Rannsóknarráð Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 17:23:48 (6603)


[17:23]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil bara láta það koma fram hvaða ástæður eru til þess að ég skrifa undir nál. með fyrirvara en þær eru aðallega tvær. Það er í fyrsta lagi að ég tel að í frv. felist í sjálfu sér ekki sú breyting á rannsóknar- og þróunarstarfsemi á Íslandi sem hefði þurft að eiga sér stað og gerist bara með auknum fjármunum. Í þessu frv. eru engir peningar fyrir rannsóknarstarfsemina í landinu. Í öðru lagi er svo það að ég tel það úthlutunarkerfi, sem hér er gerð tillaga um, óþarflega flókið og dreg í efa að það muni skila þeim árangri sem menn eru að gera sér vonir um.
    Varðandi brtt. nefndarinnar að öðru leyti þá stend ég að þeim. Ég tel að þær séu allar til bóta. Ég er feginn því að nafninu var breytt. Þó ég hefði getað hugsað mér að stofnunin héti Vísindaráð þá tel ég að þetta sé út af fyrir sig nokkuð góð lending og betra en að kalla þetta Vísinda- og tækniráð. Það er allt of tæknilegur svipur á því og má ekki of mikið gera í þá veru. Það þarf að vera hóf á því eins og öðru. Sérstaklega þegar búið er að tína atvinnuvegina svona mikið inn í þetta eins og gert er í brtt. þá þarf að vera dálítill ,,balans`` á því og má ekki láta það ráða allt of miklu um vísinda- og rannsóknarstarfsemi í landinu. Það á að vera skynsemi í því og það, sem hver étur upp eftir öðrum að manni finnst, með leyfi forseta, að atvinnulífið eigi einlægt að koma við sögu í þessum málum tel ég fínt, sérstaklega ef það lætur einhverja peninga í þetta, en það hefur staðið á því. Ég tel að þau hraðfara augnablikssjónarmið sem ráða rekstri fyrirtækja frá degi til dags þar sem er erfitt að koma við langtímasjónarmiðum megi ekki ráða allt

of miklu en öll vísindi og allar rannsóknir byggjast á því að menn sjái a.m.k. fram fyrir tærnar á sér.
    Ég tek einnig fram, hæstv. forseti, að ég tel til bóta þá breytingu sem gerð er á 16. gr. sérstaklega. Hún skiptir mig máli þar sem er kveðið á um að Rannsóknarráð ríkisins eigi að sjá um rekstur Rannsóknarnámssjóðs í umboði stjórnar sjóðsins, sbr. 23. gr. Ég tel þetta mikla framför vegna þess að ég tel að Rannsóknarnámssjóður hafi svifið nokkuð í lausu lofti eins og gert var ráð fyrir að búa um hnútana í frv. í upphafi.
    Ég vil einnig fagna sérstaklega þeim breytingum sem hafa verið gerðar á 22. gr. vegna þess að þar er um að ræða mjög mikilvægar breytingar. Því er slegið föstu að þeir prófessorar sem ráðnir verða í tímabundnar rannsóknarstöður verði ráðnir í samráði við mennta- og rannsóknarstofnanir í fyrsta lagi og í öðru lagi að það þurfi að koma tillögur um það mál frá mennta- og rannsóknarstofnunum og í þriðja lagi að í stöðurnar skuli einungis ráða þá sem hlotið hafa viðurkenningu á alþjóðlegum vettvangi fyrir rannsóknarstörf og í fjórða lagi að sérstök dómnefnd skuli meta hæfi umsækjenda. Ég tel að hér sé ágætlega og faglega um hlutina búið og er þess vegna sérstaklega sáttur við þessa brtt. og tel ástæðu til að undirstrika það í máli mínu.
    Varðandi síðan frv. að öðru leyti vil ég aðeins víkja að 25. gr. þess sem hefur ekki verið rædd mikið, en hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Lög þessi skal endurskoða innan fimm ára frá gildistöku þeirra.`` Þeir sem hér eru inni þekkja flestir eða allir slík ákvæði. Það hefur komið upp þegar þau hafa runnið sitt skeið á enda að menn velta því fyrir sér hvað þessi ákvæði þýða. Þýða þau að það eigi að leggja frv. fyrir Alþingi? Þýða þau að það eigi að endurskoða lögin í Rannsóknarráði Íslands og það sé nóg að drög að frv. séu send til menntmrn. til skoðunar? Þýða þau að það sé nóg að menntmrn. endurskoði plaggið? Eða þýða þau að Alþingi verði að fá hingað inn frv. til nýrra laga eða endurskoðunar á lögum eða yfirlýsingu um að ekki sé þörf á að endurskoða gildandi lög að því er þessa hluti varðar?
    Ég vil láta það koma fram að ég lít þannig á að innan fimm ára frá gildistöku þessara laga, ef þetta frv. verður að lögum, eigi að meta það hvort nauðsynlegt sé að breyta lögunum og að niðurstaðan af því mati þurfi með einhverjum hætti að koma fyrir Alþingi þó ekki væri nema t.d. í formi og í tengslum við skýrslu sem gert er ráð fyrir í tölulið 11 í 2. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Skila árlega skýrslu til menntmrh. um stöðu og horfur í vísinda- og tæknimálum í landinu. Skýrslan skal lögð fyrir Alþingi, ásamt greinargerð menntmrh., til kynningar og umfjöllunar.``
    Ég lít sem sagt þannig á að sú vitneskja sem ráðuneytið ætti að komast að í þessum málum hljóti að berast til Alþingis í gegnum þessa skýrslu og ég tel að frumkvæðisskyldan í þessu efni hljóti að vera í menntmrn.
    Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál. Þetta var unnið í ágætri sátt og ágætu samkomulagi í hv. menntmn. þar sem þróaðist í tengslum við þetta mál og frv. um þjóðarbókhlöðu, ágætur og sanngjarn vilji til þess að lenda málum með hliðsjón af helstu sjónarmiðum sem uppi eru. Það met ég mikils og tel að það sé gott að vinna þannig, einmitt að málum af þessum toga því að þessi málefnalitla kergja sem stundum einkennir störf nefnda að málum kann ekki góðri lukku að stýra, a.m.k. ekki þegar menn eru að fjalla um Rannsóknarráð Íslands.