Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 01:50:34 (6640)


[01:50]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Með því frv. sem hér er til umræðu er verið að setja lyfjaverslun í landinu að mestu leyti undir lögmál almennrar verslunar og undir þeim formerkjum að það leiði til lækkunar lyfjaverðs og að það sé verið að berja hér á vondum lyfsölum og apótekurum og þeir sem gagnrýna þetta frv. séu í vörn fyrir þessa slæmu menn.
    Það sem ég hef mestar áhyggjur af í þessu frv. er að það verði til þess í fyrsta lagi að auka aðstöðumun fólks í landinu og í öðru lagi að auka lyfjanotkun fólks í landinu. Ég vildi fara örfáum orðum um þessa tvo þætti en það hefur komið fram og leidd að því rök í umræðu í dag að samþykkt þessa frv. geti orðið til þess að lyf verði dýrari á smæstu stöðunum úti á landi og það verði hörkusamkeppni í lausasölulyfjum, m.a. hér í mesta þéttbýlinu, og mikil auglýsingastarfsemi í þeim lyfjum. Það er nú svo að lögmál verslunarinnar eru þannig að menn reyna að bæta sér upp lágt verð með því að auka veltuna. Það er ósköp einfalt mál. Þannig að það er mikil hætta á því að þetta frv. geri þetta tvennt.
    Það er eðlilegt að þingmenn hafi áhyggjur af byggðaþættinum í málinu, aðstöðumun hjá fólkinu í landinu og þetta bætist við langan afrekalista ríkisstjórnarinnar á þessu sviði ef þetta frv. verður samþykkt. Það hefur verið samþykkt vörugjald, það eru áform um að olía kosti mismunandi mikið í landinu og hv. 5. þm. Austurl. hefur tekið upp harða baráttu gegn því og vill að olían kosti það sama alls staðar og skil ég ekki þá hörðu baráttu hans hér fyrir misjöfnu lyfjaverði. Það var reynt að leggja virðisaukaskatt á flugfargjöld núna fyrir jólin en það var reyndar horfið frá því vegna harðrar baráttu stjórnarandstöðunnar. Það eru veður öll válynd varðandi flutninga út á landsbyggðina og allar líkur á því að þeir stórhækki í kjölfar þeirra aðgerða sem gerðar hafa verið. Þetta er mynd þessa máls og þessi lyfjalög eru bara einn þátturinn í því að auka aðstöðumun fólksins í landinu og ég skil náttúrlega ekki hvað það er lögð mikil höfuðáhersla á þetta og að reyna að keyra þetta í gegn hér á næturfundum þó það hafi verið fallist á það að semja um þinglok í nótt. Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið frekar. Ég get notað rétt minn þegar umræðunni miðar fram til að taka til máls og þannig að freista þess að málflutningur minn nái þá til eyrna fleiri þingmanna þó séu þungavigtarmenn og konur viðstaddar.