Niðurgreiðslur á ull

139. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:38:24 (6547)


[15:38]
     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Af þessum síðustu orðum ráðherrans hlýt ég að ráða að þá fjármuni sem ætlaðir hafa verið til niðurgreiðslu á ull eigi að nota til niðurgreiðslna á gærum. Mér þykir ástæða til þess að fá það staðfest hjá hæstv. ráðherra að það hafi raunverulega breyst. Ég spyr: Er það ekki brot á 5. gr. búvörusamningsins þar sem það er sagt alveg skýrum stöfum að niðurgreiðslur á ull eigi að vera hliðstæðar og verið hafa en tilhögun þeirra verði endurskoðuð? Það er mikill munur á því hvort greiðslurnar fara til niðurgreiðslna á ull eða til afurðastöðvanna til niðurgreiðslna á gærum. Ég held a.m.k. að ekki séu allir bændur sáttir við þá tilhögun. Ef um það hefur orðið sátt verður það sjálfsagt upplýst af hæstv. ráðherra. En ég hef orðið var við það að sumir bændur a.m.k. eru ekki mjög ánægðir með framgang þessara mála. Það er full ástæða til að það komi skýrt fram með hvaða hætti á að standa að þessu og ef breytingar eru fyrirhugaðar að þær séu þá a.m.k. skýrar og klárar fyrir öllum sem eiga hlut að máli og ágreiningur verði jafnaður með einhverjum hætti.