Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 11:53:00 (6814)


[11:53]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir að hafa gert grein fyrir þeim rökum sem liggja að baki þeirri niðurstöðu framsóknarmanna að standa ekki að þessu framhaldsnefndaráliti eins og aðrir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna og ég tek orð hv. þm. fullkomlega gild í þeim efnum.
    Ég verð þó að segja að mér finnst dálítið vafasamt að setja málið upp með þessum hætti vegna þess að þetta snýst kannski sérstaklega um samskiptin við verkalýðshreyfinguna, málið eins og það stendur núna, þó það hafi kannski ekki staðið jafnskýrt þegar málið kom til meðferðar í upphafi. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þeir sem nú eru í stjórnarandstöðu geri sér a.m.k. sem best ljóst hvernig heppilegast er á hverjum tíma að taka á málum eins og þessu, sem lúta að verkalýðshreyfingunni og samskiptum við hana, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu sem kannski er til marks um það sem koma skal ef svo skyldi fara að þessir flokkar lentu einhvern tímann í ríkisstjórn, sem vel getur farið svo. Þess vegna tel ég að niðurstaða hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur og Steingríms J. Sigfússonar sé mjög mikilvæg í þessu sambandi, en ég vil þakka hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni svarið, það er út af fyrir sig gilt og hans rök í málinu eru skýr. Mér þykir til þess koma að menn skuli gera með rökum grein fyrir afstöðu sinni þó ég sé ekki sammála rökunum.