Rannsóknarráð Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 17:11:45 (6601)


[17:11]
     Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1031 og brtt. á þskj. 1032 um frv. til laga um Vísinda- og tækniráð Íslands frá menntmn.
    Nefndin hefur fjallað um frv. sem kveður á um stofnun Vísinda- og tækniráðs Íslands. Ráðið mun taka við starfsemi Vísindaráðs og Rannsóknarráðs ríkisins en því er einnig ætlað aukið hlutverk í því að fylgjast með framvindu í vísinda- og tæknistarfi, meta árangur rannsóknarstarfs, leita leiða til þess að efla rannsóknarstarfsemi í landinu og efla alþjóðlegt samstarf.
    Frv. hefur fengið vandlega umfjöllun í menntmn. Bæði komu fjölmargir aðilar sem málið varðar á fund nefndarinnar og einnig bárust nefndinni ítarlegar umsagnir um frv.
    Nefndin telur að lögfesting frv. ýti undir nýsköpun hér á landi og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Ég mun nú fara nokkrum orðum um þessar breytingar.
    1. Lagt er til að nafni ráðsins verði breytt úr ,,Vísinda- og tækniráð Íslands`` í ,,Rannsóknarráð Íslands``. Nefndin telur að heiti það sem frv. gerir ráð fyrir sé langt og óþjált og óvíst hvort það yrði notað í daglegu tali. Heitið ,,Rannsóknarráð Íslands`` lýsir vel fyrirhugaðri starfsemi hins nýja ráðs.
    2. Með breytingunni sem lögð er til á 2. gr. er kveðið skýrar á um að nýsköpun sé eitt af meginhlutverkum Rannsóknarráðs Íslands.
    3. Lagt er til að 3. gr. verði breytt með tvennum hætti. Annars vegar varðandi orðalag og síðan er lögð til breyting sem ætlað er að tryggja að sjónarmið atvinnulífs komi fram í ráðinu. Nefndin telur mikilvægt að í frv. sé þannig skýrt kveðið á um aðild atvinnulífsins svo að auka megi þátt fyrirtækja í rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Þannig telur nefndin að unnt verði með markvissum hætti að byggja upp þekkingu innan fyrirtækja.
    4. Lögð er til breyting á skilgreiningu hlutverks Tæknisjóðs sem kveðið er á um í 11. gr. þannig að það taki ekki einungis til nýsköpunar, heldur ekki síður til þróunar.
    5. Lögð er til sú breyting á 16. gr. að kveðið verði á að Rannsóknarráð Íslands sjái um rekstur Rannsóknarnámssjóðs í umboði stjórnar hans.
    6. Breyting, sem lögð er til á 22. gr., felur í sér að skýrt verði kveðið á um hverjir geti átt frumkvæði að tilnefningu í stöður rannsóknarprófessora. Jafnframt er lagt til að tryggt verði að í slíkar stöður verði einungis skipaðir þeir sem hlotið hafa alþjóðlega viðurkenningu fyrir rannsóknarstörf og að sérstök dómnefnd meti hæfni þeirra. Nefndin telur þetta ákvæði þýðingarmikið þar sem það mun t.d. veita fleiri tækifæri til að kalla til starfa hingað til lands reynda og hæfileikaríka Íslendinga sem hafa fest rætur erlendis.
    Við umfjöllun um málið í menntmn. komu fram þau sjónarmið að úthlutunarkerfi það, sem frv. gerir ráð fyrir, væri flókið. Nefndin telur að vel athuguðu máli að rétt sé að láta reynslu skera úr um hvort svo sé.
    Þá vill nefndin taka fram að hún telur mikilvægt að Alþingi fái upplýsingar um starfsemi ráðsins eins og kveðið er á um í 11. tölul. 2. gr. frv., þar með talið um tillögur ráðsins um framlög úr ríkissjóði til vísinda- og tæknimála.
    Ég vík nú nánar að nokkrum atriðum sem mjög voru til umræðu í menntmn. Þá vil ég sérstaklega nefna 3. gr. frv. sem fjallar um skipun í ráðið. Fram hefur komið, bæði við 1. umr. um frv. og einnig í nefndarvinnunni, sú gagnrýni að það kerfi sem lagt er til að lögfesta sé óþarflega flókið. Ég tel hins vegar að sú aðferð sem gert er ráð fyrir, þ.e. að fleiri aðilar séu tilnefndir en þeir níu sem þar skulu sitja gefi svigrúm til þess að skipa í ráðið á þann veg að sem flest sjónarmið eigi þar málsvara og finnst raunar einnig mikilvægt að í ráðið veljist jafnan sem hæfastir einstaklingar á sem flestum sviðum. Einnig mætti ætla að það gæti orðið eftirsóknarefni að sitja í ráðinu sem einnig er veigamikið atriði.
    Sú skylda er lögð á ráðherra að gæta þess við val á fulltrúum að jafnvægi sé á milli vísinda og tækni og að þess sé gætt að sjónarmið atvinnulífsins komi fram í ráðinu. Ég vona að þessi aðferð gefi góða raun og bind raunar heilmiklar vonir við það.
    Einnig geri ég að umtalsefni úthlutunarkerfið sem á sama hátt hefur hlotið töluverða gagnrýni. Mér sýnist hins vegar að það kerfi sé ekki eins flókið og virðast kann við fyrstu sýn heldur er full ástæða til að ætla að það fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í frv. gæti leitt til skilvirkari vinnu á þessu sviði en hingað til hefur tíðkast. Það er a.m.k. trú þeirrar er hér talar.
    Frv. sem er til umræðu felur í sér viðamiklar breytingar á skipan og stjórnun rannsókna og þróunar á Íslandi. Frv. er lagt fram í framhaldi af stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í tækni og vísindum og tekur einnig mið af nýlegri úttekt OECD á stöðu þessara mála hér á landi. Í inngangi að greinargerð með vísindastefnu ríkisstjórnarinnar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Tilgangur með vísinda- og tæknistefnu stjórnvalda er að stuðla að því að unnið sé að þeim rannsóknum sem Íslendingar hafa forsendu til að stunda og þurfa á að halda. Ekki er síður brýnt að tryggja,

svo sem kostur er, að vel sé að verki staðið í öflun þekkingar og niðurstöður nýtist til skilnings á því hvað það er að vera Íslendingur í heimi hraðfara tæknibreytinga. Þannig nýtast rannsóknir vísindamanna til framfara í atvinnulífi og skilningur okkar eykst á umhverfi okkar, uppruna, arfleifð og vannýttum auðlindum. Stefnunni er ætlað að skapa skilyrði til þessarar mikilvægu starfsemi, leggja áherslur, beina fjármagni til hennar og tryggja að ávallt veljist hæft rannsóknarfólk til starfa. Tryggja verður að nægu opinberu fjármagni sem og framlögum frá atvinnulífi og öðrum sé varið til vísinda- og tæknistarfsemi. Ekki skal þó einungis horft til þess hve miklu fjármagni og mannafla er varið til starfseminnar heldur og til þess árangurs sem næst með þessum fjárfestingum. Mikilvægt er að tryggja að skattpeningar til þessa málaflokks nýtist ekki einungis til þekkingarauka heldur einnig til þess að renna fleiri stoðum undir efnahagslífið, styrkja það atvinnulíf sem fyrir er til nýrrar sóknar og skapa störf til framtíðar. Slíkt er engan veginn auðvelt og því nauðsynlegt að atvinnulíf og opinberir aðilar taki höndum saman og vinni að málinu með skipulegum hætti.``
    Undir þetta vil ég heils hugar taka og tel að með þessu frv., ef að lögum verður, sé stigið stórt skref fram á veg til eflingar vísindastarfi, tækniþróun og nýsköpun á Íslandi.