Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:30:03 (6621)


[00:30]
     Guðni Ágústsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Kárnar nú gamanið, vaknaður er hv. þm. Geir Haarde, eini þingmaður Sjálfstfl. í þessum sal að þessu sinni ( Gripið fram í: Þú gleymir forseta.) og sýnist mér --- ja, forseti sinnir öðrum skyldum --- að sá sé hér kominn til þess að reyna að pína menn áfram til vinnunnar.
    Ég vil nú minna hv. þm. Gunnlaug Stefánsson á það að þegar drottinn allsherjar skóp himin og jörð, fuglana og mennina, þá var þetta sköpunarverk mjög merkilegt og hann ákvað að hafa dag og sólin skyldi skína og menn skyldu vinna á þeim tíma. Síðan setti hann á nóttina og ákvað að þá skyldu menn hvílast. Og nú er nákvæmlega sá tími upp runninn að flestir í þessu landi hafa gengið til rekkjunnar og eiga draumfarir allgóðar. Þess vegna þykir mér við hæfi að eftir að hæstv. heilbrrh. hefur einnig tekið rökum þá verði hér settur punkturinn aftan við i-ið og við göngum heim. Því eins og ég sagði áðan finnst mér ástæðulaust þegar menn hafa tekið rökum að halda áfram að þvæla yfir þeim. Mér finnst miklu nær að hæstv. heilbrrh. fari heim og sofi á þeim sinnaskiptum sem hann nú hefur tekið eftir hina ágætu ræðu sína og við sjáum við dagsbirtu morgunsins hvort hann verður ekki enn á þeirri skoðun að breyta beri frv. og koma því í það horf eins og hans góða ræða hér áðan var.