Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:43:08 (6770)


[18:43]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég minni líka á að ég var að reyna að halda mig við það frv. sem er nákvæmlega hér á dagskrá og reyndi að nota ræðutíma minn mest í það að lýsa efnislega afstöðu minni til þess, eyddi að vísu nokkrum tíma í að rekja aðdragandann og málsmeðferðina og lauk máli mínu á því að lýsa yfir stuðningi fyrir mitt leyti við þetta frv. og hef reiknað með því að svo verði með minn þingflokk að við styðjum þetta frv. af því að það gengur í rétta átt. Ég held að það sé svo miklu betra að við notum tímann þegar að umræðunni kemur um hin frv. til að tjá afstöðu okkar til þeirra. En út af fyrir sig er mér engin launung á því og það er ekkert leyndarmál að Alþb. hefur verið fylgjandi því að það yrðu settar reglur sem tækju á þeim vandamálum sem frjálst framsal hefur haft, ágreining í deilum og vandamálum sem því hafa tengst, reglur um þau viðskipti og eftir atvikum takmarkanir og ég fyrir mitt leyti til að mynda er á því að sú regla um 50% nýtingarkröfu á skip á eigin veiðiheimildum sé í skynsamlega átt og reikna með því að styðja hana svo dæmi sé tekið og ég svari einhverju af því sem hv. þm. spurði um (Forseti hringir.) en nú er tíminn búinn.