Brunatryggingar

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 15:07:18 (6730)


[15:07]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. formanns heilbr.- og trn. þá skrifar öll nefndin undir en minni hlutinn þó með fyrirvara. Ég vil aðeins að það komi fram að fyrirvari minn liggur í því að mér hefði fundist eðlilegt að lög um Brunabótafélag Íslands hefðu fengið sambærilega meðhöndlun og Húsatryggingar Reykjavíkur. Brunabótafélagið hefur, eins og mun koma í ljós á eftir því við erum einnig að fjalla um það í dag, aðlagað sig þeim kröfum sem gerðar voru vegna EES. Hins vegar hafa Húsatryggingar Reykjavíkur viljað fá að starfa áfram og fengu undanþáguheimild til þess og okkur hefði fundist eðlilegt að Brunabótafélag Íslands, sem samdi við mjög mörg sveitarfélög á landinu, sætti sömu kjörum. Í því liggur fyrirvarinn. Að öðru leyti er þetta hið besta mál.