Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 16:45:43 (6556)


[16:45]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér fyrst og fremst upp vegna athugasemda hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og get upplýst hann um það að í 1. umr. um þetta mál hafði ég einmitt mjög mikið að athuga við allar þessar breytingar á nöfnum á vegaflokkunum. Við ræddum þetta auðvitað allmikið í samgn., hvort við ættum að sætta okkur við þessi nöfn og það segir í athugasemdum með frv. að þessi þrjú fyrstu nöfn, stofnvegir, tengivegir og safnvegir, séu hliðstæð því sem er notað í skipulagslögum og skipulagsreglugerð. Þannig að út af fyrir sig yrði þá að taka til við frekari breytingar ef við ekki mundum sætta okkur við þessar breytingar. Stofnvegir eru, eins og hann gat um áðan, nánast það sama og áður voru stofnbrautir. Hins vegar getur það ruglað menn dálítið hvaða vegir það eru sem falla undir skilgreiningu tengivegir og safnvegir en ég veit að hv. þm. hefur skoðað fskj. I þar sem flokkun veganna er sýnd og hvernig það mundi breytast miðað við það sem er í gildandi lögum.
    Hv. þm. hafði einnig athugasemdir um landsvegina. Það er reyndar ekki nefnt í skipulagsreglugerðum en út af fyrir sig er það nafn sem ég gat einna best sætt mig við, þ.e. að landsvegir væru það sama og aðalfjallvegir og aðrir fjallvegir og einnig þjóðgarðavegir og vegir að fjölsóttum ferðamannastöðum. Mín skoðun er sú að landsvegir sé ágætt hugtak yfir það.
    Það sem hann hafði að athuga við 52. gr. þá tel ég að hún svari því alveg að Vegagerðin geti lokað vegum ef svo ber við og hefur gert það þar sem ég þekki til og einnig er það á verksviði almannavarnarnefnda að skoða þau mál. Ég held að það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því máli.
    Að öðru leyti, eins og hér hefur komið fram, þá stendur nefndin að þessu nál. en hins ber að geta að nánari flokkun á þessum vegum mun í raun og veru ekki fara fram fyrr en með vegáætlun sem verður lögð fram á næsta þingi og þá verður það Alþingis að ákveða hvernig flokkunin verður, þ.e. hvernig skráin verður um stofnvegi, tengivegi og alla þessa vegi. Það kemur aftur inn í haust nánari skilgreining

á þessum vegum við gerð vegáætlunar og það er auðvitað það sem skiptir meginmáli. Þannig að ég held að við þurfum að vera mjög vakandi fyrir því á haustdögum hvernig sú skilgreining mun líta út sem ætlað er í flokkun samkvæmt vegáætlun og þá hvaða fjármagn fer til viðkomandi flokka, hvort verulegar breytingar verða þá á skiptingu fjármagns til þessara flokka eða ekki. Það tel ég að við þurfum öll að vera mjög vakandi fyrir.