Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 10:50:57 (6694)


[10:50]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna. Enn fremur er í frv. kafli þar sem kveðið er á um breytingar á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, nr. 24/1986, með síðari breytingum. Báðir kaflar frv. eru liður í umfjöllun þingsins að þessu sinni um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og þróunarsjóð. Þessi mál hafa verið til umræðu sl. tvö ár á grundvelli endurskoðunar á þeim lögum, samkvæmt ákvæði í gildandi lögum um stjórn fiskveiða frá 1990.
    Enn fremur tengist samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og breytingar á lögum um skiptaverðmæti á greiðslumiðlun þeim kjarasamningum sem stóðu yfir í vetur milli útvegsmanna og sjómanna og enduðu í verkfalli og lausn þess verkfalls með bráðabirgðalögum sem er enn þá í fersku minni.
    Eitt af því sem var rætt mikið um í kjarasamningaviðræðunum var sá möguleiki að setja upp svokallaða samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna, sem hefði það hlutverk að fjalla um álitamál sem tengdust áhrifum viðskipta með veiðiheimildir á uppgjör á aflahlut sjómanna. Segja má að þetta mál hafi verið einn helsti ásteytingarsteinn aðila í þessu verkfalli og með því frv. sem hér er lagt fram er verið að leita lausnar á því máli. Í bráðabirgðalögunum sem samþykkt voru hér á hv. Alþingi eftir verkfallið kom fram að ríkisstjórnin hugðist beita sér fyrir lausn í þessu máli og sú lausn er hér með boðuð með flutningi þessa frv.
    Eins og áður sagði er það hlutverk samstarfsnefndarinnar að fjalla um álitaefni og ágreining er tengjast áhrifum viðskipta með veiðiheimildir á uppgjör og aflahlut sjómanna. Miðað er við að í nefndinni eigi sæti fimm menn, þar af tveir tilnefndir sameiginlega af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og Vélstjórafélagi Íslands, en tveir tilnefndir sameiginlega af Vinnuveitendasambandi Íslands og Landssambandi ísl. útvegsmanna. Fimmti maðurinn er síðan formaður sem sjútvrh. skipar að höfðu samráði við framangreind samtök sjómanna og útvegsmanna.
    Samstarfsnefndin á samkvæmt frv. að afla ítarlegra gagna um fiskverð, forsendur þess og þau atriði sem kunna að hafa áhrif á aflahlut sjómanna. Það mun verða samkomulagsatriði milli nefndarmanna í samstarfsnefndinni hvernig þessari upplýsingaöflun er nákvæmlega háttað og með hvaða hætti upplýsingarnar verða sundurliðaðar og notaðar þannig að þær gagnist sem best í starfi nefndarinnar.
    Til þess að koma málum til þessarar samstarfsnefndar verða þau heildarsamtök sem að tilnefningu samstarfsnefndarinnar standa að leita álits nefndarinnar á ágreiningi og álitamálum sem upp kunna að koma. Það er gefinn 12 vikna frestur frá lokum uppgjörstímabils til þess að taka mál upp fyrir nefndinni. Nefndin þarf síðan að kanna þau mál sem upp koma og leita leiða til lausnar á þeim á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja.
    Samstarfsnefndin skal taka rökstudda afstöðu til þess í einstökum tilvikum hvernig að uppgjöri á aflahlut hefur verið staðið og hún skal sérstaklega láta í ljós afstöðu til þess hvort bersýnilega ósanngjörn viðmið séu fyrir hendi fyrir ákvörðun fiskverðs í tengslum við viðskipti með veiðiheimildir. Hér er kannski komið að kjarna þessa máls og spurningin snýst um það hvað kalla megi ,,ósanngjörn`` eða ,,bersýnilega ósanngjörn`` viðmið. Um þetta hefur allmikið verið rætt, en eins og umræður hafa gengið þá má nefna það að ef óskyldur aðili er að kaupa fisk af útgerð þá snýst spurningin um það hvað sé bersýnilega ósanngjarnt um kannski hvaða fiskverð þessi fiskkaupandi er að greiða sjómönnum og við uppgjör til sjómanna á eigin skipum. Ef verðið sem greitt er er mjög úr takt við það sem skyldir aðilar eru að greiða til eigin skipa þá er þar kominn grundvöllur fyrir því hvað menn telja bersýnilega ósanngjarnt í þessu sambandi. Það á að sjálfsögðu að reyna að ná samhljóða áliti samstarfsnefndarinnar um málin, en gerist slíkt ekki verða greidd atkvæði í nefndinni. Nefndin fær fjögurra vikna frest ef kostur er til þess að ljúka sínum störfum.
    Ef samkomulag er ekki í nefndinni og menn vilja ekki una niðurstöðu hennar þá geta þau heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna sem hafa tilnefnt í nefndina skotið málum til gerðardóms samkvæmt 72. gr. sjómannalaga. Það sem breytist í sambandi við þau lög er að það þarf ekki samþykki gagnaðila til þess að vísa málum til gerðardóms. Síðan er ákvæði um það að kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði og það er að sjálfsögðu háð öllum venjulegum takmörkunum sem fjárveitingar úr ríkissjóði lúta.
    Lagt er til að lög þessi öðlist gildi 1. júní nk. og gildi til ársloka 1995. Þetta þýðir að það verður viss reynslutími á lögunum og aðilar að kjaradeilunni fá þar með tíma og möguleika til þess að láta þetta kerfi virka. Ef þeir verða ásáttir um að þessi samstarfsnefnd sé heppilegt fyrirkomulag þá munu þeir að sjálfsögðu á þessum tíma gera sín á milli kjarasamning eða annars konar samning um áframhaldandi störf þessarar nefndar eða þá að fara fram á það við Alþingi að lög þessi verði framlengd. Ef hins vegar kemur í ljós á starfstíma nefndarinnar að hún virkar ekki sem heppilegt fyrirkomulag í þessum deilumálum þá

fellur hún að sjálfsögðu sjálfkrafa niður með því að lögin gilda einungis til ársloka 1995.
    Um II. kafla laganna er það að segja að þar er verið að lögfesta ákvæði sem var samþykkt á sínum tíma sem yfirlýsing með kjarasamningi milli aðila vinnumarkaðarins. Þetta var yfirlýsing sem var gefin í tengslum við kjarasamninga á árinu 1992. Þar segir svo, þetta er frá 26. apríl 1992:
    ,,Samningsaðilar eru sammála um að útgerðarmanni sé óheimilt að draga útlagðan kostnað vegna leigu eða kaupa á aflaheimildum frá heildarsöluverðmæti aflans áður en skiptaverð til sjómanna er reiknað. Yfirlýsing þessi hefur engin áhrif á frjáls viðskipti útgerðarmanna sín á milli með aflaheimildir né samninga áhafna og einstakra útgerða við fiskkaupendur um fiskverð.``
    Virðulegi forseti. Svo hljóðar þessi yfirlýsing. Með þessu frv. er verið að reyna að gera tilraun til þess að ljúka því máli sem var aðallega ágreiningsefnið í kjarasamningunum um þessa samstarfsnefnd. Um það atriði sem varðar lög um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun hefur náðst að ég tel þokkaleg sátt milli samtaka sjómanna og útvegsmanna og það liggur fyrir að þessir aðilar munu allir tilnefna í þessa samstarfsnefnd til þess að láta reyna á það hvernig þetta fyrirkomulag virkar, ef þessi lög verða hér samþykkt.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, óska þess að Alþingi geti afgreitt þetta mál fljótt og vel þannig að það geti orðið liður í lausn þessa mikla ágreiningsmáls sem hefur verið milli sjómanna og útvegsmanna um uppgjör á fiskverði.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að þessu máli verði vísað til sjútvn.