Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 15:01:45 (6843)


[15:01]
     Frsm. minni hluta umhvn. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemd við ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Þau ummæli sem hann vitnaði í stend ég við í einu og öllu. Fyrirvari minn snerti þetta ekki neitt. Það er hægt að nálgast það markmið sem ég lýsti þarna sem æskilegu markmiði, að gera bót á ástandinu í Frakklandi, ef menn vilja ræða það, með ýmsum aðferðum og það er einmitt aðferðin sem ég er að gagnrýna en ekki niðurstaðan. Ég hef ekkert breytt um skoðun í þessum efnum. En ég hef leyft mér að láta málið þroskast í huga mér að því er varðar leiðina sem farin er í frv.
    Ég vil því mælast til þess, þó að ég hafi ánægju af því að fá að skiptast á skoðunum við hv. þm. því að hann hefur mikla þekkingu á þessu málum þó að hann nálgist þessi mál með öðru hugarfari en ég, að hann snúi ekki út úr orðum mínum.