Stjórn fiskveiða

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 21:40:45 (6782)


[21:40]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hélt að hv. þm. Jóhann Ársælsson kynni meira í sögu íslenska sjávarútvegsins en svo að það hefði algerlega farið fram hjá honum að togurum fjölgaði mjög mikið á áttunda áratugnum, m.a. með því að það var gert sérstakt átak til þess að fjölga togurum og stækka skipastólinn langt umfram það sem afrakstursgeta fiskstofnanna leyfði. Man hv. þm. ekki eftir svörtu skýrslunni 1973 og þeim aðgerðum sem þurfti að grípa til til þess að minnka flotann? Þegar mál voru komin í algert óefni 1983 var ákveðið að taka upp þetta stjórnkerfi fiskveiða sem síðan hefur dugað okkur stórt séð í þessi ár og skilað okkur stórkostlegri hagkvæmni. Ég hygg að ef þessa kerfis hefði ekki notið við þá væri ástandið annað hér hjá okkur, bæði varðandi okkar lfskjör og eins hygg ég að það hefði verið enn þá meira ábyrgðarleysi ríkjandi í sambandi við veiðarnar í heild.