Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:33:39 (6895)


[11:33]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er frá því að segja í þessu sambandi að sú stefna var uppi að tryggingagjaldið breyttist í þeim rekstri þar sem virðisaukaskattur yrði jafnframt lagður á, en þær breytingar urðu fyrir síðustu jól að ákveðið var að hverfa frá því að leggja virðisaukaskatt á verulegan hluta ferðaþjónustunnar. Þar af leiðandi þótti ekki ástæða til þess að halda í þá stefnu að lækka tryggingagjaldið, en þess skal getið að veitingastarfsemin varð ekki fyrir neinum skattalegum áhrifum fyrir síðustu áramót öðrum en þeim að það er auðvitað þeim til hagsbóta að virðisaukaskattur af matvælum lækkaði. Það eina sem ríkisstjórnin hefur því gert að öllu samanlögðu hingað til og Alþingi að sjálfsögu líka gagnvart þessari sérstöku grein er að lækka matvælin sem styrkir samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem sækjast m.a. eftir erlendum ferðamönnum sem sínum viðskiptamönnum.