Lyfjalög

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 15:52:22 (6684)


[15:52]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það eru hafnar hér sérkennilegar vitnaleiðslur sem ég neyðist til að taka þátt í. Þannig háttar til að . . .  ( ÓÞÞ: Sverja fyrst.) Nei, ég hafði nú ekki í hyggju að gera það, enda þarf ég ekki að undirstrika það áður en ég byrja að ég segi satt því að ég geri það ævinlega.
    Hv. formaður heilbrn. skýrði mér frá því um hádegisbilið hér niðri í kaffistofu að nokkrum vitnum viðstöddum að hann þyrfti að gegna öðrum skyldustörfum sem hann hefur austur á landi í dag, nánar tiltekið á Egilsstöðum, og það væri brýnt að það gerðist í dag. Þar er um að ræða kistulagningu sem hann hafði verið kallaður til og taldi sig verða að sinna og spurði mig að því hvort ég teldi að það væri í lagi að hann væri í burtu og umræðan héldi áfram. Ég sagði já fyrir mitt leyti og ég staðfesti það já hér fyrir mitt leyti. Ég bind að sjálfsögðu engan í þeim efnum en bendi hins vegar á í þessu sambandi að það væri kannski skynsamlegt að það yrðu til einhverjar reglur um mál af þessum toga við lok þingsins, t.d. þannig að það væri ævinlega svo að bæði formaður nefndar og ráðherra væru viðstaddir því að t.d. í þessu máli er það svo að hv. heilbr.- og trn. hefur gert alveg gríðarlega miklar breytingar á stjfrv. þannig að eiginlega er frv. núna frekar orðið frv. meiri hluta nefndarinnar heldur en hæstv. ráðherra. Án þess að ég fari í mannjöfnuð með þeim bræðrum, þá tel ég að formaður hv. heilbrn. standi síst að baki ráðherranum að því er varðar ábyrgð á stöðu málsins eins og það er í dag. Ég hef hins vegar litið svo til að miðað við að það er ætlunin að halda hér fundum heyrði ég áfram til kl. 5 og nokkrir eru á mælendskrá, þá ætti að vera hugsanlegt að hallvika mælendaskránni þannig að menn yndu þessari sérkennilegu niðurstöðu og hefðu hana eins og hún er. Ég bendi á það hins vegar að það er dálítið óþægilegt þegar þingmenn stjórnarflokkanna og ráðherrar koma til einstrakra þingmanna með þessum hætti eins og hér hefur gerst og eins og t.d. hefur gerst í menntamálum þar sem við höfum fallist á það að afgreiða menntamál að fjarstöddum hæstv. menntmrh. en með góðri viðveru hv. formanns menntmn. ( ÓÞÞ: Hvenær hefur það komið fram, þetta samkomulag?) Þetta samkomulag hefur aldrei komið fram. Það er að koma fram núna þannig að hér eru málin orðin allsnúin. ( ÓÞÞ: Nætursamkomulag?) Nei, það var kvöldsamkomulag, hv. þm., þannig að hér eru málin allsnúin og vandinn er bersýnilega sá að hvorki ráðherrar né nefndaformenn virðast kunna faglegar boðleiðir í þessum efnum. Hérna virðast hlutirnir klúðurslegri en þeir þyrftu að vera.