Lyfjalög

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 13:51:30 (6589)

[13:51]
     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Í nál. á þskj. 961 er gerð rækileg grein fyrir brtt. sem einnig liggja hér frammi af hálfu meiri hluta heilbr.- og trn. við frv. til lyfjalaga. Þetta mál var fyrst lagt fram á síðasta þingi. Að vísu var fyrst tekið til við undirbúning málsins, ef ég man rétt, í ágústmánuði árið 1991 og má heita að þetta mál hafi verið í vinnslu og undirbúningi allt fram að þessu.
    Hv. heilbr.- og trn. hefur lagt mikla vinnu í þetta mál á yfirstandandi þingi. Mig langar að nota tækifærið og þakka öllum hv. þm. í heilbr.- og trn. fyrir gott starf að málinu. Það var nokkuð ljóst strax við 1. umr. málsins að um það mundi verða nokkur ágreiningur. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir væru í nefndinni um ýmis grundvallaratriði málsins lögðu allir hv. nefndarmenn sig fram um að vinna málinu allt það gagn sem kostur var á. Ég vil sérstaklega þakka öll þau störf sem hafa skilað málinu hingað til 2. umr. þó einnig liggi hér til umræðu nál. frá minni hluta nefndarinnar.
    Á fund nefndarinnar komu fjölmargir umsagnaraðilar sem fóru með nefndinni nákvæmlega yfir efnisatriði frv. og einnig var frv. sent til umsagnar til fjölmargra aðila. Ég tel ekki ástæðu til að rekja nákvæmlega efni allra þeirra brtt. sem hér liggja fyrir. Það er gerð nákvæm grein fyrir þeim í nál. á þskj. 961. En það má segja að brtt. og nál. vitna um alla þá miklu vinnu sem hv. heilbr.- og trn. lagði í málið þannig að það hefur tekið mjög miklum breytingum frá því að það var fyrst lagt fram og það hefur einnig tekið miklum breytingum frá því að það var lagt fram á yfirstandandi þingi.
    Meginmarkmiðin með þessu frv. eru nokkur.
    Í fyrsta lagi er um það að ræða að samræma reglur við Evrópska efnahagssvæðið er fela það í sér að skilið verði á milli skráningar lyfja annars vegar og markaðsleyfa þeirra hins vegar. Nýjar reglur um skráningar og markaðsleyfi hafa m.a. í för með sér að um samhliða innflutning lyfja munu gilda sömu reglur og nú eru innan EB. Hér er um að ræða lyf sem þegar eru skráð og þekkt hér á landi en kunna að vera framleidd á öðrum stað en tilgreint er í skráningargögnum og fyrir annan markað. Bundnar eru miklar vonir við að samhliða innflutningur lyfja muni lækka lyfjaverð í landinu og væri það mikið framfararspor ef sú yrði reynslan.
    Í öðru lagi er eitt markmið frv. það að auka frelsi til að setja á stofn lyfjabúðir. Gert er ráð fyrir að ekki þurfi lengur forsetaleyfi til lyfsölu og ýmsar aðrar reglur um stofnun apóteka verði rýmkaðar. Nefndin gerir þó hér eina mjög veigamikla tillögu til breytingar frá því er fram kom í frv. er varðar stofnun lyfjabúða. Sú breyting felst í því að áður en ráðherra gefur út leyfi til stofnunar lyfjabúðar þá skuli fyrst leitað umsagnar sveitarstjórnar áður en lyfsöluleyfi er veitt og það skuli einnig stuðst við íbúafjölda að baki lyfjabúð og fjarlægð hennar frá næstu lyfjabúð. Breytingunni er ætlað að koma í veg fyrir að rekstrargrundvelli apóteka í dreifbýli verði stefnt í hættu eins og hagsmunaaðilar óttast að óbreyttu frv. Meiri hluti nefndarinnar telur afar mikilvægt að tryggð sé örugg lyfjadreifing um land allt.
    Í þriðja lagi er aukið frelsi í verðlagningu lyfja. Verðlagning lausasölulyfja verður gefin frjáls en hámarksverð sett á lyfseðilsskyld lyf bæði í smásölu og heildsölu. Þá er einnig gert ráð fyrir því að breytingar verði gerðar á reglum um auglýsingar lyfja þar sem heimilt verði að auglýsa lausasölulyf í samræmi við reglur sem munu gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Það kom fram í þeirri vinnu sem hv. heilbr.- og trn. lagði af mörkum að nokkurs ótta gætti um það að verð á lyfjum mundi jafnvel hækka á landsbyggðinni. Það er ekkert í þessu frv. né í þeim brtt. sem kann að miða að slíku, þvert á móti eru miklar vonir bundnar við það að þær breytingar sem hér er verið að mæla fyrir megi líka leiða til lækkunar á lyfjaverði á landsbyggðinni. Það sem tryggir það að lyfjaverð m.a. muni ekki hækka á landsbyggðinni er það að hámarksverð á lyfjum verði ákveðið af lyfjaverðsnefnd í smásölu og einnig í heildsölu. Það er breyting frá því sem í frv. stendur en ekki var gert ráð fyrir hámarksverði í heildsölunni. Það er því mjög raunhæft að gera sér vonir um að sá árangur sem næst með samhliða innflutningi skili sér í lækkun lyfjaverðs á landsbyggðinni líka.
    Þá hefur einnig borið á því að nokkurs ótta gæti um að hér sé verið að slaka á öryggiskröfum í sambandi við sölu og meðferð lyfja. Það er ekkert í frv. né í brtt. sem miðar að slíku. Þvert á móti mætti benda á dæmi þess efnis að hér sé verið að herða öryggi og eftirlit með dreifingu og sölu lyfja. Það er heldur ekki verið að gera tillögur um það að breyta um skipulag sölu á lyfjum á landsbyggðinni þar sem t.d. ekki verður óskað eftir því að sett verði á fót lyfjabúð. Þar er gert ráð fyrir því eins og verið hefur allt til þessa að ráðherra sé heimilt að fela heilsugæslustöð að sjá um lyfjasölu eins og tíðkast svo víða um land núna. Hér er því ekki verið að gera tillögur um breytingar á þeirri skipan ef ekki verður sótt um að setja lyfjabúð á stofn á viðkomandi stað.
    Það má einnig binda vonir við að það frv. og brtt. sem hér eru til umræðu efli og auki þjónustu varðandi dreifingu og sölu lyfja gagnvart neytandanum. Hér er ég ekki að gagnrýna að þar hafi skort mikið á. Þvert á móti. Aðgengi fólks að lyfsölum hefur verið bærilegt fram að þessu en lengi má gott bæta og er að finna allmörg ákvæði í þessu frv. er styrkja það að þjónustan megi eflast og styrkjast.
    Það hefur verið lögð áhersla á það að taka tillit til umsagna eins og frekast er kostur. Hér eru sannarlega miklir hagsmunir í húfi, ekki einvörðungu fyrir ríkissjóð, sem er í raun og veru stærsti kaupandi lyfja þegar á heildina er litið þar sem hann greiðir allt að 70% af lyfjaverði, hér er um mikla hagsmuni að ræða fyrir neytendur sem felast í því að fá lyf afgreidd á sem lægstu verði. Og síðast en ekki síst er hér um mikla hagsmuni að ræða fyrir þá sem að sölu lyfjanna standa, að það verði búið að þeirri starfsemi eins og best verður á kosið.
    Virðulegi forseti. Að lokinni 2. umr. legg ég til að málinu verði vísað til 3. umr.