Stjórn fiskveiða

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 23:56:12 (6792)


[23:56]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v. byrjaði á því að tala um að þvílíkt væri bullið, en sagði svo að þetta væri rétt og satt sem ég hefði sagt. Það er eitt sem menn gleyma í þessari umræðu. Þeir gleyma því að 80% fiskvinnslunnar og útgerðarinnar eru í einni og sömu sænginni. Og ef menn eru í alvöru að tala um að það eigi að færa kvóta yfir á fiskvinnsluna þá eru þeir í reynd að stýra málum í þá höfn að kvótinn verði alfarið á fleygiferð, ýmist til fiskvinnslunnar eða til fiskiskipanna eftir því hvernig best stendur á hjá útgerðinni og áfram mun kvótabraskið halda með enn meiri fítonskrafti og í enn meiri vitleysu. Það er nú svo að útgerðin hefur meira og minna ítök í þessu hvort sem er til sjós eða lands. Og það er auðvitað alvarlegur hlutur þegar ábyrgur aðili kemur fram í fjölmiðlum og segir að það sé verið að fórna hagsmunum fólks í fiskvinnslu ef það sé gengið inn á þá braut til lausnar, m.a. í því deilumáli sem var fyrr á árinu gagnvart sjómönnum. Á sama tíma og þessi aðili heldur þessu fram er hann að flytja 18,4% af öllum ísfiski sem seldur er erlendis, þá er hann að framkvæma þetta. Menn eru bara ekki sjálfum sér samkvæmir og því miður heldur ekki þessi ágæti þingmaður, 4. þm. Norðurl. v. Menn eru bara að vaða reyk.