Afgreiðsla mála í iðnaðarnefnd, svar landbrh. við fyrirspurn

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 13:45:56 (6650)


[13:45]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst finna að þessari fundarstjórn. Ég tel að það verði að reyna að halda þannig á þessum dagskrárlið að það sé reynt að klára þau mál sem eiga saman þannig að þegar ræðumenn biðja um orðið, þá sé reynt að tryggja það að menn fari inn í sín mál eða þau mál sem þeir eru beinlínis að bregðast við. Ég gagnrýni það í fyrsta lagi og ég óska eftir því að þessi liður í störfum þingsins verði skoðaður betur því að það er ómögulegt að hlaupa á milli mála eins og gert er núna á þessum mínútum. Þar af leiðandi ætla ég að nota þá mínútu sem ég á nú eftir til þess að bregðast við næstsíðustu eða þriðju síðustu ræðu sem hér var haldin, þ.e. ræðu hæstv. iðnrh. Þegar frv. okkar alþýðubandalagsmanna um orkumál komu fram í haust, þá ræddi ég við núv. hæstv. ráðherra. Hann sagði mér að málin kæmu til meðferðar alveg næstu daga. Við áttum síðan samtöl nokkrum sinnum og ég leit þannig á sem formaður iðnn. að þessi stjórnarfrumvörp væru að koma, og ég taldi og tel eðlilegt að þessi mál hefðu verið afgreidd í samhengi í nefndinni. Síðast óskaði ég eftir því að embættismaður frá iðnrn. kæmi á fund hv. iðnn. 24. jan. sl. Hann sagði þá að frv. yrðu tilbúin eftir eina viku. Sú vika er sem sagt löngu liðin og frv. ekki komin. Og fyrir tveimur vikum óskaði ég eftir því að það kæmi fulltrúi frá ráðuneytinu á fund í nefndinni á nýjan leik og sá fulltrúi sagði að það væri ekki komið samkomulag enn þá í ríkisstjórninni um málið og þar með ljóst að það yrði ekki lagt fyrir yfirstandandi þing. Það er bagalegt af því að hér er um að ræða frv. sem áttu að tryggja og eiga að tryggja ótvíræðan yfirráðarétt þjóðarinnar, m.a. yfir orkulindum í iðrum jarðar og orku fallvatna. (Forseti hringir.) Ég tel þess vegna að hér hafi verið haldið á málum með þeim hætti að við máttum trúa því í iðnn. að stjórnarfrumvörpin kæmu en þau komu ekki og þess vegna kannaði ég í nefndinni á næstsíðasta fundi hennar hvort það væri vilji til þess þar að ljúka málunum á grundvelli frumvarpa Alþb. (Forseti hringir.) --- Ég skal hætta, forseti, en ég hef ekki nærri lokið máli mínu. --- Það var ekki vilji til þess og þess vegna eru þau óafgreidd. Ég óska síðan eftir því að biðja um orðið á nýjan leik, hæstv. forseti.