Niðurgreiðslur á ull

139. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:32:31 (6545)


[15:32]
     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að bera fram fsp. á þskj. 980 til landbrh. um niðurgreiðslur á ull.
  ,,1. Hve miklum fjármunum hefur verið varið til niðurgreiðslna á ull hvert ár frá því að búvörusamningurinn var gerður 11. mars 1991?
    2. Hafa aðrir en bændur fengið einhvern hluta þeirra fjármuna sem farið hafa til niðurgreiðslna á ull og ef svo er hverjir og hve mikið?``
    Eins og menn rekur minni var búvörusamningurinn undirritaður í mars 1991 og í honum er ákvæði um niðurgreiðslur á ull. Í 5. gr. búvörusamningsins, lið 5.22, stendur, með leyfi forseta:
    ,,Niðurgreiðslur á ull verði hliðstæðar og verið hefur en tilhögun þeirra endurskoðuð.``
    Það er ástæða til þess að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort sú endurskoðun, sem segir að geti farið fram, hefur verið gerð og hver niðurstaðan af þeirri endurskoðun er. Það er líka ástæða til þess að spyrja hvort það hafi verið farið eftir VI. kafla samningsins þar sem talað er um endurskoðun í 10. gr., lið 1. Þar stendur: ,,Aðilar samnings þessa geta hvor um sig óskað eftir viðræðum um endurskoðun á einstökum atriðum hans.``
    Mig langar til að spyrja: Hefur þessi endurskoðun farið fram? Var samstaða um niðurstöðu ef það hafa orðið breytingar á framgangi við niðurgreiðslur á ull?
    Ég vona að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því hvers konar viðræður og hvers konar undirbúningur hefur farið fram um þessa endurskoðun, sem hljóta að liggja á bak við að það hafa orðið breytingar, eftir því sem ég best veit, á niðurgreiðslum.