Hæstaréttarhús

139. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:17:27 (6539)


[15:17]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda þá eru störf Hæstaréttar mjög svo í föstum skorðum og því ekki við því að búast að grundvallarumskipti verði á umfangi þeirra mikilvægu starfa sem Hæstiréttur hefur með höndum þó að málum sem til hans er skotið fjölgi. Þau sjónarmið sem liggja að baki ákvörðunum um það hvaða stærð þarf að vera á nýju húsi fyrir Hæstarétt eru fyrst og fremst þær tillögur sem réttarfarsnefnd hefur unnið að um endurskipulagningu dómstólakerfisins og eru að stærstum hluta til komnar til framkvæmda og þær tillögur sem hún hefur unnið að að undanförnu um endurskipulagningu á áfrýjunarmálum sem að hluta til líka eru komnar til framkvæmda í lögum sem samþykkt hafa verið nýlega frá Alþingi. Jafnframt þarfagreining þar sem dómarar Hæstaréttar ásamt sérfróðum mönnum hafa komið að.
    Það hús sem ráðgert er að reisa er vissulega þannig úr garði gert að þar er öllu í hóf stillt en felur í sér mjög verulega aukið rúm fyrir starfsemi Hæstaréttar og hægt að fullyrða án þess að nokkur vafi leiki þar á að þar er mjög vel séð fyrir framtíðarþörfum réttarins. Enginn af þeim sem gerst þekkja til starfa réttarins efast um að í þeim teikningum sem fyrir liggja er mjög vel séð fyrir því rými sem ætla verður Hæstarétti í náinni framtíð. Allar efasemdir og öll gagnrýni í aðra átt er ekki á rökum reist. Sú teikning sem fyrir liggur er af myndarlegu húsi sem hæfir mjög vel starfsemi réttarins, rúmar mjög vel störf hans, bæði eins og þau eru í dag og ætla má að þau verði í framtíðinni, en þar er hvergi um neitt óhóf að ræða eða rými sem er langt umfram þarfir.
    Að stefnumótun um þetta efni komu eðlilega fjölmargir aðilar undir stjórn byggingarnefndar hússins, dómarar Hæstaréttar, Framkvæmdasýsla ríkisins og embætti húsameistara þannig að mjög vandlega var gætt að þeim þörfum sem hér þarf að huga að. Ég ítreka það að þeir sem að þessum málum starfa, hæstaréttardómararnir sjálfir, töldu að hér lægi fyrir þarfagreining sem væri í mjög eðlilegu samhengi við störf og framtíðaráform um uppbyggingu réttarins og á þeim grundvelli voru ákvarðanir teknar.