Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 12:23:51 (6715)


[12:23]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var ýmislegt sem hv. þm. nefndi í sinni ræðu en ég tók eftir því að hann eyddi töluverðum tíma í það að fara yfir þau vandamál sem eru í kringum smábátana og þá stórkostlegu hættu sem af þeim stafar. Hann nefndi að það mundi verða 8%--10% skerðing á aflaheimildum annarra vegna þess að þeir fengju svona mikið til sín. Þá er hann líklega að reikna með því að þeir eigi ekki að fá nokkurn hlut. Ég vil vekja athygli á því að þegar verið er að tala um þessi mál þá eru þau sett mjög ósanngjarnt fram. Það er t.d. aldrei talað um 17.000 tonn sem eru sett til viðbótar til hinna aðilanna, sem nú er verið að bera saman, vegna tvöföldunar á línunni. Það er heldur aldrei minnst á það að 3.000 tonn af karfa sem ríkisstjórnin samdi um að láta útlendinga fá (Forseti hringir.) eru ekki dregin frá. Það er heldur ekki nefnt að þetta er í fyrsta skipti sem verið er að draga þessar tölur frá eftir að búið er að úthluta aflamarki.