Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 16:41:30 (6861)


[16:41]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Ég sá þessa brtt. um leið og aðrir þingmenn þegar hún kom á borð þingmanna fyrir nokkrum mínútum þannig að hún kom mér jafnmikið á óvart og öðrum, bæði þingmönnum sem sitja í umhvn. og öðrum en hún er ekki á dagskrá þar sem hún kemur það seint fram að það þarf að leita afbrigða til að hún megi koma til umræðu.
    Það er rétt að ég hafði boðað örstuttan fund í umhvn. núna kl. 5. Að vísu geta ekki allir nefndarmenn komið þar sem ég hafði svo stuttan fyrirvara á boðun fundarins, en ég tel eðlilegt og get lýst því hér að hæstv. ráðherra geti haldið sína ræðu, en auðvitað ekki um þessar brtt. að sjálfsögðu, af því að það hefur verið upplýst að hann sé á förum þá vildi ég mæla með því. Að öðru leyti er það auðvitað í hendi forseta hvernig hann heldur á málum í framhaldinu. En ég tel nauðsynlegt að umhvn. fjalli um þessa brtt. því að nú erum við farin að fá mikið af brtt. við frv. sem gerbreyta því í raun þannig að það er spurning hvað við erum með í höndunum núna til umræðu hér.