Lífeyrissjóður sjómanna

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 17:31:10 (6568)


[17:31]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get varla orða bundist því að hv. þm. kemur hér upp og kvartar undan geðvonsku minni og segir að ég vilji túlka lög öðruvísi en hann o.s.frv. Ég vil eingöngu segja hv. þm. það og þingheimi að ég féllst á það og taldi að ég hefði komið verulega til móts við sjónarmið þingmannsins þegar ég sagði að eðlilegt væri að nefndin tæki málið upp og ræddi málið í sinn hóp aftur. Og ef það kallast geðvonska og dónaskapur þá held ég nú að hv. þm. eigi einhverju öðru að venjast en ég hélt.