Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 11:55:00 (6815)


[11:55]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. nefndi að veigamikil atriði í þessu máli væru afstaða verkalýðshreyfingarinnar, í þessu tilfelli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Starfsmannafélags ríkisstofnana. Vissulega ber ég fulla virðingu fyrir afstöðu þeirra. Að mínu mati snýr hún hins vegar ekki fyrst og fremst að grundvallarspurningum um það hvort það eigi að selja ríkisfyrirtæki eða ekki. Hún lýtur fyrst og fremst að ákveðnum þáttum varðandi réttindi þeirra sem starfsmanna í ríkisfyrirtækjum. Ég vil þá að það komi hér fram að það kom mjög skýrt fram hjá forustumönnum þessara samtaka að þær viðræður sem nú væru í gangi við ríkið væru á góðu skriði og yfir þeim væri ekkert að kvarta.
    En að lokum vil ég benda hv. þm. á það, ef það ætti að vera afstaða þessara samtaka sem réði alfarið afstöðu okkar í þessu máli og ef það ætti að vera hin almenna regla, þá minni ég bara hv. þm. á það hversu mikið tillit þingmaðurinn og hans flokkur tóku til skoðana þessara sömu samtaka þegar við vorum að afgreiða skattamál í vetur, sem kannski sýnir í hnotskurn að Alþingi verður að taka sjálfstæða afstöðu í málum. Það er því miður orðið allt of mikið um það og það kristallast í sjávarútvegsumræðunni þessa dagana að alþingismenn vísi til afstöðu samtaka utan þings. Þó vissulega sé afstaða slíkra samtaka fullrar virðingar verð þá verða þingmenn að gera einstök mál upp við sína samvisku.