Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 16:20:38 (6551)


[16:20]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hefði nú gjarnan viljað heyra fyrst viðbrögð við ræðu hv. 4. þm. Austurl. og undirtektir hæstv. samgrh. við hans máli. Ég held að það sé ekki neinum blöðum um það að fletta að þar er bent á atriði sem sannarlega er ástæða til að sé rækilega skoðað og yfirvegað, það er hvernig vegakerfið er flokkað. Þarna eru lagðar til allmiklar breytingar á því fyrirkomulagi sem fest hefur í sessi og verið við lýði um alllangan aldur. Nú skal ég ekki hafa neinar skoðanir uppi um það að ekki séu forsendur til að breyta því og að mörgu leyti breyttar aðstæður og áherslur geta kallað á slíkt þó að ég út af fyrir sig minnist þess nú ekki að hafa rekist á að þetta fyrirkomulag hafi sérstaklega þvælst fyrir mönnum. Hitt hefur verið kannski umdeilanlegra hversu mikla fjármuni menn hafa sett til framkvæmda á einstökum vegum miðað við þá flokkun sem í gildi hefur verið. En auðvitað verða engir peningar til með svona breyttri flokkun. Þess vegna skiptir öllu máli að hún sé skýr og skilmerkileg og þjóni vel þeim markmiðum sem menn vilja byggja á varðandi framkvæmdir og uppbyggingu að þessu leyti og starfrækslu vegakerfisins í landinu. Ég segi nú alveg eins og hv. 4. þm. Austurl. að ég hef ekki, hafandi þó fylgst með þessari umræðu og lesið í gegnum frv., ekki öðlast neina sterka sannfæringu fyrir því að menn hafi einmitt þarna fundið hina einu réttu leið í því að flokka vegakerfið upp með þeim hætti sem hér er gert í 8. gr. Reyndar finnst mér sumt af þessu orka mjög tvímælis, t.d. eins og það að fella fjallvegina niður sem slíka. Nú er það alveg ljóst að fjallvegaflokkurinn er alveg sérstakur flokkur vega. Um hann gegnir öðru máli en um flesta ef ekki alla aðra vegi, t.d. hvað opnunartíma snertir og þjónustu og annað því um líkt. Ég er ekki viss um að það sé endilega rökrétt eða skynsamlegt eða framför í því fólgin t.d. að setja, ef ég hef skilið rétt, undir sama hatt vegi niður í þjóðgörðunum og fjallvegina. En það er út af fyrir sig annað mál. Ég ætla ekki að bæta miklu við þá ítarlegu yfirferð sem hv. 4. þm. Austurl. fór varðandi þetta atriði og vísa til þess.
    Það sem varð þess valdandi að ég kvaddi mér sérstaklega hljóðs var að hér er komin fram brtt. við 3. umr. og henni fylgja þær skýringar að orðið hafi að samkomulagi við hæstv. samgrh. að skipa nefnd til að athuga með ákvæði girðingarkafla vegalaga eða ákvæði girðingarlaga og skila niðurstöðu í slíku starfi fyrir haustið. Með vísan til þess þá leggur samgn. til að gildistöku 56. gr. verði frestað og hún verði ekki fyrr en 1. jan. 1995. En lögin að öðru leyti gangi í gildi strax og hafi áhrif t.d. á flokkun vegakerfisins við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar.
    Nú er það svo að annað mál þessu tengt liggur hér fyrir þinginu þar sem er frv. sem undirritaður flytur ásamt fleiri og er um breytingu á lögum um búfjárhald og varðar það að tekið verði á lausagöngumálum og þeim árekstrum sem samskipti búpenings og umferðar valda og er þá í því tilviki eingöngu verið að taka á málum varðandi stórgripina. Þegar það mál var til umræðu var vísað af einhverjum hv. ræðumönnum, gott ef ekki hv. 3. þm. Austurl., í þetta tiltekna ákvæði vegalaga, þar sem verið væri að taka með vissum hætti eða a.m.k. í ákveðnum tilvikum á þeim vandamálum sem tengjast lausagöngu búfjár. Nú er það sem sagt niðurstaðan hér að fresta gildistöku þessa ákvæðis með vísan til þess að hæstv. samgrh. hyggst setja nefnd í málið. Og nú skal það tekið fram að ekki er ég að lasta það nema síður sé og sömuleiðis er það út af fyrir sig ekkert óskynsamlegt að fresta þá gildistöku þessa ákvæðis úr því að nefnd á að fara í þetta starf. En þar sem ekki hefur bólað á afgreiðslu á því frv. sem ég flutti og fyrir því

eru út af fyrir sig líka þær ástæður sem mér hefur verið tjáð að ekki er samstaða um að afgreiða málið eins og það kemur þar fyrir og e.t.v. skynsamlegra að bíða þá með það atriði líka, þá vil ég nota þetta tækifæri og vona að mér fyrirgefist það og að það falli innan dagskrár af því að hér eru á ferðinni auðvitað svo náskyldir hlutir þar sem er annars vegar lausagöngu- eða vörsluákvæði laga um búfjárhald og hins vegar ákvæði vegalaga og girðingarlaga hins vegar að fara þá fram á það allra vinsamlegast að í þessu nefndarstarfi þá verði jafnframt þau atriði sem frv. til laga um breytingu á lögum um búfjárhald sem fyrir þinginu liggur tekin til skoðunar. Er ég þá sérstaklega að vísa til vörsluákvæða eða lausagönguákvæða eftir atvikum sem tengjast stórgripunum. Ég held að það geti verið á sínum stað að setja sérstök ákvæði sem taki til þeirra vegsvæða þar sem heldar girðingar eru báðum megin vegar. Þá er í raun verið að segja þar sem vegsvæði er lokað því það hlýtur þá að vera jafnframt lokað í endana því annars hefur það engan tilgang að setja þar ákvæði um bann við lausagöngu. Þar sem er um lokuð vegsvæði að ræða sem eru með ristarhliðum eða hliðum afmörkuð í endana og girt beggja vegna vegar að þar gangi þessi skipan í gildi. En þá er náttúrlega eftir stærstur hluti landsins eins og við vitum þar sem ekki er til að dreifa girðingum beggja vegna eða jafnvel alls engum girðingum. Þá vaknar sú spurning: Hvað með þau svæði, hvernig ætla menn þar að taka á málunum? Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að taka á þessum málum heildstætt. Og sérstaklega brýnt að ná utan um þann afmarkaða hluta þessa vandamáls sem er lausaganga stórgripa sem enn tíðkast á fáeinum svæðum, fáeinum stöðum við umferðarmikla þjóðvegi. Sem betur fer er það orðið svo að það eru að verða undantekningar frá hinni almennu reglu, að allir stórgripir séu í vörslu, en þær undantekningar eru því miður dýrar. Þær valda slysum og jafnvel alvarlegum slysum og tjóni á hverju ári svo nemur jafnvel tugum tilvika á hverju ári.
    Mér er auðvitað alveg ljóst að á þessu máli eru margar og vandasamar hliðar og það kemur til að mynda inn á bótahlið málanna og hver ber ábyrgð á því ef tjón verður hvaða áhrif lausagöngubann kemur til með að hafa á bótaréttinn eða skylduna. Nýlegur dómur í tilteknu máli hefur vissulega valdið mönnum nokkurri umhugsun í því efni hvaða afleiðingar það gæti haft að fyrirskipa vörslu jafnvel þótt það sé gert á grundvelli reglugerðar sveitarfélags en ekki með landslögum. Þannig að sjálfsagt er nauðsynlegt að skoða einnig þá hlið málsins og ná þar einhverju skynsamlegu landi eða samkomulagi þó að ég hafi nú hneigst að þeirri skoðun sem lögfræðileg álit lágu fyrir um á sínum tíma þegar þessi mál voru í athugun í nefnd að núgildandi heimildir tryggingalaga til að skipta tjóni væru í sjálfu sér fullnægjandi til þess að mynda réttar reglur í þessu sambandi. Þá er auðvitað best að frá þessum málum sé tryggilega gengið. En aðalerindi mitt hingað, hæstv. forseti, er að beina þessum eindregnu tilmælum til samgrh., sem vill nú svo vel til að er jafnframt landbrh. ef svo má að orði komast í þessu tilviki, það er alla vega staðreynd að hæstv. ráðherra gegnir báðum þessum embættum og ber þá vel í veiði eins og reyndar gerði áður að það ætti að vera frekar en ekki sæmilegar aðstæður til að taka þá heildstætt á málinu því það er auðvitað augljóst mál að þetta er mikið samskiptamál, landbúnaðarins annars vegar og umferðar og samgangna hins vegar. Það er afar slæmt að mínu mati að hafa þessi mál í því horfi áfram sem þau eru. Þessi núningur, þessir árekstrar valda leiðindum og tjóni og á því þarf að taka.
    Ég held að það sé líka og ég segi það sem þingmaður af landsbyggðinni, sem ber líka hagsmuni landbúnaðarins í þessu efni fyrir brjósti, að ég held að það sé líka nauðsynlegt að taka á þessum málum sem upp úr standa og tengjast stórgripunum til þess að kveða niður fullkomlega óraunsæjar og ástæðulausar hugmyndir sem jafnvel bryddar á um að fyrirskipa eigi vörslu á öllum búpeningi landsmanna alls staðar á landinu sem er auðvitað í raun og veru fjarstæða að tala um. Það er auðvitað ekki nokkur minnsta ástæða til þess að setja þar allt undir sama hatt, lausagöngu stórgripa við umferðarmestu þjóðvegi landsins, kannski út frá höfuðborginni eða öðrum slíkum stöðum annars vegar og t.d. lausagöngu sauðfjár í Árneshreppi á Ströndum hins vegar. Það er auðvitað himinn og haf þar á milli eða alla vega mikið af fjöllum og hundruð kílómetra. Ég er einmitt að hugsa um að menn reyni að finna skynsamlega sátt milli þessara að nokkru leyti ólíku hagsmuna, sem eru landnýtingin í þágu landbúnaðarins og hins vegar hagsmunir umferðarinnar og umferðaröryggisins, og brýna hæstv. samgrh. á því að þegar nefndin tekur til starfa sem vonandi verður sem fyrst að þá fái hún mjög vítt verksvið og hún geti tekið öll þessi mál fyrir og reynt að taka á þeim á öllum vígstöðvum samtímis og að mönnun hennar verði þá, án þess að ég ætli að fara að leggja hæstv. ráðherra lífsreglur í því sambandi þá vil ég eindregið mæla með því að mönnun hennar verði þannig úr garði gerð að í henni verði fulltrúar allra þessara sjónarmiða eða menn bærir til þess að gæta þeirra og jafnvel þess vegna tryggingarsérfræðingar eða aðrir slíkir settir til starfa í nefndinni eða með henni til að það sé hægt að ná utan um þann þátt líka. Þetta mál er búið að vera að vandræðast og velkjast fyrir mönnum um margra ára skeið. Það var það í minni tíð og það náðist því miður ekki niðurstaða í það, m.a. vegna þess að það var ekki full samstaða um meðferð málsins hér á þingi. Búnaðarþing hefur haft þetta til umfjöllunar á hverju einasta þingi svo lengi sem ég man og hef fylgst þar með störfum og þetta hefur verið til umfjöllunar hjá Stéttarsambandinu, á vettvangi Umferðarráðs, Bílgreinasambandsins og hvað það nú heitir allt saman. Þannig að það er veruleg þörf á því að ná utan um þessi mál. Og það er á sínum stað að taka á því hér og nú í tengslum við umræðu um vegalög því auðvitað skiptir það miklu máli í sambandi við umferðina og umferðaröryggið og vegina hvernig um þessi mál er búið. Þetta var nú mitt erindi, hæstv. forseti, einkum og sér í lagi item það að ég vildi gjarnan fá að heyra viðbrögð hæstv. samgrh. við því að litið verði aftur yfir 8. gr. frv., ef það mætti verða til að skýra og eftir atvikum jafnvel í einhverjum tilvikum breyta þeirri flokkun sem þar er upp sett sem virðist ekki einhlít.