Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 02:00:07 (6643)


[02:00]
     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Varðandi það álit sem hv. þm. Jón Kristjánsson vitnaði til frá heilbrigðisráði Austurlands þá er þetta ekki álit á frv. samhliða þeim brtt. sem hér liggja fyrir heldur á frv. eins og það lá fyrir þegar það var kynnt. En ég undraðist það mjög mikið að hv. þm. Jón Kristjánsson mundi ekki fagna því ef lyfjaverð á landsbyggðinni lækkaði þó það kynni að vera að það mundi lækka einhvers staðar meira annars staðar. Ég fagna hverri einustu lækkun sem verður á verðlagi á landsbyggðinni og ég samfagna öðrum líka þó það lækki einhvers staðar annars staðar meira. Ætlar hv. þm. Jón Kristjánsson að leggja það til þar sem apótek í Reykjavík eru nú hvert af öðru að auglýsa 10% lækkun á álagningu sinni, 10% lækkun á verði að það verði bannað í Reykjavík af því að sú lækkun skilar sér ekki að fullu út á landsbyggðina? En það er einmitt það sem þetta frv. er að gera. Það er að tryggja það að lækkunin skili sér út á landsbyggðina líka af því að verðið er nú þegar orðið mismunandi en það getur lækkað á landsbyggðinni og hér er verið að skapa skilyrði til þess. Og ég trúi því að hv. þm. Jón Kristjánsson breyti um skoðun um leið og hann fer að kynna sér efni málsins af því að mér heyrist að hann hafi ekki gert það alveg að fullu. Það hlýtur að vera kappsmál okkar beggja að leggja allt okkar að mörkum til þess að verðlag á lyfjum megi lækka jafnmikið á landsbyggðinni og í Reykjavík. Ég hef áhyggjur af því að verðlagið er nú þegar of hátt og ég uni því ekki að sitja við óbreytt ástand sem verndar ofurdýrt verðlag á lyfjum bæði fyrir landsbyggðarfólk og suðurvesturhornsíbúa.