremur heldur en að leggja á sig tæknilega vinnu í 2--3 ár við gerð fríverslunarsamnings af því tagi sem gerður var við Kanada, til þess séu hagsmunir þeirra með öðrum orðum of litlir. Þó er þetta ekki útilokað mál en það mun eingöngu byggjast á pólitísku mati á framtíð varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Það væri út af fyrir sig athyglisvert að heyra sjónarmið manna á hinu háa Alþingi til þessa máls, hvort menn telja að við getum byggt á því til frambúðar að eiga slíka viðskiptasamninga sem byggjast kannski fremur á pólitísku mati eða á framtíðarhorfum varnarsamstarfs heldur en raunverulegum viðskiptahagsmunum íslenskra viðskiptaaðila.
    Að því er varðar möguleika á eflingu viðskipta við aðra heimshluta, þó einkum hin fjarlægari Austurlönd, þá vil ég að gefnu tilefni segja um það örfá orð.
    Viðskipti okkar við Japan hafa á undanförnum árum þróast nokkuð hratt. Á tímabili kom stöðnun og afturkippur í þau viðskipti en þau fara aftur vaxandi. Á þessu ári gerum við okkur vonir um að þau muni jafnvel ná að verðgildi um 10% af okkar heildarútflutningsverðmæti á vörusviðinu.
    Viðskipti við Kína eru lítil en möguleikar þar eru umtalsverðir. Sama er að segja um viðskipti við Kóreu, þau eru lítil, fara vaxandi, nokkur forvitnileg dæmi um ágætan árangur í markaðssetningu en þar er þó við að etja erfiðustu markaðshindranirnar, þ.e. tollar eru hæstir og ýmsar aðrar tæknilegar viðskiptahindranir erfiðar viðfangs.
    Nú er það svo að þetta eru þær þjóðir sem eru í örustum vexti og alveg fyrirsjáanlegt að hagvaxtarríki Kyrrahafsþjóða og Asíuþjóða eru hinar upprennandi þjóðir í heimsviðskiptum. Þar er hagvöxtur mestur, þar er hlutdeild í utanríkisverslun vaxandi hvað örust og þangað leita í stríðum straumum fjölþjóðafyrirtæki, alþjóðleg fyrirtæki, stórfyrirtæki, eftir girnilegum fjárfestingartækifærum. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að þar er verið að sækjast eftir ódýru vinnuafli og arði við þátttöku fjármagnsins við uppbyggingu á svokölluðum ,,infrastrúktúr`` eða samgöngu- og fjarskiptakerfum þessara þjóða.
    Það er athyglisvert að allar þjóðir og forustumenn allra þjóða bæði í stjórnmálum og viðskiptum hafa verið í stríðum straumum í heimsóknum á þessar fjarlægu slóðir. Íslendingar eru á seinni skipunum í því en meginmarkmiðin með nýlegri ferð minni til þessara landa voru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi að koma á formlegum samböndum og kanna ný tækifæri til þess að greiða þarna fyrir viðskiptum. Það var gert bæði með viðtölum við pólitíska forráðamenn en einnig við viðskiptaaðila, sérstaklega þó í Japan. Ferðin var undirbúin með því að leita til allra íslenskra fyrirtækja sem hafa átt í viðskiptum, útflutningi og innflutningi á þessum slóðum, fá mat þeirra á því hvernig tekist hefði til, fá mat þeirra á möguleikum um þróun nýrra viðskipta og fá upp óskir þeirra um hvað unnt væri að gera af hálfu stjórnvalda til þess að greiða fyrir þessum viðskiptum. Niðurstaðan varð sú að við lögðum drög að því að stofna í Kína, í Beijing, til íslensks sendiráðs sem við munum byggja upp í áföngum. Þegar hefur náðst samkomulag við sænsk stjórnvöld um að fyrst um sinn til reynslu muni íslenskur stjórnarerindreki, sem mun fyrst og fremst starfa á viðskiptasviðinu, ásamt með einum aðstoðarmanni starfa innan vébanda sænska sendiráðsins. Þetta verður ekki sænskt sendiráð heldur íslenskt sendiráð starfandi innan vébanda sænska sendiráðsins og það verður vísir að formlegri stofnsetningu sendiráðs í Kína sem hefði þá ábyrgð líka á viðskiptahagsmunum okkar í nærliggjandi löndum, eins og í Kóreu og Japan og væntanlega Singapore, Malasíu og Indónesíu.
    Í annan stað var gerður samningur í Kína um verndun fjárfestinga, samningurinn undirritaður og verður lagður fyrir Alþingi til staðfestingar.
    Í þriðja lagi voru lögð drög að samningum um að forðast tvísköttun. En báðir þessir samningar

munu styrkja nokkuð viðskiptalega umgjörð fyrir íslensk samstarfsfyrirtæki sem kynnu að verða stofnuð í framtíðinni í þessum heimshluta.
    Loks voru lögð fram af okkar hálfu drög að samningum um aukin samskipti á sviði menningarmála, vísinda og aukin gagnkvæm skipti á násmönnum. Vegna þess að þáttur í því að byggja upp aðstöðu á þessum mörkuðum er að sjálfsögðu í því fólginn að íslenskir námsmenn nemi í þessum löndum, læri tungumál Kínverja, Japana og Kóreumanna en ekki bara til að stunda það af bókmenntalegri nautn, sem er að sjálfsögðu æskilegt, heldur einnig til að nema þetta mál sem praktískt mál í viðskiptum og öðrum samskiptum.
    Loks var sérstaklega gengið eftir því, einkum við Japani og Kóreumenn, að þeir gæfu kost á því að gera loftferðasamninga og lendingarsamninga við flugfélag Íslendinga, Flugleiðir. Vegna þess að ein helsta viðskiptahindrunin fyrir frekari uppbyggingu viðskipta, ekki síst að því er varðar sjávarafurðir á þessum slóðum, er skortur á tíðum, reglubundnum og öruggum vöruflutningum. Okkur er ljóst að aðgengi að flugvöllum Tókíó er takmarkað þannig að við létum uppi óskir um það að fá slíkan samning engu að síður þótt hann yrði kannski tengdur einhverri annarri borg.
    Þetta mál hefur lengi verið í undirbúningi. Japanir eru nokkuð tregir til að gera slíka samninga nema það fylgi fyrir að viðskiptin séu mikil að vöxtum og örugg. Engu að síður teljum við sæmilegar horfur á því að þetta erindi fái málefnalega og jákvæða skoðun enda verði þrýst á það bæði af íslenskum stjórnvöldum og viðskiptaaðilum þótt ég geri mér fulla grein fyrir því að það muni taka lengri tíma en ég kysi kannski sjálfur.
    Að því er varðar einstök verkefni þá virtist niðurstaðan af viðræðum við aðila vera sú að við ættum að einbeita okkur að útflutningi á hágæða sjávarafurðum sem sæktu hátt verð bæði á Japans- og Kóreumarkaði. Í annan stað ættum við að reyna að koma á samstarfsfyrirtækjum við Kínverja í sjávarútvegi sem sinntu fyrst og fremst fullvinnslu og markaðssetningu á fiskafurðum og gæti vaxið upp í það að vera bæði inn- og útflytjandi á fiskafurðum á þessum fjölmenna og vaxandi markaði.
    Þriðja sviðið væri fyrst og fremst á sviði orkuiðnaðar og þar hafa verið lögð drög að samstarfi íslenskra aðila við héraðsstjórn í Kína um uppbyggingu á hitaveitu á þeim slóðum.
    Fjórða sviðið gæti hugsanlega lotið að einstökum verkefnum varðandi mannvirkjagerð eða byggingar.
    Allt er þetta hins vegar á byggingarstigi og árangurinn mun mjög ráðast af því hvernig gengur að tryggja fjármögnun slíkra framkvæmda en Kínverjar eru í þeirri stöðu að fjármagnið streymir að úr öllum áttum, frá Hong Kong, frá Tævan, frá Japan, frá Suður-Kóreu, frá Singapore, frá Bandaríkjunum, frá Evrópusambandinu. Þannig að þeir eiga margra kosta völ og gera yfirleitt strangar kröfur um það að hinir erlendu aðilar leggi fjármagnið á borð með sér og tryggi það á góðum kjörum. Í því efni hljótum við Íslendingar eins og við höfum reyndar þegar gert í einu eða tveimur tilvikum að leita mjög til sameiginlegra fjárfestingarlánasjóða Norðurlanda, þ.e. til Norræna fjárfestingarsjóðsins og Norræna útflutningsábyrgðarsjóðsins.
    Ég tek undir það sem sagt hefur verið að EES-samningurinn, svo nauðsynlegur sem hann er, og lífsnauðsynlegur til að tryggja hagsmuni okkar á því markaðssvæði sem er okkur mikilvægast, útilokar að sjálfsögðu ekki að við höfum augun opin og leitum eftir að nýta þau tækifæri sem bjóðast á öðrum markaðssvæðum. Þess vegna er verið í alvöru að skoða fríverslunarsamninga við Bandaríkin/Kanada og þess vegna er verið að gera ráðstafanir til þess að styrkja stöðu okkar á mörkuðunum í Austurlöndum fjær.